Vegan snitsel á tvo vegu

IMG_0755.jpg

Þessi færsla er sú þriðja í samstarfi okkar með Anamma, og í þetta sinn ákvað ég að útbúa snitselið frá þeim, sem mér þykir gríðarlega gott. Ég gat þó með engu móti ákveðið hvernig ég vildi matreiða snitselið fyrir færsluna, og eftir miklar vangaveltur fram og til baka ákvað ég að útbúa tvo mismunandi rétti úr því. Mér fannst nauðsynlegt að gera eina hefðbundna snitsel máltíð, og útbjó ég með því gómsæta sveppasósu, steiktan aspas og einar þær bestu ofnbökuðu kartöflur sem ég hef gert. Auk þess ákvað ég að gera aðeins öðruvísi máltíð og bjó til snitsel grillsamloku með grænmeti og tarragon-kapers mæjónessósu. Ég er fegin að hafa ákveðið að gera bæði því ég get ekki gert upp á milli. 

Snitselið er eina varan frá Anamma sem ekki er glúteinlaus, en nýlega breyttu þau öllum uppskriftunum sínum og snitselið, sem var glúteinlaust, er það ekki lengur. Að mínu mati eru allar vörunar mun betri eftir breytingarnar og mér finnst snitselið alveg ótrúlega gott, bæði í áferð og bragði. 

IMG_0698.jpg

Kartöflurnar sem ég gerði með voru virkilega góðar, en galdurinn var að sjóða þær fyrst og setja þær svo í ofninn. Við það urðu þær mjúkar og góðar að innan, en dásamlega stökkar að utan. Þær voru fullkomnar með báðum réttunum sem ég gerði. 

IMG_0758.jpg

Þar sem það tekur enga stund að elda snitselið langaði mig að gera með því flott meðlæti sem tekur kannski aðeins meiri tíma, en er samt virkilega einfalt og þægilegt að búa til. Ef tíminn er naumur, eða maður nennir ekki mikilli eldamennsku er auðvitað hægt að skella frönskum í ofninn og útbúa einhverja góða vegan pakkasósu, en ég mæli auðvitað mjög mikið með að búa til eigið meðlæti ef tök eru á.
Eins með samlokuna hér að neðan. Það er ekkert mál að kaupa vegan mæjónes og blanda því saman við hvítlauk og góðar jurtir, en mér fannst heimatilbúna mæjónessósan passa ótrúlega vel með samlokunni. 

IMG_0715-2.jpg
IMG_0780-3.jpg

Snitsel frá Anamma fyrir 4

  • 2 pakkar Anamma snitsel (hver pakki inniheldur 4 stk svo það er fínt að gera ráð fyrir a.m.k 2 á mann)

1. Eldið snitselið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Ég steikti það á pönnu upp úr vegan smjöri þar til það var gyllt á báðum hliðum.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 500 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur 

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg)

  • Vatn og hveiti til að þykkja (ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið).

  1. Sneiðið niður sveppina og setjið í pott. 

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta við örlitlu vatni og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð. 

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni þar til hún hefur náð þeirri þykkt sem þið kjósið. 

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið til. 

Ristaðar kartöflur í ofni

  • 2 kg kartöflur

  • 6 msk olía til steikingar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk paprikuduft

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Byrjið á því að skræla kartöflurnar

  2. Hitið ofninn í 200 gráður

  3. Skerið kartöflurnar í meðalstóra bita og leggið í bleyti í kalt vatn í sirka korter

  4. Sjóðið vatn í stórum potti á meðan

  5. Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru svona nálægt því að verða tilbúnar. Þær eiga ekki að vera orðnar alveg mjúkar í gegn (mínar voru samt mjög nálægt því)

  6. Á meðan kartöflurnar sjóða hitiði olíuna á pönnu og pressið hvítlauksgeirana útí. Þegar þeir eru orðnir brúnir helliði olíunni í skál, sigtið hvítlaukinn úr og leggið til hliðar. Passið að hvítlaukurinn brenni ekki því hann verður notaður seinna 

  7. Takið kartöflurnar úr pottinum og hellið þeim í stóra skál og veltið þeim upp úr olíunni sem þið hituðuð, ásamt paprikudufti, salti og pipar. Passið að þekja kartöflurnar vel. Á þessum tímapunkti líta þær út fyrir að vera svolítið maukaðar og þannig eiga þær að vera

  8. Hellið kartöflunum á hreina ofnplötu og dreifið úr þeim svo þær séu sem minnst klestar saman

  9. Ristið þær í ofninum í 20 mínútur, takið plötuna svo út, snúið kartöflunum og ristið í aðrar 20 mínútur

  10. Þegar þær eru tilbúnar er gott að velta þeim upp úr hvítlauknum sem þið hituðuð í olíunni. Ástæðan fyrir því að ég geri það ekki áður en kartöflurnar fara í ofninn er sú að hann gæti brunnið og þá gefur hann frá sér beiskt bragð sem skemmir svolítið fyrir. 

  11. Bætið við grófu salti ef ykkur finnst þurfa

Með þessu steikti ég svo frosinn aspas á pönnu upp úr sítrónupipar, hvítlauk og salti

 

Grill samloka með snitseli og tarragon- kapersmæjó:

  • Anamma snitsel

  • Gott brauð (mæli með að kaupa heilt brauð og skera í frekar þykkar sneiðar)

  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði romain kál, tómata og rauðlauk)

  • 1,5 dl vegan mæjónes (uppskrift okkar af vegan mæjónesi má finna HÉR)

  • 3 tsk kapers

  • 1 tsk tarragon

  • 1/2 tsk rifinn sítrónubörkur

  • Örlítil ólífuolía

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Steikið snitselið á pönnu upp úr olíu eða vegan smjöri þar til það er gyllt báðum megin

  2. Ristið brauðið á pönnu upp úr örlitlu vegan smjöri 

  3. Saxið niður kapers og bætið út í mæjónesið ásamt tarragon, rifnum sítrónuberki, ólífuolíu, salti og pipar

  4. Smyrjið báðar brauðsneiðarnar með mæjónessósunni og setjið snitselið á ásamt því grænmeti sem ykkur þykir best 

  5. Berið fram með gómsætu kartöflunum hér að ofan eða ofnbökuðum frönskum

Vonum að þið njótið!+
- Veganistur

 

anamma.png

- Þessi færlsa er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Tacoveisla - Heimagerðar taco pönnukökur með Anamma-bitum, ostasósu og hrásalati

IMG_3873.jpg

Þessi dásamlega uppskrift varð til í síðustu viku og sló algjörlega í gegn hjá mér og vinum mínum. Ég hef alltaf verið mikið fyrir taco og finnst virkilega gaman að leika mér með hráefnin. Í vetur komst ég upp á lag með að baka mínar eigin tortilla vefjur og ég reyni að nýta tækifærið og gera það þegar ég hef smá tíma til að dunda mér við matargerðina. Heimabakað brauð nær einhvernveginn aldrei að valda manni vonbrigðum. 

IMG_3777-2.jpg

Þessa dagana erum við í samstarfi við Anamma á Íslandi og er þetta önnur færslan sem við vinnum í samstarfi við þau. Mér fannst tilvalið að nota bitana þeirra í þessa uppskrift og það kom að sjálfsögðu æðislega vel út. Við notum báðar vörurnar frá Anamma mikið, og er það því mikill heiður fyrir okkur að vinna með þeim. Þau leggja mikið upp úr því að útbúa vandaðar og góðar vegan matvörur, auk þess sem þeim er annt um umhverfið. Nýlega uppfærðu þau allar uppskriftirnar sínar og eru vörurnar því enn betri en áður. Ég var ekkert smá glöð að sjá hvað bitarnir voru fullkomnir í þennan rétt.

Taco hefur uppá svo margt að bjóða því það er algörlega hægt að aðlaga því sínum smekk. Við höfum báðar leikið okkur endalaust með það hvað við setjum í vefjurnar/skeljarnar og hérna að neðan sjáið þið mína uppáhalds samsetningu.

IMG_3857.jpg

Uppáhalds samsetningin mín:

  • Heimagerðar tortillur eða tortillur frá Santa Maria

  • Santa Maria salsasóssa

  • kál

  • Gúrka

  • Tómatar

  • Anamma bitar

  • Kartöflur ofnbakaðar með salti, pipar og smá olíu

  • Avocado

  • Heimagerð ostasósa

  • Heimagert hrásalat

  • Kóríander

IMG_3866-2.jpg

Mexíkóskir anamma bitar

  • Bitar frá Anamma

  • Olía til steikingar

  • Laukur

  • Santa Maria Taco kryddblanda

  • Vatn

Aðferð:

  1. Steikið bitana og laukinn upp úr olíunni þar til þeir hafa fengið gylltan lit

  2. Bætið taco kryddinu og vatni við samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.

Heimagerðar tortillur:

  • 1 bolli hveiti

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • Örlítið salt

  • 3 msk olía

  • 1/3 bolli vatn

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnunum saman í skál

  2. Bætið olíu og vatni út í og hnoðið saman.

  3. Skiptið deginu í 6 litlar kúlur, fletjið út í mjög þunnar pönnukökur og steikið á þurri pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið

 

Heimagerð ostasósa

  • 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)

  • 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)

 

Hrásalat

  • Hvítkál

  • Gulrætur

  • Vegan majónes

  • Örlítið eplaedik

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið mjög smátt og rífið gulræturnar niður.

