Grillaðar samlokur með vegan kjúklingasalati

Góðan daginn kæru vinir.

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af djúsí grilluðum samlokum með vegan kjúklingasalati og osti. Svo gott að ég gæti grátið!

DSCF1646.jpg

Uppskriftin er í samstarfi við Hellman’s. Vegan majónesið þeirra er eitt það allra besta á markaðnum og er fullkomið í góð sallöt og sósur. Mér finnst gott að eiga alltaf til krukku af majónesinu þeirra svo ég geti skellt í góða pítu- eða hamborgarasósu hvenær sem er. Já, eða þetta gómsæta vegan kjúkligasalat

DSCF1666.jpg

Ég er mikið fyrir majónessalöt og þetta tiltekna salat hefur oft slegið í gegn í mínum veislum og partýum. Ég hef borið það fram með góðu kexi og einn skammtur hverfur yfirleitt á nokkrum mínútum. Salatið er líka frábært í allskonar samlokur og langlokur og ég hef líka gert litlar vefjur sem ég sker niður í munnbita. Allt saman jafn gott!

Hugmyndin um að útbúa grillaðar samlokur með salatinu kom til mín í dag. Ég hafði fyrst hugsað mér að bera það öðruvísi fram fyrir færsluna, en lá svo í rúminu í morgun og fékk þessa hugmynd. Ég vissi ekki hvernig það kæmi út og dreif mig að prófa. Guð minn góður hvað ég er glöð að ég gerði það, ég hef ekki borðað jafn góða samloku lengi.

DSCF1682-2.jpg

Já ég get líka sagt ykkur það að ég gerði mér sérstaka ferð til Luleå, sirka klukkutíma frá mér, bara til þess að kaupa nýtt samlokugrill því ég vildi gera gómsætar samlokur sem minntu svolítið á grillað panini. Ég vildi fá þessar fínu rendur sem koma í þessum ákveðnu grillum. Ég veit að það er kannski svolítið galið, en ég sé svo sannarlega ekki eftir þessum kaupum.

DSCF1703.jpg

Ég hlakka til að heyra hvort þið prófið að gera þessar sjúlluðu samlokur og hvað ykkur finnst!

Hráefni:

Vegan kjúklingasalat með karrý

  • 1 pakki vegan kjúklingabitar

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka vegan Hellman’s majónes

  • 1/2 dl vegan hrein jógúrt eða grísk vegan jógúrt

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrýduft

  • salt og pipar eftir smekk

Hráefni í 3-4 samlokur

  • 6-8 brauðsneiðar

  • 1 skammtur kjúklingasalat

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk

  • Vegan smjör til að smyrja samlokurnar að utanverðu (má sleppa)

Gott að bera fram með:

  • Kóríander

  • Pikluðum rauðlauk

  • Frönskum

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

  5. Smyrjið brauðsneiðar með smjöri að utanverðu

  6. Smyrjið salati á og dreifið rifnum osti yfir

  7. Grillið samlokurnar í samlokugrilli eða á pönnu þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið fengið örlítið gylltan lit.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Hellman’s á Íslandi-

 
Hellmann’s-Logo-2015.jpeg
 

Frosin vegan ostakaka með Amaretto, sykruðum möndlum og súkkulaðiganache

Góðan daginn!

Ég vona að þið hafið það gott. Sjálf sit ég við eldhúsborðið og drekk kaffisopa, þakklát fyrir að geta setið inni og unnið á meðan hellirignir úti. Sumarið er að líða undir lok og á þessum nokkrum mánuðum sumarsins hef ég gengið í gegnum miklar breytingar. Í rauninni hefur allt þetta ár haft í för með sér miklar breytingar hjá mér. Allra helst þó eftir að pabbi okkar Júlíu lést í vor. Það hefur opnað fyrir allskonar tilfinningar og spurningar og gert það að verkum að ég lít ýmsa hluti öðrum augum en ég gerði áður. Ég hef alltaf átt það til að ofhugsa aðstæður og festast í áhyggjum yfir hlutum sem ég hef haldið að skipti miklu máli. Hlutum sem virðast skipta máli á því augnabliki, en eru í raun bara smámunir. Ég finn að inni í mér hef ég verið að átta mig á því hversu miklum tíma ég hef eytt í að hafa áhyggjur af og svekkja mig að óþörfu. Á meðan það er að mörgu leyti frelsandi að átta sig á þessu og geta sleppt frá sér því sem hefur verið að taka óþarfa orku, er á sama tíma erfitt að breyta mynstrinu sem hefur verið síðan á unglingsárum.

