Vegan marmarakaka

IMG_2419-3.jpg

Við fengum fyrirspurn fyrir nokkrum dögum um hvort við ættum uppskrift af vegan marmaraköku. Við áttum enga slíka uppskrift svo ég ákvað að slá til og prufa mig áfram með svoleiðis köku og í dag er ég komin með dásamlega góða uppskrift. Kakan er svo ótrúlega góð og er alveg dúnmjúk eins og mér þykir best. Okkur finnst svo skemmtilegt þegar þið sendið okkur hugmyndir af uppskriftum til að prufa. Mér finnst ég oft svo hugmyndasnauð og því er gott að fá smá extra hjálp við að koma sér af stað og reyna eitthvað nýtt.

IMG_2384.jpg

Mér finnst ótrúlega gaman að vera farin að prufa mig áfram með fleiri köku uppskriftir. Ég hef verið svolítið föst í því að baka alltaf það sama fyrir hvert tilefni, og það er þá yfirleitt súkkulaðikakan okkar eða gulrótarkakan. Báðar eru alveg dásamlega góðar, en mér finnst mjög skemmtilegt að hafa úr fleiru að velja. Í síðustu viku birti ég uppskrift af þessari dásamlegu vegan möndluköku og í dag er það þessi æðislega og einfalda marmarakaka. Nú held ég að ég þurfi að fara að skella í eitt risastórt kökuboð.

IMG_2392.jpg

Mér finnst marmarakaka vera hin fullkomna sunnudagskaka og hentar einnig vel að eiga í ísskápnum og fá sér yfir kaffibolla sem síðdegishressingu. Þetta er einmitt svona týpísk kaka sem amma okkar bar á borð með sídegiskaffinu þegar við vorum yngri.

IMG_2394-2.jpg

Eins og ég hef talað um áður er ég enginn bakarameistari og mér finnst mjög erfitt að gera fallega skreyttar kökur á mörgum hæðum (Júlía sér alfarið um svoleiðis meistaraverk). Þegar ég baka fyrir afmælisboð eða önnur tilefni enda ég yfirleitt á að baka kökur í einhverskonar eldföstu móti eða minni útgáfu af ofnskúffu, smyrja yfir þær kremi og skera í kassa. Því finnst mér alltaf svo gott að geta gert einfaldar uppskriftir sem þarf bara að skella í form og hafa litlar áhyggjur af. Þessi uppskrift er dæmi um slíka köku. Það er hægt að pensla yfir hana bræddu súkkulaði ef maður vill eftir að hún hefur kólnað, og leyfa því að harðna, en mér finnst best að hafa hana bara svona.

IMG_2397.jpg

Ég mun klárlega baka þessa köku reglulega. Hún er ekki bara þægileg til að eiga heima heldur líka til að taka með á kaffistofuna í vinnunni eða eitthvað því líkt. Það er auðvelt að skera hana og það þarf ekki diska eða gaffla til að borða hana. Það er líka svo gaman að bjóða fólki upp á bakkelsi sem sýnir að dýraafurðir eru engin nauðsyn þegar kemur að því að baka góðar kökur.

Mér þætti ótrúlega gaman að fá fleiri hugmyndir frá ykkur af uppskriftum til að prufa, hvort sem það er bakstur eða einhver annar matur. Við tökum öllum hugmyndum fagnandi. Munið líka að tagga okkur á Instagram ef þið gerið uppskriftirnar okkar, það er eitt það skemmtilegasta sem við vitum og gefur okkur enn meiri innblástur til að vera duglegar að blogga.

IMG_2402-2.jpg

Marmarakaka

  • 150 gr smjörlíki við stofuhita

  • 1,5 dl sykur

  • 4,5 dl hveiti

  • 1/4 tsk salt

  • 1,5 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 4,5 dl jurtamjólk (ég notaði Oatly ikaffe - ef þið notið þynnri mjólk myndi ég byrja á 4 dl og sjá svo hvort þarf meira. Áferðin ætti að vera eins og á myndunum hér að ofan)

  • 1 tsk vanilludropar (það passar líka fullkomlega að hafa kardimommudropa í staðinn fyrir vanillu)

  • 1,5 msk eplaedik

Það sem fer út í brúna deigið:

  • 4,5 tsk kakó

  • 1,5 tsk sykur

  • 1,5 msk kalt vatn

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c - minn ofn er ekki með blæstri svo ég baka á undir- og yfirhita.

  2. Þeytið smjör og sykur þar til það er ljóst og létt.

  3. Sigtið saman við hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið út í mjólk, vanilludropum og eplaediki og þeytið þar til engir kekkir eru. Reynið þó að þeyta eins stutt og mögulegt er.

  4. Takið 1/3 deigsins frá og setjið í aðra skál. Bætið við það kakói, sykri og vatni og hrærið saman.

  5. Smyrjið formið (mitt form er 26 cm á lengd og þessi uppskrift passar fullkomlega í það)

  6. Hellið helmingnum af ljósa deiginu í formið. Bætið svo næstum öllu brúna deiginu ofan á og reistinni af ljósa deiginu ofan á það. Ég setti svo restina af brúna deiginu (sem var alls ekki mikið) ofan á í litlum klípum. Næst tók ég hníf og stakk ofan í kökudeigið og dró hann um til að mynda svona mynstur. Ég er alls enginn snillingur í þessu, en ég var nokkuð ánægð með útkomuna.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer örugglega mikið eftir því hvernig ofn notaður er og hvort fólk hefur blástur á eða ekki. Ég er búin að baka kökuna tvisvar og í bæði skiptin tók það akkúrat klukkutíma fyrir hana að verða tilbúna.