  2. Blandið majónesinu og edikinu saman við.

Vonum að þið njótið 
-Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Ég og skjaldinn minn!

IMG_8397.jpg

Þetta er kafli 4 af ,,Ég ætla að breyta lífi mínu." Ég ætlaði að skrifa þessar færslur vikulega, en hef alls ekki staðið mig hvað það varðar. Hinsvegar ætla ég að reyna að gera betur því það er mjög margt sem mig langar að skrifa um. 
Þessi færsla verður örlítið öðruvísi en þær þrjár sem komnar eru. Mig hefur lengi langað að skrifa um mína reynslu af því að lifa með vanvirkan skjaldkirtil, en tilhugsunin hefur á sama tíma oft verið yfirþyrmandi. Nú eru komnar nokkrar vikur síðan ég ákvað að breyta lífi mínu og eitt af því sem ég ákvað að gera í kjölfarið var að skrifa þessa færslu. Í dag finnst mér akkúrat réttur tími til þess og ég ætla því að líta til baka og rifja upp hvernig þetta allt byrjaði. 

Árið 2013 upplifði ég ótrúlega margt, og í raun leið mér eins og 2013 væru 2 ár. Ég hætti í sambandi til margra ára, bjó á sófanum hjá vinkonu minni, byrjaði í nýrri vinnu, flutti í fyrsta skipti ein í íbúð og byrjaði svo í nýju sambandi. Lífið mitt tók miklum breytingum og ég breyttist og þroskaðist á sama tíma helling sem manneskja. Það var í lok ársins sem ég fór að finna fyrir ýmsum furðulegum líkamlegum og andlegum einkennum sem ég gat með engu móti skilgreint og áttaði mig því engan veginn á því hvað var í gangi. Mér fór að líða eins og ég væri alltaf þreytt. Ég hafði aldrei átt í vandræðum með að vakna snemma á morgnana, en skyndilega var það ekki bara erfitt, heldur sársaukafullt. Mér leið eins og ég gengi í svefni og hugsaði ekki um annað á daginn en hvað það yrði gott að komast undir sæng. Þreytan var þó ekki það eina sem hrjáði mig, en ég byrjaði líka að þyngjast virkilega hratt. Ég fann hvernig slit mynduðust um allan líkamann og fötin mín hættu fljótlega að passa á mig. Ég botnaði ekkert í þessu. Ég hafði engu breytt þegar kom að matarræðinu og ég gat ekki séð betur en að ég borðaði mjög næringarríkan og góðan mat. 

IMG_0406-2.jpg

Árið 2014 var erfiðasta ár sem ég hef lifað og þegar ég hugsa til baka sé ég minningarnar í einhverskonar móðu. Á þessum tíma snérist líf mitt um að halda mér vakandi yfir daginn og að reyna að stoppa þessa þyngdaraukningu sem virtist engan endi ætla að taka. Mér leið eins og ég væri með endalausa fyrirtíðaspennu og var rosalega viðkvæm. Við fórum til Barcelona yfir sumarið með tengdafjölskyldu minni og ég hef aldrei upplifað jafn mikla vanlíðan í utanlandsferð. Ég var orðin 20 kílóum þyngri en ég hafði verið tæpu ári áður, og þar sem ég hafði þyngst hratt, var maginn á mér þakinn rauðum slitum. Ég man að ég brotnaði niður í mátunarklefa fyrsta daginn þegar ég mátaði bikiní. Ég skildi ekki hvað var að koma fyrir mig og hvernig ég ætti að laga það. 
  Sama sumar vann ég á sambýli og ég skil varla að ég hafi komist í gegnum sumarið, því ég var bókstaflega búin á því, bæði líkamlega og andlega. Ég gat samt ekki talað um þetta við neinn, því ég skildi þetta ekki sjálf. Ég gat ekki séð að ég væri veik að nokkru leyti, nema þegar ég fékk magakrampa, sem voru eitt það versta sem ég hef nokkurn tíman gengið í gegnum. Þeir lýstu sér þannig að ég vaknaði um miðja nótt með magann fullan af lofti og ropandi endalaust. Þessu fylgdi sársauki sem var svo sterkur að ég vissi ekki hvernig ég ætti að lifa hann af. Ég fór á bráðamóttökuna nokkrum sinnum þetta sumar vegna magaverkjanna og mér var sagt að leita til sérfræðings, en þar sem verkurinn hætti alltaf nokkrum dögum seinna gerði ég ekkert í því. 

Í desember 2014 fór ég í bústað með fjölskyldunni. Það var þá sem mamma mín sá að ekki var allt með felldu. Það fyrsta sem henni þótti óeðlilegt var þessi gríðarlega þyngdaraukning. Ég hafði aldrei átt í vandræðum með þyngdina mína og skyndilega var ég búin að þyngjast um 30 kíló á rúmu ári. Það sem olli henni þó mestum áhyggjum var að það var augljóst að mér leið alls ekki vel. Hún vissi af magakrömpunum, sem voru einnig eitthvað sem ég hafði aldrei gengið í gegnum áður, og svo vissi hún að það hafði liðið yfir mig á stofugólfinu heima fyrr um haustið. Ég hafði ekki hugsað mér að fara til læknis, enda sá ég enga ástæðu til þess. Ég var búin að ákveða að ég væri skyndilega orðin löt og dramatísk og svo væri ég greinilega að borða of mikinn hafragraut á morgnanna og þess vegna væri ég búin að þyngjast svona. Ég sá ekki hvernig læknir gæti hjálpað mér með þetta. Sem betur fer var hún ákveðin og dró mig með sér á heilsugæsluna vikuna eftir. Læknirinn skoðaði mig og ég sagði honum frá öllum einkennunum. Hann sagði að honum þætti þetta hljóma svolítið eins og vanvirkur skjaldkirtill, en sagði mér að vera ekki of vongóð (eins og ég væri virkilega að láta mig dreyma um vanvirkan skjalda.) 

IMG_9663-2.jpg

Ég var í vinnunni þegar ég fékk símtalið. Mér var tjáð að skjaldkirtillinn minn væri vanvirkur sem væri skýringin á öllu því sem ég hefði verið að upplifa síðasta árið, þreytunni, skapsveiflunum, meltingavandamálunum, þyngdaraukningunni og orkuleysinu. Læknirinn sagði að ég yrði sett á Levaxin og það myndi hjálpa mér að verða aftur ég sjálf. Ég var í skýjunum. Mér var eiginlega alveg sama þó ég væri með þennan sjúkdóm, og vissi svosem lítið um hann. Ég vildi bara fá lífið mitt til baka. Á nokkrum vikum var ég orðin laus við mörg af einkennunum. Ég var farin að geta vaknað auðveldlega á morgnanna, og hætt að þurfa að leggja mig yfir daginn. Skapið var orðið stöðugra og mér leið almennt mun betur. Þyngdaraukninginn hélt þó áfram og voru það mikil vonbrigði. Það var ekki fyrr en hálfu ári eftir að ég byrjaði að taka lyfin sem ég hætti að þyngjast. Það gæti mörgum þótt undarlegt að ég tali svona mikið um þyngdaraukninguna, en það að hafa þyngst svona mikið hefur haft mun meiri áhrif á lífið mitt en ég hefði nokkurtíman getað ímyndað mér. Ég hef aldrei upplifað jafn mikið sjálfshatur og á síðustu árum. Allt sem mér þótti svo eðlilegt áður fór að verða erfitt. Það að fara í partý snérist ekki lengur um að gera sig sæta og hafa gaman, heldur upplifði ég mikinn kvíða og stress yfir því að finna mér föt til að fara í sem pössuðu og hræðslu við að hitta einhvern sem ég hafði ekki hitt frá því áður en þetta allt byrjaði. Við höfum flest heyrt fólk segja eitthvað á borð við ,,Guð, ég hitti X um daginn og ég þekkti hana ekki. Hún er búin að fitna svo mikið að hún lítur út eins og önnur manneskja. Hvernig getur fólk látið þetta gerast, þetta er svo óheilbrigt."  Ég óttaðist það stöðugt að fólk talaði svoleiðis um mig. Ég lenti líka stundum í því að hitta gamla vini og ef skjaldkirtillinn kom í tal sagði það ,,Já okei, það hlaut að vera. Ég var alveg mjög hissa að sjá hvað þú værir búin að fitna mikið" eða ,,Ah já okei, ég var að spá hvort þú værir kannski ólétt." Mér þótti þetta gríðarlega erfitt og ósanngjarnt. Mér fór að líða eins og ég væri fórnarlamb sjúkdómsins og hætti að þekkja sjálfa mig þegar ég leit í spegil. Mér hætti að þykja gaman að fara eitthvað fínt og kveið fyrir sumrinu, því ég vildi ekki þurfa að vera léttklædd. Ég hélt þó áfram að næra mig og hugsa um matarræðið því innst inni hafði ég von um að þetta gæti lagast og ég gæti orðið ég sjálf aftur. 