DSCF1379-5.jpg

Ég hef til dæmis eytt miklum tíma í sumar í að hafa áhyggjur af því hversu fjarverandi ég hef verið á blogginu okkar síðasta árið. Hversu lítið af uppskriftum ég hef deilt með ykkur og hvort ég sé að valda ykkur öllum vonbrigðum. Ykkur sem leitið til okkar í von um að finna nýjar og spennandi uppskriftir. Fyrri hluta ársins nagaði þetta mig mikið og ég var farin að hafa áhyggjur af því að ég hefði nú þegar gert allar þær uppskriftir sem ég mun nokkurntíman gera. Eins og ég væri búin að missa alla kunnáttu í eldhúsinu.

Í sumar hef ég svo unnið að því að breyta hugarfarinu mínu og minna mig á hvers vegna ég byrjaði að blogga og hvers vegna ég elska að vera í eldhúsinu. Ég áttaði mig á því að það er enginn annar en ég sem situr heima hjá sér með áhyggjur af því hvort ég muni elda góðan mat í dag eða blogga. Var þetta virkilega mitt stærsta vandamál? Ég stóð upp, gerði plan og byrjaði að elda og baka og mynda og áður en ég vissi af var ég komin aftur í flæðið sem ég hafði ekki komist í lengi.

DSCF1402-4.jpg

Ég hef hlakkað mikið til að deila með ykkur uppskrift dagsins. Frosin ostakaka með Amaretto, ristuðum og sykruðum möndluflögum og súkkulaðiganache. Að mínu mati hinn fullkomni eftirréttur. Fyrir ykkur sem ekki viljið nota áfengi í kökuna er ekkert mál að sleppa því, setja smá kaffi kannski eða eitthvað annað sem gefur spennandi bragð. Annars get ég ímyndað mér að það sé gott að prófa að setja Kahlúa ef þið hafið ekkert á móti að nota áfengi en eruð minna fyrir möndlulíkjör.

Sykruðu og ristuðu möndlurnar eru að mínu mati punkturinn yfir i-ið. Þær gefa kökunni þetta litla extra og mér þykir nánast undantekningarlaust nauðsynlegt að hafa einhverskonar “crunch” í því sem ég borða.

DSCF1412-5.jpg

Þetta er svo sannarlega eftirréttur sem ég mæli með því að bjóða uppá í matarboði eða veislu. Ef ég væri að halda matarboð í dag myndi ég bjóða uppá þetta gómsæta Tikka masala í aðalrétt og svo ostakökuna í eftirrétt. Hversu gott?!

DSCF1444.jpg

Frosin ostakaka með Amaretto, sykruðum möndlum og súkkulaðiganache

Hráefni:

Botn:

  • 200 gr digestive kex

  • 100 gr vegan smjörlíki

  • 1 msk sykur

Fylling:

  • 2,5 dl vegan þeytirjómi (mæli með þeim frá Oatly. Ein svoleiðis ferna passar í uppskriftina)

  • 300 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl Disaronno Amaretto likjör

  • 1,5 dl sykur

  • 1 msk vanillusykur

Sykraðar möndlur:

  • 2 dl möndluflögur

  • 6 msk sykur

  • 1 msk vegan smjörlíki

  • Pínulítið salt

Súkkulaðiganache:

  • 200 gr suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)

  • 1,5 dl vegan þeytirjómi (óþeyttur)

  • Pínulítið salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa botninn með því að mylja niður kexið, annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í lokaðan nestispoka og brjóta kexið með kökukefli.

  2. Bræðið smjörlíki og hellið útí matvinnsluvélina ásamt sykrinum og púlsið þar til það hefur blandast vel saman við. Ef þið myljið kexið með kökukefli, hellið því þá í skál og blandið smjörlíkinu og sykrinum saman við með sleif.

  3. Setjið bökunarpappír í botninn á 20 cm smelluformi og smyrjið hliðarnar með smjörlíki. Hellið mulda kexinu í formið og þrýstið því í botninn og aðeins uppí hliðarnar. Setjið í frysti á meðan þið útbúið fyllinguna og möndlurnar.