  8. Leyfið kökunni að kólna áður en hún er tekin úr forminu og skorin. Hún má auðvitað vera volg, en leyfið henni allavega að standa í nokkrar mínútur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur

Vegan möndlukaka

IMG_2362.jpg

Uppskrift dagsins er af þessari dásamlegu möndluköku. Mamma sendi mér pakka í kringum jólin fullan af allskonar glaðningi frá Íslandi og það fylgdu möndludropar með. Mér fannst því tilvalið að útbúa vegan útgáfu af möndluköku þar sem mér þótti hún svo góð þegar ég var yngri. Eins og flestar af okkar köku uppskriftum er þessi virkilega einföld og inniheldur einungis hráefni sem flestir eiga eða geta auðveldlega nálgast. Það er eitthvað svo dásamleg tilfinning sem fylgir því að baka kökur sem maður vandist því að borða sem barn. Við systur fengum stundum möndluköku hjá ömmu þegar við vorum litlar og okkur þótti hún ótrúlega góð og ekki skemmdi fyrir hvað kremið var fallega bleikt.

IMG_2344.jpg

Ég er nýbúin í prófum og hef því lítið geta bloggað síðan um áramótin, en mér fannst þessi kaka fullkomin sem fyrsta uppskriftin á nýju ári. Það er mikið frost í Piteå þessa dagana og því fylgir dásamlega fallegt veður sem er virkilega frískandi ef maður klæðir sig rétt. Ég kemst í svo rómantískt skap þegar veðrið er svona fallegt og finnst því svo gott að taka mér góðan göngutúr með Sigga og gæða okkur svo á kaffibolla og einhverju góðu bakkelsi þegar við komum heim. Þessi kaka er bókstaflega fullkomin til þess þar sem það tekur enga stund að skella í hana. Svo er upplagt að leyfa henni að kólna á meðan maður fer í göngutúrinn og skella svo saman glassúrnum þegar heim er komið.

IMG_2348.jpg

Ég hef alltaf verið rosalega óörugg þegar ég baka því mér finnst svo óþægilegt þegar hlutir mistakast og ég veit ekki af hverju. Nú eru liðin nokkur ár síðan ég byrjaði að blogga og fór að baka meira en það lifir þó alltaf í mér þetta óöryggi frá því ég var unglingur. Meira að segja þegar ég var að prufa mig áfram með þessa köku sendi ég mömmu og Júlíu endalausar spurningar þó þær hafi ekkert útbúið þessa uppskrift (mamma hefur auðvitað oft bakað hefðbundna möndluköku). Þær reyndu þó sitt besta við að hjálpa mér og þegar ég loksins dreif mig í að prófa þá heppnaðist hún fullkomlega og allar þessar áhyggjur mínar til einskis eins og vanalega.

Vegna þess að ég hef sjálf oft verið óörugg við að baka þykir mér svo mikilvægt að hafa uppskriftir á blogginu sem allir geta bakað, bæði þeir sem hafa mikla reynslu af því að baka og þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref og hræddir við að klúðra einhverju. Við erum komnar með þónokkuð margar uppskriftir af dásamlega góðum kökum sem allir geta auðveldlega gert, súkkulaðiköku, eplaköku, möffins, gulrótarköku og fl. Ég hef boðið upp á margar af þessum kökum við allskyns tilefni og þær slá alltaf í gegn. Ég held að þessi muni því ekki valda ykkur vonbrigðum.

IMG_2363.jpg

Ég vil svo enda á að þakka ykkur fyrir allan stuðninginn á líðandi ári. Það er svo gaman að útbúa uppskriftir fyrir ykkur og við fáum svo mikið af fallegum skilaboðum og myndum frá fólki sem er að elda uppskriftir af blogginu. Við erum ekkert smá spenntar fyrir komandi ári og hlökkum til að deila með ykkur fleiri skemmtilegum vegan uppskriftum. Við viljum líka minna á að okkur þykir ótrúlega gaman að fá hugmyndir af uppskriftum sem þið viljið sjá á blogginu, svo ekki hika við að heyra í okkur ef það er eitthvað.

IMG_2381-2.jpg

Möndlukaka

  • 1 dl sykur

  • 75 g smjörlíki við stofuhita

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1 tsk möndludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 og 1/2 dl vegan mjólk (ég notaði Oatly ikaffe mjólkina)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c.

  2. Þeytið sykurinn og smjörlíkið saman með rafmagnsþeytara þar til það er létt og ljóst.

  3. Sigtið ofan í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið restinni af hráefnunum saman við.

  4. Blandið allt saman þar til það er laust við kjekki. Ekki þeyta of lengi samt.

  5. Smyrjið 20 cm smelluform með smjörlíki (Ég skar út smá smjörpappír og lagði í botninn til öryggis, en það er kannski óþarfi. Ég fjarlægði pappírinn svo þegar kakan var orðin köld). Kakan er passleg í 20 cm hringlaga form og ég mæli ekki með því að nota mikið stærra form því kakan gæti þá orðið mjög þunn. Ég ætla að prufa að gera eina og hálfa uppskrift við tækifæri og sjá hvernig það kemur út í stærra formi og ég bæti því þá hérna inn ef það heppnast vel.