Það var svo síðasta vor sem ég áttaði mig á því að lífið mitt hafði verið á "hold" í langan tíma. Ég hafði eytt tveimur árum í að bíða eftir því að fá lífið mitt til baka en áttaði mig svo á því að lífið mitt var beint fyrir framan nefið á mér allan tímann. Ég einfaldlega hafði neitað að horfast í augu við það að lífið mitt er það sem það er akkúrat núna og ég get ákveðið hvernig ég vil lifa því. Eins hafði ég eytt löngum tíma í að bíða eftir að verða ég sjálf aftur, en ég sjálf er engin önnur en sú sem ég er akkúrat núna. Það var erfitt að horfast í augu við þessa hluti, og þá aðallega að viðurkenna hversu eitrað hugarfar ég hafði haft til sjálfrar mín. Hvernig ætlaði ég að verða heilbrigð og hamingjusöm ef mér þótti ekki einu sinni vænt um mig? Á þeirri stundu setti ég mér það markmið að læra að elska sjálfa mig og hætta að brjóta mig niður með orðum og hugsunum. 

-Svona myndir hefði ég aldrei tekið af mér fyrir ári síðan, en á fyrri myndinni er ég klædd sundbol á leiðinni í pottinn heima hjá tengdó og á seinni myndinni er ég klædd nýju gallabuxunum mínum og nýjum stuttermabol á leið út í sólina.-


Síðan ég tók þessa ákvörðun sé ég mig og lífið mitt með allt öðrum augum. Vissulega á ég mína slæmu daga og get gleymt mér og oft verð ég að muna að stoppa og minna sjálfa mig á að svona hugsanir hjálpa mér ekkert. Ég ætlaði ekki að skrifa um þessa reynslu fyrr en ég væri orðin ótrúlega heilbrigð og gæti komið með þessa hefðbundnu "success" sögu. Það rann síðan upp fyrir mér að það er gríðarlega mikilvægt að heyra líka frá fólki sem er að ströggla og hefur ekki náð 100% bata. Mig langar heldur ekki að boðskapurinn í minni frásögn sé sá að lífið sé ömurlegt þegar við erum í yfirþyngd en svo sé lífið vandræðalaust þegar maður hefur náð að grennast aftur. Eins má segja að ég hafi fengið hálfgerða hugljómun fyrir nokkrum vikum þegar ég fór til Póllands með kórnum mínum. Ég hafði upplifað þessa hræðslu við það að fara eitthvert þar sem heitt væri í veðri og vita ekkert hvernig ég ætti að klæða mig þarna án þess að líða óþægilega með sjálfa mig. Í ferðinni kynntist ég tveimur frábærum stelpum úr kórnum sem eru í svipaðri stærð og ég, og glíma báðar við skjaldkirtilsvandamál. Ég tók strax eftir því í ferðinni að þær klæddu sig nákvæmlega eins og þeim þótti flott og voru báðar bara þvílíkar skvísur. Þær virtust eiga helling af geggjuðum samfestingum, buxum og kjólum á meðan ég klæddi mig í minn hefðbundna síða, víða svarta bolakjól og leggins við. Þær skammast sín ekkert fyrir stærðina sem þær nota og sögðust panta mikið af fötum á netinu þar sem hægt væri að velja "curvy" stærðir. Síðan ég kom heim úr þessari ferð hefur mér liðið allt öðruvísi gagnvart sjálfri mér og hef klætt mig öðruvísi líka. Ég keypti mér gallabuxur í stærð 52 og ákvað að skammast mín ekkert þó þær væru í "stærri stærð." Ég hef klædd mig í stuttermaboli og ákveðið að þykja vænt um handleggina mína sem ég hef eytt nokkrum árum í að fela í hvert skipti sem ég er í kringum fólk. Í fyrsta sinn í mörg ár hef ég áttað mig á því að ég get vel verið skvísa og ákvað því að héðan í frá er ég hætt að fela mig fyrir sjálfri mér og öðrum.

Lífið er núna og það bíður ekki. 

Helga María

Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

  • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

  • 1 miðlungsstór laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • Grillkrydd eftir smekk

  • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

  • 1 msk balsamik edik

  • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

  • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

  • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

  • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

  • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

  • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

  • 2 msk ljóst tahini

  • 1/2 grænmetisteningur

  • 1/2 bolli vatn

  • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

  2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

  3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

  4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

  5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
    Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
    Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
    Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

  7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 

Gómsæt eplabaka

IMG_3649-3.jpg

Það er ekkert betra eftir góða máltíð en góður eftirréttur. Eða það finnst mér allavega. Uppáhalds eftirréttirnir mínir eru einfaldir eftirréttir, eitthvað sem þarf ekki að hafa mikið fyrir, líkt og góður vegan ís eða einföld kaka. Við erum mjög heppin með það að það er ótrúlega mikið af góðum vegan ís komin á markaðin hér á landi og er þar ísinn frá Oatly einn af mínum uppáhalds. 

IMG_3520-2.jpg
IMG_3531 (3).jpg

Þessi eplabaka er einn af mínum uppáhalds eftirrétti en það er eindfaldlega vegna þess hversu auðvelt er að útbúa hana og hversu góð hún er. Það sem mér finnst líka vera mikill kostur er að það má undirbúa hana snemma um daginn og skella henni síðan bara í ofninn eftir matinn. 

IMG_3624-4.jpg

Kakan samanstendur af grænum eplum, möndlusmjörs-karamellu (sem passar fullkomlega með eplunu) og hafradeigi sem gerir "krönsí" áferð. Bakan passar fullkomlega með vanilluísnum frá Oatly.

IMG_3643-2.jpg

Eplabaka:

Aðferð:

  1. Afhýðið eplin og skerið niður í litla bita. Setjið í eldfast mót og hellið möndlusmjörs-karamellunni yfir.

  2. Útbúið deigið með því að blanda restinni af hráefnunum saman í skál og dreifið yfir eplin. 

  3. Bakið kökuna í 30 til 35 mínútur við 180°C 

Möndlusmjörs-karamella

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í pott og leyfið suðunni að koma upp.

  2. Sjóðið í 2 til 3 mínútur og hrærið í á meðan.

Vonum að þið njótið
-Veganistur

innnes2.jpg

-Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel og Innnes-

Vikumatseðill 16. til 21. apríl

20170716_210154.jpg

Vikumatseðill 16.apríl til 21.apríl

Mánudagur:
Mexíkógrýta, kartöflumús og Oatly sýrður rjómi

Þriðjudagur:
Spagetti og vegan kjötbollur með tómatpastasósu og hvítlauksbrauði

Miðvikudagur:
Falafelbollur, salat og góður hummus.

Fimmtudagur:
Baunasúpa með kartöflum og rófum.

Föstudagur:
Gardein "kjúklingaborgari" með hvítlauksmajó og kartfölubátum

Laugardagur:
Pizza!
 

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vegan grýta

IMG_2083.jpg
IMG_2122.jpg

Grýta er einn mesti nostalgíumatur sem ég veit um en það var mjög oft í matinn heima hjá mér þegar ég var barn. Rétturinn er virkilega einfaldur en á sama tíma ótrúlega góður sem gerir hann að fullkominni máltíð fyrir köld vetrarkvöld eftir langan dag þegar metnaðurinn er kannski ekki sá allra mesti. Stundum þarf maður virkilega á því að halda að geta bara hent saman hráefnum á pönnu og ekki hugsað neitt sérstaklega um það. 

Ég viðurkenni að grýta var ekki réttur sem að ég hélt að ég myndi borða eftir að ég varð vegan. Ég var þó ekki búin að vera vegan ýkja lengi, þó það hafi alveg verið komið rúmlega eitt ár, þegar ég komst að því að lang flest grýtuduft er vegan. Þá var reyndar ekki mikið um gott vegan hakk á markaðnum og ég hugsaði því ekki oft um að nýta mér slíkt duft. Nú er vegan hakk hins vegar auðfundið í lang flestum búðum og er það líka bara ótrúlega gott. Vegan hakk er eitt af mínu uppáhalds kjötlíki þar sem hakk er notað mikið í góða bragðmikla rétti sem oftast er auðvelt að gera vegan einfaldlega með því að skipta því út fyrir vegan hakk.

IMG_2308.jpg

Hægt er að gera nokkrar útgáfur af þessum rétt. Hann er hægt að gera á mjög einfaldan máta þar sem í raun þarf bara hakk og grýtuduftið, en einnig er hægt að leika sér með hann og bæta alls kynns góðum hráefnum út í. 

Hráefni:

  • Mexíkósk grýta frá Toro

  • 1 poki vegan hakk frá Halsans kök

Það sem mér finnst gott að setja út í:

  • 1 dós nýrnabaunir

  • 1 dl graskersfræ

  • frosnar harricot baunir

Aðferð:

  1. Steikið hakkið á pönnu upp úr smá vatni eða olíu.

  2. Bætið grýtuduftinu út í ásamt vatni eins og nauðsynlegt er samkvæmt pakkanum.

  3. Bætið nýrnabaunum, graskersfræjum og strangjabaunum saman við ef nota á slík hráefni.

  4. Leyfið réttinum að sjóða eins og pakkningarnar segja til um.

Rétturinn stendur vel einn og sér en uppáhalds meðlætið mitt með honum er kartöflumús og sýrður rjómi frá Oatly.

-Júlía Sif

Súkkulaðihúðaðar saltkaramellu-möndlukúlur

IMG_0343.jpg

Gómsætar súkkulaðihúðaðar möndlu og saltkaramellukúlur! Er hægt að biðja um meira?! Hér sit ég japlandi á þessu unaðslega góða sælgæti og hlakka til að deila með ykkur uppskriftinni. 