  4. Útbúið möndlurnar með því að hita á pönnu smjörlíki og bæta restinni af hráefnunum saman við.

  5. Hrærið stanslaust á meðal háum hita þar til möndlurnar byrja að taka á sig lit og sykurinn hefur bráðnað. Það tekur smá stund en að lokum verða möndlurnar gylltar og fínar.

  6. Færið strax yfir á bökunarpappír og látið kólna. Brjótið svo í sundur til að nota í kökuna.

  7. þeytið rjómann í stórri skál og leggið til hliðar.

  8. Þeytið restina af hráefnunum fyrir fyllinguna saman í annarri skál.

  9. Bætið þeytta rjómanum útí skálina og blandið varlega saman með sleif eða sleikju.

  10. Takið kökubotninn úr frystinum og setjið fyllinguna í formið. Ég vildi ekki bæta möndlunum út í sjálfa fyllinguna því ég vildi ráða því svolítið sjálf hversu mikið af möndlum ég hafði í. Ég tók frá tæplega helminginn af möndlunum til að toppa kökuna. Ég setti smá fyllingu, stráði svo möndlum yfir, bætti við meiri fyllingu og koll af kolli.

  11. Setjið í frysti í 1-2 klukkutíma

  12. Gerið súkkulaðiganache með því saxa niður súkkulaði.

  13. Hellið þeytirjóma í pott (ekki þeyta hann) og hitið þar til hann er nánast farinn að sjóða.

  14. Setjið súkkulaðið í skál og hellið heita rjómanum saman við. Stráið út í örlitlu salti. hrærið varlega þar til súkkulaðið hefur bráðnað í rjómanum. Takið kökuna úr frystinum, hellið súkkulaðiganache yfir, stráið möndlum yfir og setjið aftur inn í frysti í a.m.k fjóra klukkutíma.

  15. Takið út 30-60 mínútum áður en þið ætlið að bera kökuna fram.

Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.

-Helga María

Kjúklingabaunasalat með vorlauk og vínberjum

IMG_9662.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af ótrúlega gómsætu kjúklingabaunasalati. Við erum nú þegar með eina uppskrift af slíku salati hérna á blogginu sem heitir “betra en túnfisksalat” og er alveg ótrúlega gott en það sem ég elska við kjúklingabaunasalöt er hvað er hægt að gera þau á marga vegu. Þetta er eitthvað það þægilegasta sem hægt er að gera þegar von er á heimsókn og slær alltaf rækilega í gegn hjá mér.

Í þetta skipti er salatið í samstarfi við Oddpods en það er baunir sem koma tilbúnar til neyslu beint úr pakningunum. Þær koma þó ekki í niðursuðudósum líkt og baunir gera venjulega og þar af leiðandi ekki í neinum vökva, það gerir það að verkum að þær halda næringarefnum betur. Salatið inniheldur rauða papríku, vorlauk og rauð vínber og er það alveg svo ferskt og gott!

Á Instagram hjá okkur má einnig finna “REELS” myndband þar sem sést hversu auðvelt er að útbúa salatið.

IMG_9671.jpg

Hráefni:

  • 1 pakki kjúklingabaunir frá oddpodds

  • 1/2 dl niðursöxuð rauð paprika

  • 1/2 dl niðursaxaður vorlaukur

  • u.þ.b. 1 dl niðurskorin rauð vínber

  • 1/2 tsk paprikuduft

  • 1/2 tsk laukduft

  • 2 kúfullar msk vegan majónes

  • 1 kúfull msk vegan sýrður rjómi (má líka setja 1 msk í viðbót af majónesi í staðin)

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að stappa kjúklingabaunir gróft niður með kartfölurstappara eða gaffli.