  6. Bakið í 25-30 mínutur. Það fer svolítið eftir ofninum. Minn er t.d ekki með blæstri þannig ég bakaði kökuna á undir og yfir hita. Ég myndi allavega byrja að fylgjast með kökunni eftir 20 mínútur.

  7. Látið kökuna kólna áður en þið setjið glassúrinn á hana.



Glassúr

  • 3 dl flórsykur

  • 3 msk heitt vatn

  • 1 msk Ríbena (það er líka hægt að nota vegan rauðan matarlit. Venjulega er rauður matarlitur úr karmín sem er ekki vegan. Það er þó hægt að finna vegan matarlit en ég veit ekki alveg hvar. Mér finnst Ríbena passa fullkomlega)

  • Möndludropar eftir smekk (1/4 tsk fannst mér nóg)

Aðferð:

  1. Blandið saman vatni, möndludropum og Ríbena

  2. Hellið blöndunni saman við flórsykurinn og hrærið vel saman

  3. Ef glassúrinn er ekki nógu bleikur er hægt að bæta örlitlu ríbena í viðbót

  4. Hellið yfir kökuna og berið fram



Takk innilega fyrir að lesa og vonum að ykkur líki vel

Veganistur

Bláberjasæla

IMG_1739.jpg

Síðan skólinn byrjaði höfum við verið alveg á kafi og hefur bloggið því aðeins setið á hakanum í haust. Ég (Helga) byrjaði í bachelor námi í jazzsöng hérna í Piteå, sem hefur verið stór draumur síðan ég var barn. Það hefur verið æðislegt og ég get sagt að ég hef ekki verið svona hamingjusöm lengi. Á sama tíma hef ég þurft að læra að skipuleggja tímann minn upp á nýtt. Síðustu ár hef ég haft gríðarlega mikinn tíma og hef því getað ráðið því sjálf hvernig ég eyði deginum. Það hefur því orðið mikil breyting hjá mér síðustu mánuði, og ég er enn að læra að nýta tímann vel svo ég nái að koma öllu fyrir sem ég vil gera. Ég hef þó líka þurft að sætta mig við að ég get ekki endilega gert allt sem mig langar á hverjum degi. Ég viðurkenni að ég hef stundum verið svolítið svekkt yfir því og ég fæ oft samviskubit yfir því að geta ekki verið nógu dugleg í öllu sem ég vil. Í hinum fullkomna heimi myndi ég standa mig gríðarlega vel í skólanum, vera alltaf vel undirbúin þegar ég syng með tríóinu mínu, blogga einu sinni í viku, vera dugleg að pósta á Instagram, snappa, hreyfa mig, nota eins lítið plast og ég get, lesa meira… og listinn heldur áfram. Ég hef sem betur fer áttað mig á því að ég er að setja alltof mikla pressu á sjálfa mig, og er að vinna í því að sleppa tökunum aðeins svo ég nái að njóta þess sem ég er að gera. Það gengur svona misvel hjá mér, en ég finn að þetta er allt á réttri leið.

IMG_1709.jpg

Ég hef komist að því að þegar ég blogga ekki lengi missi ég allt sjálfstraust og mikla hlutina gríðarlega fyrir mér. Allt í einu finnst mér ég ekkert kunna að blogga lengur og fresta því endalaust að taka fram myndavélina og skella í einhverja gómsæta uppskrift. Í hvert skipti sem ég upplifi þetta þarf ekki meira til en að byrja á einni færslu og þá byrjar þetta að rúlla. Í gær ákvað ég að setjast niður og gera vikumatseðil og birta á blogginu. Það eitt og sér var nóg til þess að kveikja í mér. Þegar ég vaknaði í morgun komst ekkert annað að en þessi dásamlega bláberjasæla sem ég hef ætlað mér að birta hérna á blogginu í sirka tvær vikur. Ég rauk fram úr og hófst handa. Ég mundi strax af hverju ég blogga, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og ég gleymi stund og stað á meðan. Allar áhyggjur af prófum, tónleikum og verkefnum hurfu á meðan ég bakaði og myndaði og það er akkurat það sem ég þurfti á að halda eftir annasamar vikur.

Uppskriftin af bláberjasælunni er ótrúlega einföld, eins og flest sem við deilum hérna á blogginu. Hún bragðast dásamlega, fyllir húsið guðdómlegum ilmi og gefur fullkominn haustfíling. Sælan minnir vissulega svolítið á hjónabandssælu, en þar sem ég nota bláber er hún ekki alveg eins. Ég leyfði henni að kólna alveg áður en ég bar hana fram, aðallega svo ég gæti auðveldlega skorið hana fyrir myndatökuna. Þó er líka hægt að bera hana fram volga og þá er æðislegt að hafa þeyttan soja- eða kókosrjóma eða vegan ís með.

IMG_1725.jpg

Bláberjablanda:

(ATH: bollin sem ég notaði er 2,5 dl)

  • 680 gr frosin bláber

  • Safi úr einni sítrónu

  • 1/2 bolli sykur

  • 2 msk hveiti

  • 1 msk maíssterkja

Krömbl:

  • 3 bollar hveiti

  • 3 bollar haframjöl

  • 2 bollar púðursykur. Ég pressaði hann lauslega

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 og 1/2 bolli smjörlíki. Ég bræddi 1 bolla og blandaði saman við deigið og muldi svo niður 1/2 bolla af köldu smjörilíki og hnoðaði saman við með höndunum

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C

  2. Leyfið bláberjunum að þiðna alveg og hellið þeim svo í sigti til að losna við allan auka vökva. Ég kreisti berin einnig örlítið í sigtinu til að taka af smá af safanum, samt bara aðeins.