IMG_0235.jpg

Fyrir ekki svo löngu birti ég mynd af kúlunum á Instagram og spurði hvort áhugi væri fyrir því að fá uppskrift. Ég fékk heldur betur góð viðbrögð svo ég ákvað að kúlurnar skyldu fara á bloggið. Uppskriftin af þeim varð til þegar Siggi, kærastinn minn, spurði mig hvort ég gæti prufað að gera döðlukúlur sem hann gæti borðað. Ég var vön að nota í þær hnetusmjör og kasjúnetur, en þar sem hann er með ofnæmi fyrir flestum hnetum, gat hann aldrei borðað þær.  Ég ákvað því að breyta uppskriftinni og nota í hana möndlur og sjá hvort hún yrði ekki eins góð, og útkoman var enn betri en ég bjóst við. Síðan þá hef ég einungis notað möndlur í kúlurnar og held ég haldi mig við það framvegis. 

Ég geri kúlurnar í Twister könnunni fyrir Blendtec blandarann, en ég myndi mæla með því að notuð sé matvinnsluvél nema þið eigið annaðhvort Vitamix blandara eða Blendtec og Twister könnuna. Það getur verið algjört maus að útbúa svona kúlur í venjulegum blandara og ég sjálf hef frekar slæma reynslu af slíkri tilraun.

IMG_0260.jpg

Kúlurnar eru gómsætar bæði sem millimál þegar mann vantar orku, en líka fullkomnar til að bjóða upp á sem fingramat í veislum eða partýum. Mér finnst best að fá mér kúlu með kaffibolla dagsins, það er eitt besta "combo" sem ég veit. Ef þið viljið hafa þær í heilsusamlegri kanntinum er auðvitað hægt að nota 70% súkkulaði, eða einfaldlega sleppa súkkulaðinu. Mér finnst súkkulaðið samt ómissandi, en það er algjörlega smekksatriði. 

IMG_0285-2.jpg

Ég er mikið fyrir það þegar sætu og söltu er blandað saman svo mér finnst rosalega gott að strá örlitlu salti yfir kúlurnar. Mér þætti ótrúlega gaman að heyra hvað ykkur finnst ef þið gerið kúlurnar, og eins ef þið prufið að nota í þær aðra tegund af hnetum. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem hægt er að leika sér endalaust með. 

IMG_0345.jpg

Kúlurnar (sirka 20 stk):

  • 2 dl möndlur

  • 2 og 1/2 dl ferskar döðlur (Það voru akkúrat 10 döðlur) - mikilvægt að taka steininn úr!

  • 1 kúfull msk möndlusmjör

  • 1 tsk hlynsíróp eða agave

  • 2 tsk kakóduft

  • 1/5 tsk salt

  • 1 tsk bráðin kókosolía (má sleppa! Möndlusmjörið sem ég notaði var rosalega þykkt svo ég bætti olíunni út í til að blandarinn ætti auðveldara með að vinna. Ég myndi byrja á því að setja allt hitt og sjá til hvort nauðsynlegt er að setja olíuna)

Utan um kúlurnar:

  • 100g suðusúkkulaði

  • 1/2 tsk kókosolía

  • Gróft salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja möndlurnar í matvinnsluvél eða blandara. (ATH að til að hægt sé að gera þetta í blandara þarf að eiga virkilega góða týpu. Ég mæli frekar með að útbúa kúlurnar í matvinnsluvél nema þið eigið hágæða blandara sem ræður við svona matargerð.) Púlsið þar til möndlurnar eru orðnar að kurli. Ég vil hafa mínar ágætlega grófar svo ég passa að mylja þær ekki.

  2. Takið steinana úr döðlunum og bætið þeim í matvinnsluvélina, ásamt kakódufti, salti, sírópi og möndlusmjöri. Maukið þar til allt hefur blandast vel saman. Ef deigið er of þykkt mæli ég með því að bæta kókosolíunni út í

  3. Rúllið úr deiginu litlar kúlur, raðið þeim á disk og setjið í ísskáp í svona 30-60 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið og hrærið saman við það kókosolíunni

  5. Veltið kúlunum upp úr súkkulaðinu og raðið þeim á disk. Ég set bökunarpappír undir þær svo þær festist ekki við diskinn. Stráið yfir þær grófa saltinu og setjið þær í ísskáp í allavega 30 mínútur svo súkkulaðið nái að harðna vel.

veganisturundirskrift.jpg

Ég ætla að breyta lífi mínu - 3. kafli

Jæja Helga, hvað er að frétta? Þessi færsla ætti að vera löngu komin og eins og mig langar að geta sagt að ég hafi fjölmargar gildar ástæður, er eiginlega engin afsökun nógu góð. Ætli það verði ekki efst á listanum fyrir næstu viku að birta færsluna á réttum tíma ehhehe.. 

IMG_0107-2.jpg

Síðustu vikur hefur líf mitt breyst að mörgu leyti en á sama tíma er erfiðara en ég hélt að breyta ýmsu. Ég get þó byrjað á því að segja að ég hef ekki verið jafn hamingjusöm lengi. Ég talaði um það í síðustu færslu hvernig ég vil segja skilið við þær ákveðnu hugmyndir um hver ég er og hvað ég get og get ekki gert. Það hefur verið ákveðin áskorun og ég hef komist að því að hugmyndir mínar um hver ég er, eru mun skorðaðri en ég gerði mér grein fyrir. Samt sem áður er það skemmtileg áskorun því ég hef kynnst sjálfri mér betur í kjölfarið. Það er þó ekki nóg að breyta því hvernig ég hugsa, heldur þarf ég að læra að taka skrefið og gera hlutina sem mig hefur alltaf langað en annaðhvort ekki þorað eða fundist ég ekki geta gert. Síðan ég var unglingur hef ég meðal annars forðast það að gera hluti sem ég er ekki nú þegar orðin góð í (ég átta mig fyllilega á því að dæmið gengur eiginlega ekki upp.) Ég myndi aldrei spila mini-golf eða reyna að búa til málverk, því ég kann það ekki. Þessi hugsunarháttur hefur gert það að verkum að ég stoppa sjálfa mig oft og geri ekkert af því sem mig langar því mér finnst ég ekki geta gert það nógu vel. 

IMG_9984-2.jpg

Ég hef mikið hugsað um þetta síðustu vikur og er ákveðin í að breyta þessu. Ég tók því fyrsta skrefið í síðustu viku. Síðan ég var barn hefur mér þótt gaman að búa til tónlist og hef í gegnum tíðina samið fullt af hálfkláruðum lögum. Mér hefur aldrei þótt ég hafa það sem þarf til að klára lögin og hvað þá leyfa fólki að heyra þau. Við Siggi höfum síðastliðna mánuði leikið okkur í GaragaBand í símanum mínum og búið til lög sem mér hefur þó aldrei þótt nálægt því nógu góð til að setja á netið, þar til ég áttaði mig á því að lögin sem ég geri núna eru einfaldlega eins góð og ég gert þau akkúrat núna, og að það er ekkert að því. Í síðustu viku settist ég við píanótið og samdi lag sem Siggi hjálpaði mér svo að setja upp í GaragaBand appið á símanum mínum og gerði meðal annars fyrir mig trommur og fl. Ég tók svo sönginn upp í iPhone heyrnatólin, svo gæðin eru allt annað en góð. Við ákváðum að setja það á Soundcloud og Youtube þrátt fyrir að lagið sé langt frá því að vera fullkomið. Oft er sagt að eyða þurfi 10.000 klukkutímum í að gera eitthvað til að verða mjög góð/ur í því, og ég hef alls ekki eytt 10.000 klukkutímum í að semja tónlist, svo það væri virkilega skrítið ef ég væri einhver snillingur í því. 

Lagið heitir I'll be fine og það var virkilega gaman að búa það til. Ég get leyft mér að segja að ég sé stolt af því, þrátt fyrir að mér finnist margt mega vera betra. Ég hlakka til að sýna ykkur fleiri lög og kannski eftir svona hundrað í viðbót kemur eitthvað meistaraverk. 

Síðustu vikur hef ég:

  • Vaknað í kringum klukkan 8 alla daga
  • Klætt mig í almennileg föt daglega og leyft kósýgallanum að bíða þar til á kvöldin
  • Talað oftar við systkini mín en ég hef gert síðasta hálfa árið nánast
  • Eytt miklum tíma í að læra að hugsa öðruvísi um sjálfa mig 
  • Bloggað það sem ég ætlaði fyrir páskana, þ.a.m. fyrstu færlsuna fyrir samstarfið sem við erum í
  • Hlustað á miiiikið af tónlist og sungið miklu meira en ég hef verið vön síðustu ár. Ég hef uppgvötað fullt af skemmtilegum tónlistarmönnum og notið þess að hlusta á eitthvað nýtt
  • Klárað lagið sem ég var að vinna í og birt það 
  • Haldið matarboð og kynnst vinum okkar hérna í Piteå betur
  • Unnið við borð en ekki í sófanum - stór sigur ehe
  • Borðað næringaríkan mat (fyrir utan nokkra daga um páskana)
  • Hugsað vel um húðina mína
  • Átt yndislegt símtal við Siggu vinkonu mína, sem var löngu orðið tímabært
  • Brosað meira og hlegið meira en ég hef gert lengi
  • Haldið áfram að þykja vænt um mig 

Það sem hefði mátt fara betur og ég mun bæta í þessari viku:

  • Ég hef hreyft mig vandræðalega lítið (af hverju er svona erfitt að fara í ræktina þegar maður hefur tekið pásku?!)
  • Ég hef stundum leyft uppvaskinu að bíða þar til daginn eftir, sem er aldrei þess virði
  • Ég hef oft gleymt mér í Youtube glápi þegar ég á að vera að gera eitthvað annað
  • Ég hef nokkrum sinnum dottið í sjálfsvorkunn varðandi vanvirka skjaldkirtilinn minn og því sem fylgir og ég ætla að tala betur um það í næstu færslu. 
  • Ég fór ekki á kaffihúsadeit eins og ég hafði ætlað mér
  • Ég færði EKKI lögheimilið!! Ég ætlaði að gera það tvisvar og fattaði að ég hafði gleymt vegabréfinu heima í bæði skiptin, halló Helga, þú getur þetta!