  2. Saxið niður grænmetið og vínberin.

  3. Hrærið saman majónesið og sýrða rjómanum.

  4. Blandið öllu saman í skál og smakkið til með salti og pipar

-Njótið vel og endilega kíkið á REELS myndböndin okkar á Instagram :D

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi -

1592222828650.jpg

Grillaðar vegan pylsur á þrenns konar vegu

IMG_0438.jpg

Í dag er föstudagur og því finnst mér tilvalið að deila með ykkur líklega síðustu grillfærslu sumarsins. Þetta sumar er búið að líða alveg ótrúlega hratt og er erfitt að trúa því að núna séu skólar að komast á fullt. Núna í lok ágúst finnst mér því fullkomið að deila með ykkur þessari færslu sem inniheldur mismunandi tillögur af því hvernig bera megi fram Anamma pylsurnar. Anamma pylsurnar eru í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum og elskum við að grilla þær því það er svo einfalt og þægilegt. Þær eru einnig fullkomin matur til að taka með sér í útilegur eða í grillveislur til vina eða fjölskyldu.

IMG_0455-2.jpg

Ég elska hefðbundnar pylsur með tómatsósu, steiktum lauk og sinnepi en finnst einnig alveg ótrúlega skemmtilegt að leika mér með mismunandi hráefni og matreiða pylsurnar á ólíka vegu. Það má breyta réttinum alveg með því að setja aðrar sósur eða góð salöt á pylsurnar. Það má undirbúa öll hráefnin í þessari færslu fyrirfram þar sem þau eru öll mjög einföld og taka með sér í lautarferð eða hvar sem planið er að grilla.

IMG_0459-2.jpg

Þessi hefðbundna:

  • Anamma pylsur

  • Tómatsósa

  • Steiktur laukur

  • Sinnep (ég nota yfirleitt bæði pylsusinnep og sætt sinnep)

  • Heimagert kartöflusalat (uppskrift neðst í færslunni)

  • Pylsubrauð

Aðferð:

  1. Útbúið kartöflusalatið eftir uppskriftinni neðst í þessari færslu.

  2. Grillið pylsurnar í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til þær fá fallega gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðinn og raðið hráefnunum á eins og hver og einn vill.

BBQ pylsur:

  • Anamma pylsur með bbq sósu

  • Chilli majónes

  • Grænt salat

  • Hrásalat

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat, uppskriftina af því má finna neðst í þessari færslu.

  2. Pennslið pylsurnar með bbq sósu og grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pylsurnar frá fallegar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

IMG_0462-2.jpg

Þessi mexíkóska:

  • Anamma pylsur

  • Mangósalsa (uppskrift neðst í færslunni)

  • Guacamole (uppskrift neðst í færslunni)

  • Grænt salat

  • Sýrður rjómi

  • Svart Doritos

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa mangósalsað og guacamole sem er hér neðst í færslunni.

  2. Grillið pyslurnar í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til þær fá fallegar gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

Kartöflusalat

  • 500 gr kartöflur

  • 2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)

  • 3/4 dl vegan majónes

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • 2 tsk sítrónusafi

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.

  2. Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.

  3. Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.

Hrásalat

  • 1 dl vegan majónes

  • 1 dl þunnt skorið hvítkál

  • 1 dl þunnt skorið ferskt rauðkál

  • 2 litlar eða 1 meðalstór gulrót

  • 1 tsk agave síróp

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið og rauðkálið í mjög þunnar sneiðar.

  2. Rífið niður gulræturnar.

  3. Blandið öllum hréfnum saman í skál. Saltið eftir smekk

Mangó salsa

  • 1 dl niðurskorið mangó

  • 1 dl niðurkorið papríka

  • 1/2 dl niðursaxaður rauðlaukur

  • safi úr hálfri lime

  • Salt eftir smekk

  • Ferskt kóríander eftir smekk (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið niður grænmetið og mangóið í litla bita.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál.

  3. Saltið eftir smekk.

Guacamole

  • 2-3 stór avocado

  • 1/2 hvítlauksgeiri

  • 1 tómatur

  • 1/2 lítill rauðlaukur

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Safi úr 1/2 lime

  • Ferstk kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að stappa avocadoin vel saman með gaffli

  2. Saxið niður tómat og rauðlauk og pressið hvítlauk

  3. Blandið öllum hráefnum saman við avocadómaukið og hrærið vel saman.

  4. Saltið og piprið eftir smekk

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi -

 
anamma_logo.png
 

Ofnbakað pasta með rauðu pestói

IMG_9604.jpg

Nú þegar fer að hausta er ég í algjöru stuði til að gera góða ofn og pottrétti. Það er svo ótrúlega þægilegt að geta sett öll hráefnin í eitt mót eða stóran pott og eldað það saman. Mér finnst einnig mjög mikilvægt að kunna að gera góða rétti sem þarfnast lítillar fyrirhafnar og elda sig sjálfir, sérstaklega þegar mikið er að gera og lítill tími gefst í eldamennsku.