  3. Blandið berjunum saman við restina af hráefnunum fyrir berjablönduna í blandara, matvinnsluvél eða með töfrasprota. Blandann verður svolítið þunn, en hún mun þykkna í ofninum.

  4. Blandið saman þurrefnunum fyrir krömblið og hellið svo útí bráðna smjörinu og blandið saman með sleif. Brjótið svo út í kalda smjörið og hnoðið saman með höndunum. Ef ykkur finnst deigið mjög þurrt mæli ég með að bæta við örlitlu smjöri.

  5. Hellið tveimur þriðju af deiginu í eldfast mjót og pressið því í botninn. Ég lagði bökunarpappír í formið mitt svo það væri auðveldara að ná sneiðunum upp úr. Eldfasta mótið sem ég notaði er 21x31 cm.

  6. Bakið botninn í 10 mínútur og takið svo út.

  7. Hellið bláberjablöndunni yfir og myljið svo restina af krömblinu yfir.

  8. Bakið í 25-30 mínútur

  9. Hægt er að bera þetta fram volgt, en ef þið viljið ná fallegum sneiðum úr þessu mæli ég með því að leyfa sælunni að kólna.

Vonum að þið njótið :)

veganisturundirskrift.jpg

Íslenskar pönnukökur

IMG_4569-3.jpg

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Heiðu, fyrstu íslensku jurtamjólkina og jafnframt því fyrstu fersku jurtamjólkina sem seld er á landinu. Mjólkin er úr höfrum og er hituð á lægra hitastigi en önnur jurtamjólk sem gerir hana enn bragðbetri og gæðameiri. Þar sem mjólkin er ferskvara er mikilvægt að geyma hana í kæli. Heiða fæst bæði ósæt og með örlítill sætu, er undursamlega rjómakennd og bragðgóð og við mælum eindregið með því að styrkja íslenska framleiðslu þar sem hún er mun umhverfisvænni fyrir vikið. Heiða fæst í öllum helstu matvörubúðum landsins.

IMG_4597.jpg

Okkur fannst tilvalið að útbúa klassíska íslenska uppskrift úr mjólkinni og það kom ekkert annað til greina en ekta íslenskar pönnukökur. Við höfum það sem hefð að baka eitthvað gott um helgar. Það er svo róandi að taka sér tíma í eldhúsinu á laugardags- eða sunnudagsmorgni, hlusta á skemmtilegt hlaðvarp og baka eitthvað gómsætt sem fyllir íbúðina góðum ilmi. Við vorum lengi smeykar við að baka íslenskar pönnsur og gerðum alltaf þessar þykku amerísku, sem varla er hægt að klúðra. Það var því ekki fyrr en mamma tók sig til og bakaði vegan útgáfu af íslenskum pönnukökum handa Helgu, sem við áttuðum okkur á því að þessar íslensku eru eiginlega ómissandi og auðveldar í bakstri. 

IMG_4602.jpg

Þessi uppskrift er æði og á mamma okkar heiðurinn af henni. Við elskum að rúlla þeim upp með sykri eða fylla þær af þeyttum vegan rjóma og sultu. Að þessu sinni útbjó Júlía súkkulaðisósu sem hún stráði yfir ásamt ferskum jarðarberjum og flórsykri. Þetta kom ekkert smá vel út. Heiða var alveg fullkomin í baksturinn og það er yndislegt að geta loksins keypt íslenska jurtamjólk sem er dásamlega bragðgóð og ekki skemmir fyrir hvað umbúðirnar eru fallegar. 

IMG_4599.jpg

Hráefni:

  • 8 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2,5 dl eplamauk

  • 100 gr brætt smjörlíki

  • 8-10 dl haframjólkin frá Heiðu

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnum saman í skál.

  2. Bætið við mjólkinni, brædda smjörlíkinu, eplamaukinu og vanilludropunum.

  3. Steikið á háum hita upp úr smá smjörlíki.

Berið fram með því sem ykkur lystir. Júlía bræddi súkkulaði og blandaði saman við örlita mjólk og helti yfir pönnsurnar sínar. Það kom mjög vel út. 

-Veganistur

39295002_297353777512105_765831551215730688_n.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Heiðu-

 

 

Hafra- og speltbrauð með fræjum

IMG_1511-7.jpg

Við fengum skilaboð um daginn þar sem við vorum beðnar að gera fleiri uppskriftir af góðu brauði. Við elskum gott brauð og þess vegna er kannski svolítið skrítið að á blogginu finnist bara tvær brauðuppskriftir, en það eru heimagerðar tortillur og svo ernubrauð. Ernubrauðið er alveg ótrúlega gott, en maður þarf að plana svolítið fram í tímann þar sem deigið þarf að hefast yfir nótt, eða í allavega 8 klst. Stundum fæ ég skyndilega löngun í að baka gómsætt brauð, en nenni ekki að bíða í margar klukkustundir, og þá geri ég þetta gómsæta hafra- og speltbrauð sem ég ætla að deila með ykkur í dag. Þessi uppskrift er ekkert smá einföld og góð og tekur enga stund að gera. 