Þessa vikuna ætla ég að:

  • Halda áfram að tileinka mér þær daglegu venjur sem ég hef verið að taka upp
  • Færa lögheimilið í eitt skipti fyrir öll, ég verð!
  • Halda áfram að vinna í hinu laginu sem við Siggi erum að gera
  • Gera uppskriftarfærslurnar sem ég er með á dagskrá
  • Byrja að fara reglulega í ræktina, ég fór í gær og það lét mér líða virkilega vel
  • Hringja í ömmu
  • Hringja í systkini mín
  • Halda áfram að ganga frá eftir mig jafn óðum, það lætur mér líða mun betur í eigin umhverfi
  • Klára bókina sem ég er að lesa
  • Fara á kaffihúsadeit með sjálfri mér og skrifa
  • Byrja að undirbúa Póllandsferðina með kórnum (þarf m.a. að fara í blóðprufu og fá nýjan skammt af skjaldlyfjum áður en við förum)
IMG_9645.jpg

Næsta færsla kemur á réttum tíma, ég ætla að lofa sjálfri mér því!

Helga María 

 

 

Vikumatseðill 3. til 7. apríl

IMG_0439.jpg

Vikumatseðill 3. apríl til 7. apríl

 

Þriðjudagur:
Salat með kínóa, ofnbökuðu rótargrænmeti og hvítlauksjógúrtsósu

Miðvikudagur:
Hnetusmjörsnúðlur með tofu

Fimmtudagur:
Sætkartöflusúpa með súrdeigsbrauði

Föstudagur:
Supernachos með vegan hakki svörtum baunum, maís, salsa, vegan osti og guacamole

Laugardagur:
Mac and cheese að hætti veganista og hvítlauksbrauð


 

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Kartöflugratín

IMG_0196.jpg

Kartöflugratín er eitthvað sem við systurnar ólumst ekki upp við að borða. Það var ekki fyrr en á fullorðinsárunum sem við áttuðum okkur á því hvað gratín er frábært meðlæti. Í dag er það oft á boðstólum hjá okkur við ýmis hátíðleg tilefni. 

IMG_0224-4.jpg

Gratín er einn af þessum réttum sem bragðast rosalega vel og henta fullkomlega sem meðlæti með fínum mat, en er virkilega auðvelt að útbúa. Það er þægilegt þegar maður eldar eitthvað fínt sem þarfnast mikillar vinnu, að geta útbúið gott meðlæti sem hægt er að skella í ofninn án þess að spá mikið í því. Matreiðslurjóminn frá Oatly er í miklu uppáhaldi hjá okkur og hann gerir gratínið rjómakennt og gott. 

IMG_0169-2.jpg

Við höfum prufað okkur áfram með gratínið síðustu ár og hef komist að því að okkur þykir best að sjóða kartöflublönduna í potti og baka hana síðan í ofninum. Við höfum prufað að gera gratínið með vegan osti en komist að því að okkur þykir hann ekki nauðsyn. Við einfaldlega kryddum  blönduna áður hún fer í ofninn og yfirborðið verður svolítið stökkt, líkt og þegar ostur er settur yfir. Í dag bar ég gratínið fram með páskamatnum, en uppskrift af honum er að finna HÉR

IMG_0222.jpg

Kartöflugratín

Fyrir 4
Eldunartími: 40 mín

  • 1 msk vegan smjör

  • Sirka 0,75 kg kartöflur

  • 4 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1/2 laukur, skorinn í strimla

  • 2-3 hvítlauksgeirar - pressaðir

  • 1 grænmetisteningur

  • Pasta rossa krydd eftir smekk

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Krydd til að strá yfir gratínið áður en það fer í ofninn. Mér þykir mjög gott að setja chili flögur, gróft salt og reykta papriku, en það er hægt að nota hvaða krydd sem er. 

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Skerið Kartöflurnar í sneiðar - mér þykir gott að hafa hýðið með

  3. hitið smjör í potti og bætið lauk og hvítlauk út í

  4. Steikið í nokkrar mínútur, eða þar til laukurinn hefur mýkst töluvert. Ef mér finnst laukurinn vera að festast við botninn helli ég örlitlu vatni út í

  5. Bætið kartöflunum í pottinn ásamt Oatly rjómanum og kryddunum og sjóðið við vægan hita í sirka korter

  6. Smyrjið eldfast mjót með örlitlu vegan smjöri, hellið blöndunni í, kryddið með því sem ykkur þykir best (eða dreifið vegan osti yfir) og bakið í 20 mínútur

-Veganistur

innnes2.jpg

-Færslan er unnin í samstarfi við Innnes Heildverslun-

Súkkulaðiterta með bananakremi

IMG_3403.jpg

Þegar við vorum börn var undantekningarlaust bökuð súkkulaðiterta með bananakremi við öll hátíðleg tilefni. Þessi kaka var í miklu uppáhaldi hjá okkur og við höfum alltaf tengt hana við hátíðir, eins og jól, páska, afmæli og allskonar fjölskylduboð. Það er sem betur fer lítið mál að útbúa vegan útgáfu af þessari gómsætu köku, svo við getum haldið áfram að njóta hennar við hvaða tilefni sem er. 

IMG_3311.jpg

Í kökuna ákváðum við að nota botnana okkar sem eru nú þegar hérna á blogginu. Eftir nokkrar tilraunir til að útbúa nýja uppskrift af súkkulaðibotnum áttuðum við okkur á að enginn af þeim var eins góð, að okkar mati, og sú sem við erum vanar að gera. Í stað þess að setja uppskrift af nýjum botnum sem okkur þykja ekki jafn góðir, ákváðum við að nota bara þá sem eru á blogginu og hafa slegið í gegn síðustu árin. 

IMG_3288.jpg

Þessi kaka er tilvalin fyrir páskana og banana-smjörkremið er svo gott að við gætum borðað það með skeið. Okkur þætti mjög gaman að vita hvort það eru margir sem ólust upp við að borða þessa köku, því við þekkjum ekki marga. Eins og margir hafa kannski tekið eftir þykir okkur virkilega gaman að útbúa vegan útgáfur af allskonar mat sem við ólumst upp við að borða. Ef þið hafið hugmyndir af einhverju sem þið mynduð vilja sjá í vegan útgáfu megið þið endilega koma með tillögur, við elskum að takast á við nýjar áskoranir. 

IMG_3421.jpg
IMG_3443.jpg

Botnarnir: 

  • 3 bollar hveiti

  • 2 bollar sykur

  • 1/2 bolli kakó

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 2 bollar vatn

  • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri

2. Blandið þurrefnum saman í skál 

3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu

4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau.  Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 24 cm hringlaga kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti.

5. bakið í 20-30 mínútur

Banakrem: 

  • 150 gr mjúkt smjörlíki

  • 120 gr flórsykur

  • 2 stappaðir bananar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörlíkið þar til það verður vel mjúkt, bætið síðan flórsykrinum út í og þeytið vel

  2. Stappið bananana og hrærið saman við kremið með sleif.

  3. Smyrjið kreminu á milli botnanna.

Súkkulaðikrem:

  • 250 gr smjörlíki

  • 200 gr flórsykur

  • 100 gr brætt suðusúkkulaði

  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörlíkið í hrærivél þar til vel mjúkt, bætið flórsykrinum og vanilludropunum útí og þeytið vel saman.

  2. Bræðið súkkulaðið, hellið útí og þeytið vel saman við.

  3. Smyrjið kreminu vel yfir alla kökuna og á hliðina.

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Gómsætur heitur brauðréttur

IMG_9975-2.jpg

Ein af okkar fyrstu uppskriftum hérna á blogginu er af heitu rúllubrauði með aspas og sveppum. Uppskriftin hefur verið ein af þeim vinsælustu á blogginu síðan. Við höfum fengið ótal margar skemmtilegar myndir af því þegar fólk útbýr brauðið við ýmis hátíðleg tilefni og það virðist slá í gegn í hvert skipti. Við höfum þó fengið margar spurningar um það hvernig hægt sé að breyta réttinum úr rúllubrauði yfir í hefðbundinn aspasbrauðrétt í eldföstu móti. Eftir að hafa í þónokkurn tíma svarað öllum persónulega þegar ég er spurð, ákvað ég að búa til nýja uppskrift svo fólk geti bæði notast við uppskriftina af rúllubrauðinu og uppskrift af réttinum í eldföstu móti. 

IMG_9894-2.jpg

Ég ákvað að nota reykta og saltaða Oumph!-ið, og vá! Það passaði fullkomlega í réttinn. Ef þið eruð ókunnug Oumph!-inu mæli ég með því að þið lesið þessa grein. Ég nota Oumph! mikið í allskonar rétti og þið finnið ýmsar uppskriftir hérna á blogginu þar sem það er notað, við erum miklir aðdáendur. 