Svokallað “Í einn pott” pasta eða” One pot pasta” líkt og það er kallað á ensku er tilvaldin svoleiðis réttur. Þessir réttir hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár þar sem þeir eru svo einfaldir og elda sig alveg sjálfir. Þá er hrátt pasta, vatn og fleiri hráefni sett saman í eldfast mót eða pott og því leyft að malla þar til pastað er soðið og rétturinn tilbúin.

Í þessari viku ætla ég akkúrat að deila með ykkur slíkri uppskrift en það má segja að þetta sé hinn fullkomni hversdagsréttur. Ég ákvað að elda réttin í eldföstu móti í ofni í stað þess að gera það í potti á hellu, einfaldlega vegna þess að mér finnst það þægilegra og uppvaskið eftir það auðveldara heldur en hitt. Það eina sem þarf að gera er að hræra öllu saman í form og skella í ofninn. Þá þarf ekki að hafa neinar áhyggjur að það sjóði uppúr eða að eitthvað brenni við botninn á pottinum.

Ég ákvað að setja smá vegan ost yfir réttinn í lokin til að gera hann extra djúsí en það má alveg sleppa því. Ég notaði rauða pestóið frá Sacla Italia þar sem það er lang uppáhalds pestóið mitt. Það er þó alveg hægt að leika sér með réttinn eins og hver og einn vill, nota til dæmis grænt pestó og það grænmeti sem til er. Þetta getur verið alveg fullkomin réttur til að nota restar úr ísskápnum í.

IMG_9626.jpg

Hráefni

  • 350 gr pasta

  • 3 hvítlauksrif

  • 1/2-1 rauð paprika

  • 1/2 krukka svartar ólífur

  • 1/2 meðalstór haus brokkolí

  • 1/2 dl næringarger

  • 1 krukka rautt pestó úr vegan línunni hjá Sacla Italia

  • 750 ml grænmetissoð

    • 750 ml vatn + 2 grænmetisteningar hitað saman

  • 2-3 lúkur af vegan rifnum osti (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C.

  2. Byrjið á því að setja vatn og grænmetisteninga í pott og hita þar til suðan kemur upp. Hrærið aðeins í og slökkvið undir um leið og fer að sjóða.

  3. Skerið allt grænmeti og ólífur niður og saxið hvítlaukinn.

  4. Setjið allt hráefni, nema ostinn, í eldfast mót og blandið því vel saman.

  5. Setjið álpappír yfir mótið og eldið í ofninum í 30 mínútur, takið síðan álpappírinn af og setjið ostinn yfir og bakið í 15 mínútur í viðbót.

  6. Þegar ég tek réttinn úr ofninum finnst mér best að hræra öllu vel saman og blanda ostinum við réttinn sjálfan en það þarf ekki að gera það.

- Færslan er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi. -

 
logo Sacla.jpg
 

Möffins með kanilmulningi og glassúr

Góðan daginn!

Ég vona að þið hafið það gott. Sjálf sit ég inni í eldhúsi og drekk fyrsta kaffibolla dagsins. Það er föstudagur og ágúst er hálfnaður. Sumarið hefur verið gott. Hér í Piteå hefur sólin skinið nánast allt sumarið og eins og heima á Íslandi er bjart allan sólarhringinn. Á meðan ég fagna sumrinu á hverju ári eftir langan veturinn þá verð ég að viðurkenna að ég hlakka mikið til haustsins. Þegar það kólnar örlítið og loftið verður ferskt og frískandi. Þegar laufin verða gul og rauð ég get aftur farið að nota þykku peysurnar mínar. Uppskrift dagsins er einmitt innblásin af þrá minni eftir haustinu. Möffins með kanilsykurshvirfli (swirl), toppaðar með kanilmulningi og glassúr.

Eins og ég sagði í síðustu færslu er ég aldrei jafn hugmyndarík í eldhúsinu og á haustin og fram að jólum. Ég get ekki alveg útskýrt hvað það er. Á sumrin er ég yfirleitt alveg hugmyndasnauð og síðan þegar líður að haustinu fer hausinn í gang. Ég þarf að finna leið til að viðhalda þessu frjóa hugmyndaflugi allt árið.