IMG_1355-2.jpg

Ég vann um stund á veitingastað í Gautaborg og bakaði svipað brauð, sem var virkilega vinsælt. Brauðið innihélt nokkurskonar súrmjólk, sem ég hef skipt út fyrir vegan jógúrt, og svo voru allskonar hnetur í því en ég ákvað að hafa fræ í staðinn því kærastinn minn er með ofnæmi fyrir flestum hnetum. Ég get ekki borið brauðið saman við það sem ég bakaði á veitingastaðnum, þar sem það var ekki vegan og ég smakkaði það aldrei, en ég er viss um að þetta er alveg jafn gott. Uppskriftin er alls ekki sú sama, en hitt brauðið var innblástur við gerð þessa brauðs. 

Ef ég fengi að ráða myndi ég útbúa hlaðborð af mat á hverjum morgni. Ég elska að hafa allskonar að velja úr og þetta brauð er einmitt fullkomið fyrir helgarbrönsinn. Nýbakað brauð, allskonar álegg, nýlagað kaffi, góður appelsínusafi, grautur og ávextir... er hægt að biðja um eitthvað betra?? 

IMG_1490-3.jpg
IMG_1504-2.jpg

Í dag er úrvalið af góðu vegan áleggi orðið endalaust. Hægt er að fá allskonar vegan smjör, osta, skinkur, ótrúlega margar tegundir af hummus, smurosta.. og lengi mætti telja. Ég átti svolítið erfitt með að ákveða hvað ég vildi hafa á brauðinu fyrir færsluna og ákvað á endanum að gera tvær útgáfur. Á sneiðina til vinstri setti ég vegan rjómaostinn frá Oatly, avókadó, sultaðan rauðlauk sem ég keypti úti í búð (Ica fyrir ykkur sem eruð í Svíþjóð), sítronusafa, chilli explosion, gróft salt og svartan pipar. Á hægri sneiðina setti ég svo hummus, kirsuberjatómat, frosinn graslauk og gróft salt. Grauturinn sem er í bakgrunni er svo "overnight oats" með túrmerik og fl. Þið megið endilega láta mig vita ef þið viljið fá uppskrift af grautnum, en ég geri hann daglega og fæ bara ekki nóg. 

IMG_1519-7.jpg

Hafra- og speltbrauð með fræjum

  • 3,5 dl gróft spelt

  • 1,5 dl fínt spelt

  • 2 dl grófir hafrar

  • 1 dl graskersfræ

  • 1/2 dl sólblómafræ

  • 1,5 tsk salt

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 msk olía

  • 3 dl hrein vegan jógúrt

  • 2 dl heitt vatn (bætið við hálfum dl ef þetta verður of þykkt. Deigið á samt að vera þykkt, svolítið eins og slímugur hafragrautur hehe)

  • Gróft salt og fræ til að strá yfir brauðið

  1. Stillið ofninn á 180°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hrærið saman við öllu nema vatninu.

  4. Bætið vatninu við og sjáið hvernig deigið er eftir 2 dl. Ef ykkur finnst það of þykkt, bætið við 1/2-1 dl í viðbót.

  5. Smyrjið brauðform og hellið deiginu í

  6. Bakið í 45-60 mínútur. Það fer rosalega eftir ofnum hversu lengi brauðið þarf að baka. Ofninn minn er frekar lélegur og býður ekki upp á blástur og það tekur alveg rúmlega klukkustund að baka brauðið í honum. Hinsvegar tók það mig 45 mínútur í öðrum ofni um daginn. Brauðið á að vera aðeins gyllt að ofan, en brauðið mitt á myndunum er ekki gyllt, því ég var óþolinmóð og tók það aðeins of snemma út í þetta skiptið.

  7. Ég leyfi brauðinu að kólna aðeins áður en ég sker það, en mér finnst samt gott að hafa það volgt. 

Njótið!! 

Helga María <3

Eplakaka að hætti ömmu

IMG_1302.jpg

Þegar ég var yngri þótti mér ekkert betra en kökurnar hennar ömmu. Hún átti alltaf til nokkrar sortir í ísskápnum og nutum við Júlía þess mikið að vera hjá ömmu og afa yfir kaffitímann og borða yfir okkur af brauði og kökum. 

IMG_1230.jpg

Ein af kökunum sem ég borðaði oft hjá ömmu var eplakaka. Hún var í miklu uppáhaldi og mig hefur lengi langað að búa til vegan útgáfu af henni. Nú hef ég loksins látið verða að því og er mjög ánægð með útkomuna. Í kökuna nota ég aquafaba, sem er vökvinn sem fylgir kjúlingabaunum í dós. Vökvinn er próteinríkur og virkar eins og eggjahvítur í margar uppskriftir. Síðan baunavökvinn "uppgvötaðist" hefur verið ótrúlega skemmtilegt að prufa sig áfram með að nota hann í bakstur, og við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir þar sem hann kemur að góðum notum, meðal annars lakkrístoppa og lagtertu. 

IMG_1294.jpg

Ég hef verið að skora á sjálfa mig að baka meira, og það gengur vel. Í langan tíma var ég viss um að ég væri alveg vonlaus bakari og bakaði því ekkert nema súkkulaðikökuna okkar, því hún gæti eiginlega ekki verið einfaldari. Uppá síðkastið hef ég þó komist að því að ég er kannski ekki alveg jafn vonlaus og ég hélt, en ég minni sjálfa mig líka á að það er allt í lagi þó eitthvað misheppnist af og til. Ég er líka farin að prufa mig meira áfram með brauðbakstur og hlakka til að deila einhverjum góðum brauð uppskriftum með ykkur á næstunni. 

IMG_1351.jpg

Eplakaka

  • 3 dl hveiti

  • 2 dl sykur

  • 1 dl aquafaba (vökvinn af kjúklingabaunum í dós)

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk vanilludropar

  • örlitið salt

  • 75 gr smjörlíki (Bæði Krónusmjörlíki og Ljómasmjörlíki eru vegan og henta mjög vel í þessa köku)

  • 1 dl haframjólk

  • 1-2 epli

  • kanilsykur eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c

  2. Þeytið saman sykur og aquafaba í sirka 3 mínútur í hrærivél eða með rafmagnsþeytara, þannig það sé hvítt og svolítið froðukennt.

  3. Blandið saman í aðra skál hveiti, salti og lyftidufti.

  4. Bræðið smjörlíki og hellið því útí hrærivélaskálina, ásamt mjólkinni og þurrefnunum.

  5. Hrærið öllu saman þannig engir kekkir séu, en ekki hræra of mikið samt.

  6. Smyrjið form og leggið smjörpappír í botninn ef ykkur finnst það betra. Ég geri það oft til öryggis (mér hefur þótt best að nota 20 cm form og þessi uppskrift passar akkúrat í þá stærð).

  7. Flysjið eplið og skerið í þunnar sneiðar, raðið þeim á kökuna áður en hún fer í ofninn.

  8. Bakið í 30-40 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast. Minn er ekkert svakalega góður og hann hefur engan blástur, svo hún tekur kannski örlítið lengri tíma hjá mér, en ég bakaði hana í alveg 40 mínútur

  9. Ég beið með að strá kanisykrinum yfir þar til það voru sirka 15 mínútur í að kakan yrði tilbúin. Það fer algjörlega eftir smekk fólks hversu mikinn kanilsykur þarf, en ég var alls ekkert að spara hann.

  10. Berið fram með vegan þeyttum rjóma eða ís t.d

Vona að þið njótið :) 

Helga María 

Frosin ostakaka með Oreo botni

IMG_1113-3.jpg

Það er fátt sem toppar góða máltíð betur en gómsætur eftirréttur. Þegar ég held matarboð þykir mér eftirrétturinn oft alveg jafn mikilvægur og máltíðin sjálf. Eins og það er þægilegt að kaupa góðan vegan ís, ávexti og súkkulaði, þá er líka stundum skemmtilegt að útbúa eitthvað aðeins meira extra. Það er virkilega auðvelt að gera allskonar vegan eftirrétti og sætindi, og við ætlum að reyna að vera duglegri að birta uppskriftir af svoleiðis hérna á blogginu. 

IMG_1029-3.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af ótrúlega góðri vegan ostaköku. Ég myndi kalla þetta blöndu af ostaköku og ísköku því best er að borða hana nánast beint úr frystinum. Þessi kaka er svo góð að ég hef ekki getað hætt að hugsa um hana síðan ég gerði hana. Oreo botninn passar fullkomlega við fyllinguna sem hefur smá kaffikeim. Ég held það væri gaman að gera úr uppskriftinni litlar ostakökur í bollakökuformi, til að bjóða upp á í matarboðum eða afmælum. 

IMG_0964-2.jpg

Ég get ekki sagt að ég hafi alist upp við að borða ostakökur, en þær eru núna orðnar mikið uppáhald hjá mér. Ég er með aðra mjög góða uppskrift í pokahorninu sem er líka frosin, en á eftir að prufa mig áfram með bakaðar ostakökur. Ég get þó lofað ykkur því að um leið og ég hef masterað svoleiðis köku fáið þið uppskriftina strax. Ég er búin að skora á sjálfa mig að ögra sjálfri mér meira þegar kemur að því að útbúa kökur og deserta. Mér finnst ekkert mál að elda mat og það kemur til mín mjög náttúrulega, en ég er rosalega óöruggur bakari og er yfirleitt með Júlíu í tólinu á meðan ég baka. Ég er þó ákveðin í að hætta að vera hrædd við að baka og sætta mig við það að stundum misheppnast hlutirnir í fyrsta sinn og þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur. 

IMG_1066-2.jpg

Þið megið endilega láta okkur vita hvað er ykkar uppáhalds desert og hvort það er eitthvað sem þið viljið að við reynum að "veganæsa." Við erum með endalausar hugmyndir af kökum og skemmtilegu bakkelsi sem okkur langar að setja á bloggið, en það væri mjög gaman að heyra frá ykkur hvað er í uppáhaldi. 

IMG_1120-2.jpg

Hráefni: 

  • 20 Oreo kexkökur

  • 70 gr bráðið vegan smjör (notið hvaða vegan smjör sem er virkar, t.d Krónu smjörlíki eða Ljóma smjörlíki)

  • 1 þeytirjómi frá Alpro (2 dl)

  • 2 öskjur påmackan rjómaosturinn frá Oatly (300gr)

  • 1,5 dl sykur

  • 1 msk vanillusykur

  • 2-3 msk kalt uppáhellt kaffi (fer alfarið eftir því hversu mikið kaffibragð þið viljið hafa. Ég setti 2 msk og það var mjög milt kaffibragð af minni, sem mér fannst fullkomið).

Aðferð:

  1. Myljið niður Oreo kexið, annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í lokaðan nestispoka og brjóta kexið með kökukefli. Hellið muldu kexinu í skál.

  2. Bræðið smjörið, hellið því ofan í skálina og blandið vel saman við kexið með sleif.

  3. Hellið blöndunni í 20 cm smelluform og þrýstið vel í botninn. Setjið formið í frystinn á meðan þið undirbúið fyllinguna.

  4. þeytið rjómann í stórri skál og leggið til hliðar.

  5. Bætið restinni af hráefnunum í aðra stóra skál og þeytið saman.

  6. Bætið þeytta rjómanum útí skálina og þeytið allt saman í nokkrar sekúndur, eða þar til allt er vel blandað saman.

  7. Hellið blöndunni ofan í smelluformið og setjið í frystinn yfir nótt eða í allavega fjóra klukkutíma.

  8. Toppið kökuna með því sem ykkur lystir. Í þetta sinn bræddi ég súkkulaði og toppaði með því, sem voru smá mistök því það var virkilega erfitt að skera í gegnum súkkulaðið þegar það var orðið frosið. Næst myndi ég bræða súkkulaðið og blanda saman við það nokkrum matskeiðum af þykka hlutanum úr kókosmjólk í dós, því þannig harðnar súkkulaðið aldrei alveg. Eins er ótrúlega gott að toppa kökuna bara með muldu Oreo kexi, súkkulaðikurli eða setja yfir hana fullt af ferskum jarðarberjum þegar hún er tekin út. Í rauninni er kakan fullkomin ein og sér, en útlitsins vegna finnst mér skemmtilegt að toppa hana með einhverju gómsætu.

  9. Berið kökuna fram nánast beint úr frystinum. Gott er að láta hana standa í nokkrar mínútur, en hún er svolítið eins og ísterta og er því best ísköld.

Njótið
Helga María

 

Tacoveisla - Heimagerðar taco pönnukökur með Anamma-bitum, ostasósu og hrásalati

IMG_3873.jpg

Þessi dásamlega uppskrift varð til í síðustu viku og sló algjörlega í gegn hjá mér og vinum mínum. Ég hef alltaf verið mikið fyrir taco og finnst virkilega gaman að leika mér með hráefnin. Í vetur komst ég upp á lag með að baka mínar eigin tortilla vefjur og ég reyni að nýta tækifærið og gera það þegar ég hef smá tíma til að dunda mér við matargerðina. Heimabakað brauð nær einhvernveginn aldrei að valda manni vonbrigðum. 

IMG_3777-2.jpg

Þessa dagana erum við í samstarfi við Anamma á Íslandi og er þetta önnur færslan sem við vinnum í samstarfi við þau. Mér fannst tilvalið að nota bitana þeirra í þessa uppskrift og það kom að sjálfsögðu æðislega vel út. Við notum báðar vörurnar frá Anamma mikið, og er það því mikill heiður fyrir okkur að vinna með þeim. Þau leggja mikið upp úr því að útbúa vandaðar og góðar vegan matvörur, auk þess sem þeim er annt um umhverfið. Nýlega uppfærðu þau allar uppskriftirnar sínar og eru vörurnar því enn betri en áður. Ég var ekkert smá glöð að sjá hvað bitarnir voru fullkomnir í þennan rétt.

Taco hefur uppá svo margt að bjóða því það er algörlega hægt að aðlaga því sínum smekk. Við höfum báðar leikið okkur endalaust með það hvað við setjum í vefjurnar/skeljarnar og hérna að neðan sjáið þið mína uppáhalds samsetningu.

IMG_3857.jpg

Uppáhalds samsetningin mín:

  • Heimagerðar tortillur eða tortillur frá Santa Maria

  • Santa Maria salsasóssa

  • kál

  • Gúrka

  • Tómatar

  • Anamma bitar

  • Kartöflur ofnbakaðar með salti, pipar og smá olíu

  • Avocado

  • Heimagerð ostasósa

  • Heimagert hrásalat

  • Kóríander

IMG_3866-2.jpg

Mexíkóskir anamma bitar

  • Bitar frá Anamma

  • Olía til steikingar

  • Laukur

  • Santa Maria Taco kryddblanda

  • Vatn

Aðferð:

  1. Steikið bitana og laukinn upp úr olíunni þar til þeir hafa fengið gylltan lit

  2. Bætið taco kryddinu og vatni við samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.

Heimagerðar tortillur:

  • 1 bolli hveiti

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • Örlítið salt

  • 3 msk olía

  • 1/3 bolli vatn

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnunum saman í skál

  2. Bætið olíu og vatni út í og hnoðið saman.

  3. Skiptið deginu í 6 litlar kúlur, fletjið út í mjög þunnar pönnukökur og steikið á þurri pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið

 

Heimagerð ostasósa

  • 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)

  • 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)

 

Hrásalat

  • Hvítkál

  • Gulrætur

  • Vegan majónes

  • Örlítið eplaedik

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið mjög smátt og rífið gulræturnar niður.

  2. Blandið majónesinu og edikinu saman við.

Vonum að þið njótið 
-Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Gómsæt eplabaka

IMG_3649-3.jpg

Það er ekkert betra eftir góða máltíð en góður eftirréttur. Eða það finnst mér allavega. Uppáhalds eftirréttirnir mínir eru einfaldir eftirréttir, eitthvað sem þarf ekki að hafa mikið fyrir, líkt og góður vegan ís eða einföld kaka. Við erum mjög heppin með það að það er ótrúlega mikið af góðum vegan ís komin á markaðin hér á landi og er þar ísinn frá Oatly einn af mínum uppáhalds. 

IMG_3520-2.jpg
IMG_3531 (3).jpg

Þessi eplabaka er einn af mínum uppáhalds eftirrétti en það er eindfaldlega vegna þess hversu auðvelt er að útbúa hana og hversu góð hún er. Það sem mér finnst líka vera mikill kostur er að það má undirbúa hana snemma um daginn og skella henni síðan bara í ofninn eftir matinn. 

IMG_3624-4.jpg

Kakan samanstendur af grænum eplum, möndlusmjörs-karamellu (sem passar fullkomlega með eplunu) og hafradeigi sem gerir "krönsí" áferð. Bakan passar fullkomlega með vanilluísnum frá Oatly.

IMG_3643-2.jpg

Eplabaka:

Aðferð:

  1. Afhýðið eplin og skerið niður í litla bita. Setjið í eldfast mót og hellið möndlusmjörs-karamellunni yfir.

  2. Útbúið deigið með því að blanda restinni af hráefnunum saman í skál og dreifið yfir eplin. 

  3. Bakið kökuna í 30 til 35 mínútur við 180°C 

Möndlusmjörs-karamella

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í pott og leyfið suðunni að koma upp.

  2. Sjóðið í 2 til 3 mínútur og hrærið í á meðan.

Vonum að þið njótið
-Veganistur

innnes2.jpg

-Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel og Innnes-

Vegan möffins með súkkulaðibitum

IMG_8854-2.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af gómsætum súkkulaðibita-möffins. Þessi uppskrift hefur verið í uppáhaldi hjá mér lengi og það var því löngu kominn tími til að skella henni hérna inná bloggið. Þessar möffinskökur minna mig á það þegar ég var barn. Í hvert sinn sem við fórum í ferðalög bakaði mamma möffins sem við tókum með okkur í gömlum Mackintosh stampi. Ég man hvað mér þótti það ótrúlega spennandi. Þessar möffinskökur vekja upp svipaða spennu hjá mér á meðan þær eru í ofninum.

IMG_8754.jpg

Kökurnar hef ég bakað í mörg ár og þær eru einmitt fullkomnar í ferðalagið, afmælisveisluna, brunchinn eða einfaldlega fyrir notalegan dag með fjölskyldunni. Uppskritin er virkilega auðveld og því tilvalin til að baka með krökkunum.  Ég man hvað mér þótti alltaf yndislegt að fá að taka þátt í möffinsbakstrinum með mömmu. 

Webp.net-gifmaker (3).gif

Uppskriftin er ekki einungis einföld, heldur innihalda kökurnar aðeins 7 hráefni sem flestir eiga til uppi í skáp. Þið sem hafið fylgt blogginu okkar í svolítinn tíma vitið að við erum ekki mikið fyrir flóknar uppskriftir sem innihalda alltof mörg hráefni sem enginn þekkir. Við elskum allt sem er einfalt og eru þessar möffins því lýsandi fyrir okkur. Þrátt fyrir einfaldleikann gefa kökurnar ekkert eftir hvað bragðið varðar. Þær eru dúnmjúkar að innan og undursamlega bragðgóðar. 

Þar sem ég fann engin falleg pappírsform fyrir kökurnar ákvað ég að prufa að útbúa mín eigin úr bökunarpappír. Siggi klippti niður fyrir mig sirka 13x13 cm arkir úr pappírnum. Ég mótaði þær með því að leggja þær yfir formin á möffins skúffunni og þrýsta þeim svo niður með bolla sem passaði akkúrat í hólfin. Formin komu mjög skemmtilega út og voru góð tilbreyting frá þessum hefðbundnu pappírsformum. 

IMG_8862-3.jpg

Hráefni:

  • 5 dl hveiti

  • 2 og 1/2 dl sykur

  • 1 msk lyftiduft

  • 2 tsk vanillusykur - eða vanilludropar

  • 100gr vegan smjör - Krónusmjörlíkið hentar mjög vel í þessa uppskrift

  • 3 og 1/2 dl Oatly haframjólk - hvaða jurtamjólk sem er ætti að þó að virka

  • 200gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  3. Bræðið smjörið og hellið því saman við mjólkina.

  4. Hellið blöndunni útí stóru skálina og hrærið vel saman. Ef þið eigið rafmagns handþeytara myndi ég nota hann en þar sem ég á eftir að útvega mér svoleiðis lét ég duga að nota hefðbundinn písk sem virkaði líka vel.

  5. Saxið niður súkkulaðið og hrærið því saman við deigið með sleif.

  6. Deilið deiginu í möffinsformin og bakið í sirka 12-18 mínútur. Ég myndi segja að það komi svona 9-15 kökur úr hverri uppskrift en það fer bara eftir því hversu stórar kökur þið gerið.

  7. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram. Mér þykja kökurnar bestar volgar með glasi af ískaldri Oatly haframjólk. Þær eru samt yndislega góðar líka kaldar.

Vona að þið njótið! :) 

Helga María 

Amerískar pönnukökur

Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best. 

Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu. 

Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur. 

Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl

Hráefni:

  • 2 bollar hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • Smá salt

  • 2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk

  • 4 msk olía

  • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita

  2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál

  3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru

  4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið

  5. Berið fram með því sem ykkur lystir.

Vona að þið njótið

Helga María