Í réttinn nota ég heimagert vegan mæjónes. Það er vissulega hægt að kaupa tilbúið vegan mæjónes úti í búð en þegar maður hefur prófað að búa til sitt eigið er eiginlega ekki aftur snúið. Það tekur innan við 5 mínútur, er virkilega ódýrt og stenst algjörlega allan samanburð. Síðan ég lærði að gera mæjónes sjálf hefur það reynst mér mun auðveldara að gera allskonar sósur sem ég var vön að elska áður en ég gerðist vegan, eins og pítusósu, kokteilsósu, hamborgarasósu og sæta sinnepssósu. Í mæjóið þarf einungis 5 hráefni og er uppskriftin af því hér að neðan. 

Í réttinum er einnig heimagerð sveppasósa sem er algört lykilatriði. Þegar ég var yngri var mamma vön að gera brauðrétt þar sem hún notaði sveppasúpu í dós frá Campbell og ég vildi búa til svipaðan "fíling." Heimagerða sósan er miklu betri að mínu mati og gefur réttinum svo ótrúlega gott bragð. 

Webp.net-gifmaker (5).gif

Þó það sé bæði heimagert mæjónes og heimagerð sveppasósa í réttinum, tekur enga stund að búa hann til. Ég get líka lofað ykkur því að þetta er allt þessi virði þegar hann er tilbúinn. Mér þætti virkilega gaman að heyra hvort ykkur líkar og ég skora á ykkur til að búa hann til fyrir næstu veislu og segja engum að hann sé vegan fyrr en eftir á. Mér finnst mjög hæpið að fólki myndi detta það í hug!

IMG_9928.jpg

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 1 peli Oatly matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur frá Knorr

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (Má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg. Ég nota hana bara þegar ég á hana til en myndi ekki kaupa hana sérstaklega fyrir sósuna)

  • Vatn og hveiti til að þykkja. (Ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið)

  1. Skerið sveppina niður eftir smekk (fyrir þennan rétt finnst mér gott að skera þá mjög smátt) og setjið í pott. Ekki láta ykkur bregða þó potturinn sé nánast fullur af sveppum, þeir rýrna mikið við eldun.

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta örlitlu vatni saman við og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð.

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni. Mér þykir best að hafa sósuna mjög þykka (mun þykkari en ef ég væri að bera hana fram með mat. Að öðru leyti væri þessi sósa fullkomin sem meðlæti með ýmsum mat)

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið. Sósan má vera svolítið bragðsterk.

Aspas brauðréttur:

  • 1/2 poki Salty & Smoky Oumph!

  • 1 dós aspas ásamt safanum (Ég var með aspas í krukku sem var 330g með vatninu og 185g þegar einungis aspasinn er veginn)

  • 2 dl vegan mæjónes + meira til að smyrja ofan á réttinn áður en hann fer í ofninn

  • Sveppasósan hér að ofan

  • Sirka 12 sneiðar af hvítu samlokubrauði. Ég fyllti svona 2/3 af eldfasta mótinu af brauði

  • Paprikuduft (eða annað krydd eftir smekk. Mamma notaði oft sítrónupipar ofan á svona brauðrétt en mér finnst paprikuduft og örlítið af grófu salti best. Ég hef líka notað Chilli explosion kryddið frá Santa Maria og það var virkilega gott)

  1. Hitið ofninn á 200°c

  2. Gerið mæjóið og sveppasósuna og leggið til hliðar

  3. Skerið Oumph!-ið niður í smáa bita og steikið í nokkrar mínútur á pönnu

  4. Bætið mæjónesinu, sósunni, aspasnum og safanum frá aspasnum á pönnuna og hrærið vel saman

  5. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið sneiðarnar í teninga og setjið í eldfast mót. Það er alveg hægt að setja sneiðarnar heilar í formið en mér þykir betra að skera þær niður í sirka 6 teninga.

  6. Hellið fyllingunni ofan í formið og jafnið hana út svo hún nái yfir allt formið.

  7. Smyrjið mæjónesi yfir blönduna og kryddið með paprikudufti og gófu salti, eða bara því kryddi sem ykkur þykir best.

  8. Bakið réttinn þar till yfirborðið er orðið gyllt, eða í kringum 20 mínútur.

Ég ætla að breyta lífi mínu - 2. kafli

IMG_9687.jpg

Síðasta vika hefur verið áhugaverð. Mér hefur að mörgu leyti liðið eins og ég sé að fá tækifæri til að byrja upp á nýtt. Tækifæri til að sleppa frá mér öllum þeim hugmyndum og skoðunum um það hver ég er og hvað ég get og get ekki. Það er nefnilega magnað að stoppa um stund og átta sig á því að hausinn á manni setur manni gríðarlega mikil takmörk. Við göngum í gegnum lífið með rödd í höfðinu sem stoppar ekki. Hún gefur okkur endalaust af óumbeðnum ráðum og tjáir okkur skoðanir sínar á öllum sköpuðum hlutum. Ef röddin í höfðinu á okkur væri önnur manneskja værum við löngu búin að segja henni að hypja sig. Hver vill umgangast einhvern allar stundir sem talar við okkur á sama hátt og röddin í höfðinu á það til að gera? Við getum ekki þaggað niður í röddinni og þess vegna er svo mikilvægt að gera hana að okkar besta vini. Svo það sé á hreinu, þá er ég að tala um hugsanir okkar. Við hugsum allan liðlangan daginn og oft um eitthvað sem skiptir voðalega litlu máli eða jafnvel lætur okkur líða virkilega illa. Oft er líka erfitt að greina á milli staðreynda og svo okkar upplifunum á hlutunum, sem eru þegar allt kemur til alls, bara okkar upplifun. 

Síðan ég birti síðustu færslu hef ég upplifað margar og miklar tilfinningar, þó eiginlega bara jákvæðar. Ég viðurkenni að ég var svolítið hrædd um að ekkert myndi breytast hjá mér og þessi árs skuldbinding mín myndi verða að engu. Í dag er ég síður en svo hrædd um það og ég get sagt að ég hafi ekki upplifað jafn góða viku í langan tíma. Mér líður á margan hátt eins og ég sé önnur manneskja. Ekki vegna þess að ég er skyndilega allt öðruvísi en ég var áður heldur vegna þess að með því að taka ákvörðun um að breyta lífi mínu, og segja frá því á blogginu og á snappinu okkar, líður mér eins og ég hafi klifið vegg sem ég taldi mig ekki komast yfir. Eins fékk ég fjöldann allan af skilaboðum frá fólki sem annaðhvort vildi sýna mér stuðning eða jafnvel taka þátt í þessu átaki með mér og ég get ekki lýst því hvað mér þykir vænt um það. 

IMG_9839.jpg

Í síðustu viku

  • Vaknaði ég fyrir klukkan 9 á hverjum degi
  • Klæddi ég mig í föt á hverjum degi og kósýgallinn hefur fengið smá hvíld
  • Átti ég yndislegt símtal við Katrínu litlu systur mína.
  • Átti ég yndislegt símtal við ömmu mína
  • Prufaði ég mig áfram með kökuuppskrift sem kemur á bloggið á næstu dögum
  • Mætti ég á kóræfingu og æfði mig vel fyrir hana
  • Fór ég á kaffihús, las ljóð, drakk gott kaffi og spjallaði við Sigga
  • Fór ég í spennandi atvinnuviðtal varðandi sumarvinnu
  • Gekk ég frá eftir mig jafn óðum og leið ég kjölfarið mun betur í umhverfinu mínu
  • Minnti mig á það daglega að ég ber ábyrgð á lífinu mínu og þó ég hafi ekki fullkomna stjórn á því sem kemur fyrir mig, hef ég stjórn á því hvernig ég bregst við því. 
  • Þvoði ég á mér andlitið á hverju kvöldi fyrir svefninn
  • Hlustaði ég mikið á tónlist og uppgvötaði frábæra nýja hljómsveit
  • Borðaði ég næringarríkan mat og keypti engar óþarfa umbúðir
  • Datt ég tvisvar í hálkunni og langaði ekki að hverfa inn í sjálfa mig!!

Það sem mér tókst ekki nógu vel í síðustu viku en ætla að gera betur þessa viku:

  • Ég gaf mér ekki tíma á kvöldin þar sem ég lagði frá mér símann. Ég er að reyna að vera meira meðvituð um símanotkunina og það er virkilega áhugavert hvað ég á það til að teygja mig í símann þegar mér leiðist
  • Ég borðaði enga máltíð án þess að hafa afþreyingu. Ég hef áttað mig á því að ég er alltaf með Snapchat, Instagram, Youtube myndbönd, hlaðvörp eða hljóðbækur í gangi á meðan ég borða og mig langar að breyta því
  • Ég póstaði ekki Instagram myndum jafn oft og ég ætlaði mér
  • Ég gerði ekki uppskriftarfærslu 
  • Ég hreyfði mig ekkert að viti, en það er þó vegna þess að ég er að jafna mig eftir snúinn ökkla og tók ákvörðun um að taka því rólega síðustu vikuna. Ég fór samt eitthvað út úr húsi alla dagana og er ánægð með það. 
IMG_9716-2.jpg

Þessa vikuna ætla ég að:

  • Halda áfram þeim daglegu venjum sem ég hef náð að tileinka mér síðustu vikuna 
  • Halda áfram með lagið sem ég hef verið að búa til síðustu daga
  • Skrifa meira
  • Lesa fleiri ljóð
  • Gera tvær uppskriftafærslur sem ég er búin að undirbúa
  • Hitta vini okkar Sigga um helgina
  • Undirbúa samstarfið sem við Júlía erum að fara í
  • Hreyfa mig daglega, hvort sem það er að fara í ræktina, göngutúr eða gera æfingar hérna heima
  • Fara á allavega eitt kaffihúsadeit með sjálfri mér 
  • Halda áfram að þykja svona vænt um sjálfa mig 
  • MUNA að það er eðlilegt að ekki séu allir dagar fullkomnir. Ég er ekki að reyna að vera fullkomin eða glöð alla daga, það eru óraunhæfar kröfur sem gagnast engum
  • Færa lögheimilið mitt!! Kommon Helga, þú hefur haft endalausan tíma til að gera þetta
IMG_9700.jpg

Ég hlakka til að heyra í ykkur að viku liðinni! 