DSCF0666.jpg

Þessar möffins eru dúnmjúkar og “flöffy” með krispí krömbli, eða mulningi, sem er virkilega hin fullkomna blanda að mínu mati. Að lokum eru þær svo toppaðar með vanilluglassúr. Að hugsa sér að fyrir minna en tíu árum hafi fólk haldið að erfitt væri að baka góðar vegan kökur og tertur. Það er sem betur fer liðin tíð!

DSCF0680.jpg

Við erum farnar að skipuleggja uppskriftir haustsins og ég spurði á instagram í gær hvað lesendur okkar vilja sjá á blogginu. Þar fengum við mikið af skemmtilegum hugmyndum sem við erum búnar að skrifa hjá okkur. En við skulum vinda okkur að gómsætu möffinskökunum.

Möffins (12 kökur):

  • 5 dl hveiti

  • 2 og 1/2 dl sykur

  • 1 msk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 2 tsk vanillusykur - eða vanilludropar

  • 1 dl bragðlaus matarolía

  • 4 dl haframjólk (önnur jurtamjólk virkar líka. Bætið við eftir þörf ef deigið er alltof þykkt)

Kanilsykursblanda:

  • 1 dl púðursykur

  • 1 msk kanill

Kanilmulningur

  • 2 dl hveiti

  • 1 dl púðursykur

  • 1 msk kanill

  • 6 msk bráðið smjörlíki

Glassúr:

  • 3 dl flórsykur

  • 2-3 msk haframjólk (eða önnur jurtamjólk)

  • 1 tsk vanillusykur

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Byrjið á því að búa til kanilsykursblönduna og mulninginn og leggið til hliðar. Bæði er gert með því að blanda hráefnunum í skálar.

  3. Gerið möffinsdeigið með því að blanda saman þurrefnunum í stóra skál, bæta mjólkinni og olíunni saman við og hræra með höndunum. Það er alveg óþarfi að nota rafmagnsþeytara eða hrærivél. Ég nota písk og reyni að hræra ekkert alltof mikið svo kökurnar verði sem mjúkastar.

  4. Leggið möffins pappírform í möffinsskúffu eða á ofnplötu ef þið eigið ekki svona möffinsskúffuform.

  5. Fyllið formin að hálfu með deigi, deilið svo kanilsykursblöndunni niður í formin og hellið möffinsdeigi yfir þar til formið er sirka 3/4 fullt.

  6. Deilið mulningnum niður í formin og munið að það mun líta út fyrir að þetta sé svakalega mikið en það mun ekki líta svoleiðis út þegar kökurnar eru bakaðar.

  7. Bakið í 12-18 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út úr kökunum þegar stungið er í þær.

  8. Útbúið glassúrinn á meðan kökurnar kólna með því að blanda saman hráefnunum í skál. Hellið honum svo yfir kökurnar þegar þær hafa kólnað aðeins.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel!

-Helga María

Tómatgalette með hvítlauk og rjómaosti

Hæ! Ég vona að þið hafið það gott og séuð að njóta þess síðasta af sumrinu. Persónulega get ég ekki beðið eftir haustinu, en það er mín uppáhalds árstíð. Á haustin er ég sem mest skapandi í eldhúsinu og haustlegar súpur og pottréttir eru eitthvað sem ég get borðað endalaust af. Í dag ætla ég þó ekki að deila með ykkur súpu heldur unaðslega góðri tómatgalette með rjómaosti og hvítlauk sem ég hef heldur betur beðið spennt eftir að geta birt hérna á blogginu. Galette er franskt orð yfir flata böku. Eða ég skil það svoleiðis, þið megið endilega leiðrétta mig ef ég hef rangt fyrir mér.

Ég elska bökur og galette er virkilega einföld tegund af böku. Það þarf að hafa nokkra hluti í huga þegar botninn er gerður, en þrátt fyrir það er auðvelt að útbúa hann. Það sem mér þykir kostur við galette bökur er að þær mega gjarnan líta svolitið heimagerðar og frjálslegar út. Það er algjörlega óþarfi að reyna að gera þær fullkomnar.

DSCF0396-4.jpg

Uppskrift dagsins er unnin í samstarfi með Violife á Íslandi og ég notaði bæði hvítlauks- og jurtarjómaostinn þeirra og epic mature cheddar ostinn. Já, sum ykkar munið kannski eftir því að ég nefndi það í færslu um daginn að ég finni hvergi epic mature ostinn hérna í Piteå. Fyrir nokkrum vikum hljóp ég inní matvöruverslun í bænum Skellefteå, sirka klukkutíma frá Piteå, til að kaupa mér eitthvað að drekka. Þar rak ég augun í ostinn góða og keypti hvorki meira né minna en fimm stykki. Nú er ég að klára þann síðasta svo ég þarf kannski að gera mér ferð þangað aftur hehe.. Epic mature cheddar er minn uppáhalds ostur og passar virkilega vel á bökuna með rjómaostinum og tómötunum. Mæli virkilega með.

Sjáið alla þessa fallegu liti. Ferskir tómatar í öllum stærðum og gerðum.

Eins og ég sagði hér að ofan er alger óþarfi að reyna að gera bökuna fullkomna. Ég brýt hana bara einhvernveginn yfir kantinn og hún verður alltaf fullkomlega ófullkomin.

DSCF0446-4.jpg

Uppskrift

Botninn

  • 3 og 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk salt

  • 120 g kalt smjörlíki

  • sirka 1/2 dl ísvatn (ég byrja á 1/2 dl bæti svo við tsk eftir þörfum. Og já ísvatn= vatn með klökum)

  • 1 msk eplaedik

Aðferð:

  1. Blandið saman hveiti og salti.

  2. Skerið smjörið í litla teninga og myljið saman við hveitið með höndunum þar til klumparnir eru á stærð við litlar baunir.

  3. Látið klaka liggja í vatninu þar til það er ískalt. Sigtið klakana frá og byrjið á því að hræra 1/2 dl saman við deigið með gaffli ásamt eplaedikinu.

  4. Hellið blöndunni á borð og vinnið með hönunum. Bætið við vatni í tsk þar til þið fáið þétt deig úr blöndunni. Vinnið ekki of mikið.

  5. Mótið kúlu og vefjið í plastfilmu og setjið í kæli í 1-2 klst.

Fylling:

  • 500 gr ferskir tómatar

  • 2-3 hvítlauksgeirar

  • 100 gr jurta- og hvítlauksrjómaostur frá Violife

  • Epic mature cheddar ostur eftir smekk. Ég reif niður svo að hægt var að þekja stóran hluta bökunnar. Mæli ekki með því að hafa of þykkt lag af osti því það er frekar mikið af rjómaosti. Held ég hafi notað sirka 1/4 af oststykkinu

  • Salt og pipar

  • Ferskar jurtir til að toppa með (ég notaði basiliku og smá timían)

  • Sítrónusafi til að toppa með

  • Chiliflögur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 190°c.

  2. Fletjið út deigið svo að það verði sirka kringlótt.

  3. Smyrjið rjómaosti yfir deigið en skiljið eftir smá kant. Ég hef ekkert á móti því að hafa örlítið af rjómaosti í skorpunni.

  4. Stráið osti yfir.

  5. Skerið tómatana í sneiðar og hvítlaukinn líka. Raðið tómötunum á eldhúspappír og saltið. Leyfið þeim að standa í 5-10 mínútur og þurrkið svo safann af sem myndast. Þetta er gert svo það myndist ekki of mikið af tómatsafa í bökunni. Raðið yfir ostinn ásamt hvítlauknum. Athugið að það mun líta út fyrir að þetta sé svakalega mikið magn af tómötum en þeir munu minnka í ofninum svo ekki hafa áhyggjur af því.

  6. Saltið og piprið.

  7. Bakið bökuna í sirka 30 mínútur eða þar til hún er gyllt að ofan. Það fer svolítið eftir ofnum hversu langan tíma þetta tekur. Ég bakaði mína í um 30 mínútur á blæstri en í gamla ofninum tók það næstum 40 mínútur. Ég myndi byrja að fylgjast með bökunni eftir 20 mín.

  8. Takið bökuna út og kreistið yfir hana smá sítrónusafa og stráið chiliflögum yfir ef þið viljið.

  9. Berið fram með ferskum jurtum. Ég mæli líka með að hafa klettasalat og vegan sýrðan rjóma.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!

-Helga María



-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png