Helga María

 

Ég ætla að breyta lífi mínu - 1. kafli

Ég sá myndband um daginn sem hafði mikil áhrif á mig. Í myndbandinu segir ung kona frá því hvernig hún ætli að breyta lífi sínu á 365 dögum. Í kjölfarið fór ég að skoða líf mitt og sérstaklega þá hluti sem ég er ósátt við en hef ekki gert mikið til þess að breyta. Á síðustu dögum hef ég smám saman áttað mig á því hvernig ég hef beðið eftir því að lífið segi mér hvenær röðin sé komin að mér. Þá muni allt sem þarf að laga í mínu lífi kippast í liðinn og ég verði betri manneskja, með betri venjur og betra hugarfar. 

IMG_9595-2.jpg

Ég hef í rauninni eytt gríðarlegum tíma í að haga mér og hugsa eins og það sé ekki í mínum verkahring að búa mér til það líf sem ég vil lifa, svona eins og að með því að viðurkenna að ábyrgðin sé virkilega mín þurfi ég að standa upp og gera eitthvað í því, sem er auðvitað ekki jafn þægilegt og að sitja heima og bíða eftir að lífið banki uppá og bjóði manni í einhverskonar allsherjar "make-over." 
  Eftir að hafa horft á myndbandið, hugsað um það í nokkra daga, horft á það aftur, og svo einu sinni enn, ákvað ég að taka Dottie til fyrirmyndar og skora á sjálfa mig að breyta lífi mínu næstu 365 daga og leyfa ykkur að fylgjast með. Ég er ekki að tala um áramótaheit sem ég gleymi eftir viku, heldur er ég að tala um það að leggja mig alla fram, í fyrsta sinn á ævinni, við að laga það sem ég hef viljað laga en aldrei komið mér í. 
   Síðustu ár hef ég verið óánægð með margt í lífinu mínu og margt í eigin fari en það er einmitt ákveðið vandamál út af fyrir sig. Ég hef nefnilega verið föst í því að einblína einungis á það sem ég er ósátt við og það sem ég vil HÆTTA að gera í stað þess að hugsa um hvernig ég get bætt nýjum og jákvæðum venjum inn í lífið mitt. Næstu 365 daga ætla ég hinsvegar að einbeita mér að því að tileinka mér jákvæðar venjur sem ég tel að muni gera mér og fólkinu í kringum mig gott. Í stað þess að hugsa stanslaust um það sem ég vil hætta að gera ætla ég að hugsa um það sem ég vil byrja að gera. Ég ætla að gera mitt besta, en ætla á sama tíma að muna að "mitt besta" getur breyst frá degi til dags og að þó mér gangi verr í dag en í gær þýðir það ekki að ég sé að standa mig illa eða að mér sé að misheppnast. 

En þrátt fyrir að dagsformið sé og muni alltaf vera misjafnt er það víst að dagurinn í dag er dagurinn sem ég ætla alltaf að muna. 14. mars 2018. Dagurinn sem ég ákvað að taka ábyrgð á eigin lífi og leggja í fyrsta skipti mikla vinnu í að byggja upp það líf sem ég vil lifa og búa mér til þær jákvæðu venjur sem ég tel að munu hjálpa mér að vera hamingjusöm og heilbrigð.  Hér eru nokkur dæmi um venjur sem mig hefur dauðlangað að tileinka mér en aldrei tekið almennilega ákvörðun um að virkilega reyna að gera:

image_6483441 (3).jpg

Það er sagt að það taki allt frá tveimur vikum til tvo mánuði að mynda nýjar venjur. Eins og sá tími virðist oft líða löturhægt þegar maður einbeitir sér að því að breyta venjum sínum til hins betra, þá flýgur tíminn þegar kemur að því að mynda sér "ósiði" eða minna heilbrigðar venjur. Dæmi um það er þegar ég byrja að hreyfa mig. Eftir að hafa mætt í ræktina í fjóra daga í röð finnst mér ég hafa svitnað og púlað mánuðum saman, en svo tek ég varla eftir því þegar ég hef verið í sömu kósýbuxunum næstu fjóra daga límd við sófann. 

Þegar við fluttum til Svíþjóðar þótti mér erfitt hvað ég var mikið ein. Ég þekkti mjög fáa og var oft einmana. Það var þó fljótt að venjast, og svo hætti einveran að vera mér erfið og fór að vera þægileg.  Fyrr en varði var hún orðin það sem ég þekkti best. Ég vandist því líka hratt að þurfa lítið að fara út úr húsi svo kósýgallinn varð ákveðinn einkennisklæðnaður sem gerði það að verkum að oft varð mér lítið úr verki yfir daginn. Ég hef nefnilega komist að því að þegar ég klæði mig eins og ég sé á leið í vinnuna þá líður mér eins og ég sé í vinnunni og er minna líkleg til þess að sitja á sófanum og horfa á Youtube í marga klukkutíma. 

IMG_9671.jpg

Næsta árið mun ég ekki einungis einbeita mér að daglegum venjum heldur einnig stærri hlutum og markmiðum. ég ætla að gera fjóra lista; 

  • Það sem ég vil hafa áorkað að ári liðnu
  • Það sem ég vil áorka yfir vikuna
  • Það sem ég vil gera daglega
  • Það sem ég ætla að gera í dag

Listarnir munu líklega breytast eitthvað þegar líður á árið en ég mun leyfa ykkur að fylgjast með því. 

 

Það sem ég vil hafa áorkað að ári liðnu

  • Ég ætla að vera komin langt með að vinna úr erfiðum minningum og lífsreynslum sem hafa fylgt mér til dagsins í dag og haft hamlandi áhrif á mig
  • Ég ætla að vera farin að tala reiprennandi sænsku 
  • Ég ætla að vera orðin örugg með að tala við ókunnuga án þess að finnast ég þurfa að biðjast afsökunar á því hver ég er og hvernig ég er
  • Ég ætla að vera búin að ná mun betri líkamlegri heilsu og muna að þó ég sé með vanvirkan skjaldkirtil er ég ekki fórnarlamb sjúkdómsins
  • Ég ætla að vera búin að kaupa mér nýja Canon vél því mín er eldgömul og lúin
  • Ég ætla, ásamt Júlíu, að vera búin að gera handrit að matreiðslubók! 
  • Ég ætla að læra að elska sjálfa mig og vera í kjölfarið betur fær um að sýna fólkinu í kringum mig ást og umhyggju
  • Ég ætla fyrst og fremst að vera ég sjálf og muna alla daga að þó ég eigi slæman dag sé engin ástæða til að brjóta mig niður eða finnast mér vera að mistakast

Það sem ég vil áorka vikulega

  • Blogga í hverri viku - Birta bæði uppskriftarfærslu og vikulegar færslur um þessa áskorun
  • Hringja í ömmu í hverri viku
  • Hringja í systkini mín í hverri viku
  • Mæta á kóræfingar
  • Versla vel inn eftir skipulagi til að eiga nóg af næringarríkum mat yfir vikuna
  • Elda nýja uppskrift í hverri viku
  • Skrifa að minnsta kosti eitt ljóð í hverri viku
  • Fara á kaffihúsadeit með sjálfri mér einu sinni í viku með tölvuna mína og skrifa

Það sem ég vil gera daglega

  • Vakna fyrir klukkan 9 alla daga
  • Hugleiða í allavega 10 mínútur (mér líður svo miklu betur þegar ég geri það)
  • Fara eitthvað út úr húsi daglega, þrátt fyrir að hafa ekkert sérstakt erindi
  • Hreyfa mig eitthvað daglega, hvort sem það er að fara í göngutúr eða í ræktina
  • Pósta mynd á Instagram á hverjum degi
  • Klæða mig eins og ég sé á leið í vinnuna þó ég sé bara að fara að vinna heima 
  • Gefa mér hálftíma á hverju kvöldi áður en ég fer að sofa þar sem ég kíki ekkert á símann
  • Þvo á mér andlitið á hverjum degi
  • Skrifa daglega punkta og hugleiðingar um hvernig mér gengur að breyta lífi mínu - vera hreinskilin
  • Hafa hreint og fínt þegar ég fer að sofa á kvöldin
  • Vaska upp strax eftir kvöldmatinn svo ekkert uppvask sé þegar ég vakna daginn eftir
  • Muna að taka skjaldkirtilslyfin mín á hverjum degi

Það sem ég ætla að gera í dag (14. mars 2018)

  • Vera farin á fætur klukkan 9
  • Fara í eins kalda sturtu og ég þoli (treystið mér, manni líður svo vel eftir á)
  • Klára að skrifa þessa færslu og koma henni í loftið
  • Pósta mynd á Instagram
  • Fara á sóprana kóræfingu
  • Elda kvöldmat handa okkur Sigga
  • Ryksuga íbúðina og þurrka af
  • Þvo á mér andlitið í lok dagsins
IMG_9698-2.jpg

Ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með, en fyrst og fremst er ég að gera þetta fyrir sjálfa mig. Tilhugsunin um að birta þessa færslu hræðir mig örlítið því um leið og hún er komin í loftið er ekki aftur snúið. Hinsvegar er það mögnuð tilfinning að vita að frá og með þessarri stundu muni allt breytast. Ég er ekki að búast við því að lífið verði allt í einu dans á rósum og ég skælbrosandi alla daga, en ég veit fyrir víst að ég mun í fyrsta skipti leggja mig alla fram við að búa mér til það líf sem ég vil lifa og það er mögnuð tilfinning. Ef mér mistekst hryllilega get ég í fyrsta sinn sagt að ég hafi allavega reynt mitt besta. 

Helga María 

Vikumatseðill 5. - 10.mars

IMG_2306.jpg

Vikumatseðill 5.mars til 10.mars

Mánudagur:
Hnetusmjörsnúðlur með tofu.

Þriðjudagur:
Grjónagrautur með haframjólk, kanilsykri og góðu brauði með vegan osti

Miðvikudagur:
Mexíkógrýta með kartöflumús og Oatly sýrðum rjóma

Fimmtudagur:
Linsurbaunadahl, steikt tofu, hrísgrjón og salat.

Föstudagur:
Oumph borgari með chilli mæjó og kartöflubátum.

Laugardagur:
Rjómapasta með Oumph! og sveppum og "heimagert" hvítlauksbrauð.

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vegan stroganoff - Veganoff

IMG_9530.jpg

Hvað er stroganoff? 

Stroganoff er upprunalega rússneskur réttur og inniheldur nautakjötsbita sem látnir eru malla í brúnni sósu úr sýrðum rjóma og bornir fram með pasta eða hrísgrjónum. Rétturinn hefur breyst mikið í gegnum tíðina en í dag eru yfirleitt sveppir og laukur í sósunni ásamt dijon sinnepi og einhverskonar súpukrafti. Mig hefur lengi langað að gera vegan útgáfu af þessum rétti en ég smakkaði hann fyrir mörgum árum í Lettlandi og þótti ekkert smá góður. Ég lét loksins verða að því um daginn og útkoman varð æðisleg. 

IMG_9451.jpg

Ég átti til poka af Oumph! í frystinum og afgangs rauðvín svo ég sló til og sé sko ekki eftir því. Ég bið ykkur að taka því ekki illa þótt uppskriftin sé að einhverju leyti ólík hefðbundinni stroganoff uppskrift, en þrátt fyrir að hún sé ekki alveg eins þá er bragðið ekkert síðra. 

IMG_9465.jpg

Ég ætlaði að hafa kóríander í uppskriftinni en þar sem kærastinn minn getur ekki fyrir sitt litla líf borðað ferskt kóríander ákvað ég að setja það frekar út á diskinn og það kom gríðarlega vel út. Ég held það sé sniðugt að gera það bara nema maður sé viss um að allir sem eru í mat borði kóríander. 

Ég ákvað að bera réttinn fram með hrísgrjónum og útbjó túrmerík-grjón. Þau eru einfaldlega gerð með því að hella örlitlu túrmeríkkryddi út í pottinn meðan grjónin eru að sjóða. Bæði verða þau falleg á litinn og kryddið gefur gott bragð. Þó er mikilvægt að setja ekki of mikið heldur strá örlitlu þannig grjónin verði fallega gul. 

IMG_9515.jpg

Hráefni:

  • 1 poki Oumph! the chunk (Ég notaði filet sem er nákvæmlega eins nema bara stærra, því ég fann ekki the chunk úti í búð)

  • 1 askja sveppir (250g)

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 msk dijon sinnep

  • 2 tsk tómatpúrra

  • 2,5 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 dl vatn

  • 1/2 dl vegan rauðvín

  • 1 sveppateningur

  • 1/2 msk dökk sojasósa

  • safi úr ca 1/4 sítrónu

  • salt og pipar

  • Kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið Oumphið úr frystinum og leyfið því að þiðna í svona 20 mínútur áður en það er matreitt

  2. Saxið niður laukinn og hvítlaukinn og skerið sveppina niður. Ég hef sveppina í svolítið stærri bitum fyrir þennan rétt. Steikið á pönnu upp úr olíu þar til laukurinn fær gylltan lit og sveppirnir hafa mýkst vel.

  3. Skerið Oumphið niður í munnbita. Mér finnst gott að gera það svo ég fái aðeins meira úr pakkanum því sumir bitarnir geta verið svolítið stórir. Þið sjáið á myndunum að ofan hversu stórir bitarnir voru hjá mér. Bætið Oumphinu út á pönnuna ásamt tómatpúrrunni og dijon sinnepinu og steikið í nokkrar mínútur

  4. Hellið rauðvíninu út á pönnuna og hækkið hitann á sama tíma í nokkrar mínútur á meðan

  5. Lækkið hitann aftur niður í miðlungs og bætið rjómanum, sýrða rjómanum, vatninu, sveppakraftinum og sojasósunni út á pönnuna. Leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur

  6. Smakkið til með salti og pipar og kreistið sítrónusafann yfir áður en þið berið matinn fram.

Berið fram með grjónum eða pasta. Hérna er uppskrift af fljótlegu hvítlauksbrauði sem er einstaklega gott að bera fram með. 

Veganistur

Vikumatseðill 12.feb - 17.feb

IMG_6705.jpg

Vikumatseðill 12.feb til 17.feb

Mánudagur:
Halsans Kök kjötbollur með piparsósu og kartöflumús

Þriðjudagur:
SaltOumph! og baunasúpa

Miðvikudagur:
Tandori sætkartöflu og svartbaunapottréttur, hrísgrjón, Oatly sýrður rjómi og salat

Fimmtudagur:
Kalt pastasalat með fersku grænmeti og sólþurkuðum tómötum

Föstudagur:
Föstudagspizza

Laugardagur:
Sveppasúpa og heimagert brauð

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vefjur með falafel, hummus og chili-mæjó

IMG_9277-2.jpg
IMG_9227-2.jpg

Nú er janúar að líða undir lok sem þýðir að Veganúar fer að klárast. Okkur hefur þótt virkilega gaman að sjá hversu margir eru að taka þátt í ár og við hvetjum að sjálfsögðu alla til að halda áfram. Eins þætti okkur gaman að heyra hvernig ykkur hefur gengið í Veganúar og hvaða matur ykkur hefur þótt standa fram úr. 

IMG_9252-2.jpg
IMG_9260.jpg

Þessi færsla er sú síðasta í samstarfi okkar við Krónuna í Veganúar en okkur fannst tilvalið að enda á falafel vefjum sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Falafel eru bollur gerðar úr kjúlingabaunum og allskyns kryddum. Bollurnar eiga uppruna sinn að rekja til Egyptalands og eru yfirleitt borðaðar í pítubrauði eða vefjum. Okkur þykir best að borða falafel í vefju, með hummus, grænmeti og sterkri sósu. 

IMG_9275-3.jpg
IMG_9287.jpg

Hér er listinn yfir hráefnin. Það er svolítið erfitt að lista niður hlutföll því það er misjafnt hvað fólk vill setja mikið í vefjurnar sínar og hvort fólk borðar fleiri en eina vefju. 

  • Vefjur - Við mælum með þeim frá Planet Deli og Banderos

  • Falafelbollur frá Hälsans Kök - Pakkinn er 300g og miðast við þrjá fullorðna

  • Hummus frá Tribe 

  • Salat að eigin vali

  • Rauðlaukur (má sleppa)

  • Kirsuberjatómatar (má sleppa)

  • Sriracha mæjó frá Flying goose

  1.  Eldið falafelbollurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Það er bæði hægt að steikja þær á pönnu eða í bakaraofni og við mælum með því síðarnefnda. 

  2. Hitið vefjurnar í nokkrar sekúndur í ofninum eða í örbylgjuofni

  3. Smyrjið vefjuna með hummus, raðið falafelbollunum og því grænmeti sem ykkur lystir ofan á og endið svo á sriracha mæjóinu. Það er virkilega bragðgott en heldur sterkt svo við mælum með að setja ekki of mikið til að byrja með. 

  4. Rúllið vefjurnar upp og njótið!

Veganistur

 

krónan.png

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Vikumatseðill 29.jan - 3.feb

IMG_9275-3.jpg

Vikumatseðill 29.jan til 3.feb

Mánudagur:
Lasanga með hvítlauksbrauði og salati

Þriðjudagur:
Kókos-karrý súpa með góðu brauði

Miðvikudagur:
Arabískt kúskús salat með fersku grænmeti og döðlum. 

Fimmtudagur:
Falafelvefjur með hummus og grænmeti

Föstudagur:
Nachos með blómkálshakki, svörtum baunum, kasjúostasósu, salsa, guacamole og fersku grænmeti

Laugardagur:
Mac and cheese með glútenlausu pasta og steiktu brokkolí

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg