Vegan íspinnar með Pólókexi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að virkilega einföldum og góðum vegan íspinnum hjúpuðum með súkkulaði og kókosmjöli. Þetta er hið fullkomna sumartrít og við mælum með því að eiga alltaf nokkra til í frystinum. Þessir dásamlegu íspinnar munu ekki valda ykkur vonbrigðum. Þeir eru ótrúlega rjómakenndir og góðir og hverfa fljótt ofan í maga.

Færsla dagsins er í samstarfi við Frón og Pólókexið frá þeim gegnir lykilhlutverki í íspinnunum. Kexið er nefnilega mulið ofan í ísblönduna sem gefur bæði gómsætt kókosbragð og stökkir kexbitarnir passa svo vel við rjómakenndan ísinn. Við erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með Fróni því Pólókex hefur verið mikilvægur partur af fæðuhring okkrar systra í mörg ár.

Ísblönduna settum við í íspinnaform. Uppskriftin gerði um 6-8 íspinna. Ef þið eigið ekki svoleiðis form er ekkert mál að setja alla blönduna í eitt stórt form. Íspinnaformin keyptum við í Allt í köku.

vegan-ispinnar-med-polokexi-

Að lokum eru pinnarnir húðaðir með súkkulaði og kókosmjöli. Algjört NAMMI. Þessir heimagerðu íspinnar toppa alla íspinna keypta út í búð að okkar mati. Við mælum mikið með því að þið prófið.

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum innilega að ykkur líki uppskriftin vel.

Vegan íspinnar með Pólókexi

Vegan íspinnar með Pólókexi
Fyrir: 6-8
Höfundur: Veganistur
Gómsætir og einfaldir vegan íspinnar hjúpaðir með súkkulaði og kókosmjöli. Þetta er hið fullkomna sumartrít og við mælum með því að eiga alltaf nokkra til í frystinum. Þessir dásamlegu íspinnar munu ekki valda ykkur vonbrigðum. Þeir eru ótrúlega rjómakenndir og góðir og hverfa fljótt ofan í maga.

Hráefni:

  • 1/2 ferna vegan þeytirjómi
  • 1/2 ferna vegan vanillusósa
  • 3/4 dl sykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 80 gr Pólókex
  • Suðusúkkulaði og kókosmjöl að hjúpa með (má sleppa)

Aðferð:

  1. Þeytið saman rjóma og vanillusósu.
  2. Bætið sykri og vanilludropum saman við og þeytið svo það blandist vel saman.
  3. Myljið Pólókex í ziplock poka með kökukefli gróft og blandið saman við með sleikju.
  4. Frystið í ísskpinnaformum eða stóru formi helst yfir nótt, eða allavega í 8 klukkutíma.
  5. Bræðið suðusúkkulaði og hjúpið íspinnana með því og stráið kókosmjöli yfir.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Vegan smjördeigspylsuhorn

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan smjördeigspylsuhorn. Þetta er að okkar mati hinn fullkomni pinnamatur í partýið og veisluna, forréttur í matarboðið eða partur af helgarbrunch. Hornin eru líka tilvalin sem nesti í ferðalagið!

Þetta er einn af þessum skemmtilegu partýréttum sem tekur enga stund að útbúa en kemur virkilega á óvart. Smjördeigi er einfaldlega vafið utan um vegan pylsur, penslað með plöntumjólk, toppað með everything bagel kryddi og bakað í ofninum. Okkur finnst gott að bera hornin fram með tómatsósu.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma og við notuðum að sjálfsögðu pylsurnar frá þeim í bitana. Við höfum elskað vörurnar frá Anamma í mörg ár og erum virkilega stoltar að fá að vinna með þeim.

Við elskum að gera góða partýrétti og smárétti og hér á blogginu er fjöldinn allur af góðgæti sem hægt er að gera fyrir slík tilefni. Þessi pylsuhorn eru einstaklega skemmtileg vegna þess að þau passa bæði í fullorðinspartý og barnaafmæli. Við mælum virkilega með.

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin!

Vegan smjördeigspylsuhorn

Vegan smjördeigspylsuhorn
Höfundur: Veganistur
Gómsæt vegan smjördeigspylsuhorn, sem eru að okkar mati hinn fullkomni pinnamatur í partýið og veisluna, forréttur í matarboðið eða partur af helgarbrunch. Hornin eru líka tilvalin sem nesti í ferðalagið!

Hráefni:

  • Vegan pylsur frá Anamma
  • Vegan smjördeig, við notuðum kallt upprúllað smjördeig, en það er auðvitað hægt að kaupa frosið og láta það þiðna.
  • Plöntumjólk
  • Everything bagel krydd, eða gróft salt og sesamfræ

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 210°c.
  2. Leyfið pylsunum að þiðna svo hægt sé að skera þær. Skerið hverja pylsu í tvennt.
  3. Skerið smjördeigið niður svo hægt sé að rúlla hverjum pylsubita í deigið svo að það séu tvö lög af smjördeigi utan um hvern bita.
  4. Penslið með plöntumjólk og stráið "everything bagel" kryddi yfir.
  5. Bakið í 12-14 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Þessi færsla er gerð í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Vegan samlokur með snitseli og hrásalati

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að djúsí samlokum með vegan snitseli og hrásalati með eplum og parmesanosti. Samlokur sem hitta beint í mark og er auðvelt að útbúa. Þær eru mettandi og henta því fullkomlega í hádegismat eða kvöldmat.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði snitselið frá þeim í samlokurnar. Ég elska að eiga snitsel til í frystinum og geta skellt því á pönnu, í ofninn eða airfryerinn og bera fram með góðu meðlæti. Í þetta sinn var ég í stuði fyrir góða samloku. Ég keypti nýbökuð chiabattabrauð og útbjó dásamlegt hrásalat með skemmtilegum snúning þar sem ég setti í það epli og rifinn parmesanost. Virkilega gott!

Ég steikti snitselið á pönnu upp úr miklu vegan smjöri. Eins og ég sagði hér að ofan er ekkert mál að setja það í ofninn eða air fryer.

Ég vissi að ég vildi gera hrásalat en mig langaði að bæta einhverju skemmtilegu við. Ég ákvað að setja epli fyrir ferskleikann og vegan parmesanost. Það varð virkilega gott. Ég geri alltaf frekar stóran skammt af hrásalati til að eiga afgang því mér finnst hrásalat gott með nánast öllu.

Ég notaði chiabattabrauð fyrir samlokurnar í þetta sinn en það er líka gott að nota annað brauð t.d. baguettebrauð eða hamborgarabrauð. Ég get líka ímyndað mér að það sé gott að setja smá buffalosósu á snitselið fyrir ykkur sem ekki eruð viðkvæm fyrir sterkum mat.

Ég mæli mikið með því að prófa að gera þessa gómsætu snitsel samloku. Okkur þykir alltaf jafn hentugt að gera samlokur og erum með nokkrar súper góðar hérna á blogginu, t.d. þessar:

Samloka með pestó, vegan kjötbollum og ostasósu

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú, piparmajónesi og bjórsteiktum lauk

Grillaðar samlokur með vegan kjúkligasalati

Takk fyrir að lesa og ég vona að þú njótir!

Helga María <3

Samlokur fyrir 2-4 (fer eftir því hversu svöng þið eruð)

Samlokur fyrir 2-4 (fer eftir því hversu svöng þið eruð)
Fyrir: 2-4
Höfundur: Helga María
Hér er uppskrift að djúsí samlokum með vegan snitseli og hrásalati með eplum og parmesanosti. Samlokur sem hitta beint í mark og er auðvelt að útbúa. Þær eru mettandi og henta því fullkomlega í hádegismat eða kvöldmat.

Hráefni:

  • Brauð sem ykkur þykir gott
  • 1 pakki snitsel frá Anamma (í honum eru 4 stykki)
  • Salat
  • 1 dl Vegan majónes
  • 1/2-1 dl vegan sýrður rjómi
  • 250 gr þunnt skorið hvítkál
  • 1 meðalstór rifin gulrót (ég keypti poka sem var að renna út af hvítkáli og rifnum gulrótum til að gera hrásalat. Pokinn var sirka 270 gr)
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 lítið epli
  • 1 dl rifinn vegan parmesanostur
  • 1/2 tsk dijonsinnep
  • salt og smá sykur
  • svartur pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat með því að blanda saman í skál þunnt skornu hvítkáli, rifnum gulrótum, þunnt skornum rauðlauk, þunnt skornu epli, majónesi, sýrðum rjóma, rifnum parmesanosti, dijonsinnepi, salti, sykri og svörtum pipar.
  2. Hitið vegan smjör eða olíu á pönnu og steikið snitselin þar til þau hafa fengið góðan lit og eru elduð í gegn. Vegan snitsel þarf ekki að þíða áður en það er steikt heldur er það tekið beint úr frystinum og steikt.
  3. Ristið brauðið á pönnu, eða í ofni.
  4. Smyrjið smá vegan majónesi á botninn, bætið káli eða salati yfir, þar næst snitselinu og toppið svo með hrásalati og ferskum jurtum ef þið eigið til. Ath að á myndunum er ég með tvö snitsel á hverri samloku. Það var mest fyrir "lúkkið" á myndunum en ég myndi frekar hafa eitt á hverri samloku.
  5. Njótið í botn!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega sumarlegu pastasalati. Þetta salat er virkilega bragðmikið og hentar fullkomlega á sumardegi, hvort sem það er í hádeginu, kvöldmat eða sem millimál. Salatið geymist einnig vel í kæli og er því tilvalið að eiga það til að grípa með sér.

Í salatinu eru alls konar hráefni sem saman gera það einstaklega bragðgott. Ég ákvað að nota stökka bacon bita en þeir eru bragðmiklir og innihalda vel af próteini. Síðan setti ég fetaost til að fá smá “creamy” áferð og milt bragð á móti beikon bitunum. Ferskjurnar bæta síðan við sætu og toppaði ég það síðan með ótrúlega bragðgóðri salat dressingu frá hagkaup sem er slgjört must.

Ég elska svona rétti sem hægt er að gera mikið af í einu og eiga afgang í nesti daginn eftir en þetta salat er einnig alveg fullkomið til að eiga í ísskápnum til að grípa í. Það geymist mjög vel og er gott í tvo daga í ísskáp eftir að það er búið til. Þetta er hinn fullkomni sumarréttur sem tekur enga stund að græja.

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu
Fyrir: 4
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 12 Hour: 22 Hour
Virkilega sumarlegt og einfalt pastasalat með stökkum "beikon" bitum, ferskjum, vegan fetaosti, fersku grænmeti og hvítlauks vinagrette dressingu.

Hráefni:

  • 300 gr pastaslaufur
  • 150 gr vegan bac*n bits frá oumph
  • sirka 15 gr af vegan smjöri
  • 1 pakki vaxa salatblanda
  • 1 lítill kassi kirsuberjatómatar
  • 1/3 gúrka
  • 1/3 violife fetaosta kubbur
  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 þroskaðar ferskjur
  • 1 flaska hvítlauks vinagrette dressing frá stonewall kitchen

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningunum á pakkningunum. Kælið pastað vel með köldu vatni þegar það er alveg soðið.
  2. Steikið bac*n bitana upp úr vegan smjöri þar til þeir verða smá stökkir. Setjið til hliðar.
  3. Saxið salatið niður. Skerið gúrkuna, ferskjurnar og fetaostin í kubba. Skerið tómatana og tvennt og saxið rauðlaukinn í mjög þunnar sneiðar.
  4. Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið. Hellið sósunni yfir og hrærið vel saman við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin þar -

 
 

Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði

- Samstarf -

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að rjómakenndum vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði. Hinn fullkomni eftirréttur að okkar mati og einmitt það sem ég myndi bjóða upp á í matarboðinu yfir sumartímann. Þessi ís sannar að heimagerður ís er alveg jafn rjómakenndur og góður þó hann sé laus við mjólk og egg.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í ísinn notaði ég gómsæta jarðarberja- og rabarbaramarmelaðið frá þeim. St. Dalfour marmelaðin innihalda engan hvítan sykur og eru því ekki jafn dísæt og mörg önnur marmelaði eða sultur. Marmelaðið gefur ísnum því ferskleika sem passar fullkomlega með rjómakenndum ísnum.

Ísinn sjálfur er gerður úr þeyttum hafrarjóma, heimagerðri eða keyptri sætri niðursoðinni mjólk (e. condensed milk), vanilludufti og rjómaostablöndu. Svo er Digestive kexi og marmelaðinu bætt út í. Það er ótrúlega einfalt að útbúa ísinn en mesta vinnan er að sjóða niður mjólkina í svona hálftíma og láta hana svo standa í nokkra klukkutíma í ísskápnum. Þó það taki smá tíma er það alls ekki flókið. Svo má að sjálfsögðu kaupa hana tilbúna.

Ísinn sjálfur þarf svo nokkra klukkutíma í frystinum. Ísinn tekur því smá stund að útbúa en alls ekki mikla vinnu! Ég get lofað ykkur að sá tími er algjörlega þess virði. Útkoman er gómsætur mjólkurlaus og eggjalaus ís sem svíkur engann.

Á blogginu okkar finnurðu allskonar eftirréttaruppskriftir. Hér eru nokkrar:

Sítrónuostakaka

Kókos- og súkkulaðimús með Pólókexi

Hátíðlegur ís með saltkaramellu

Sjáið bara þessa fegurð. Ég elska ís sem er rjómakendur en inniheldur ferskleika og einhverskonar “kröns”. Af því þetta er ostakökuís braut ég niður digestivekex í ísinn sem var frábær hugmynd því kexið gefur bæði stökkleikann og smá salt. það er að sjálfsögðu hægt að gera sömu grunnuppskrift af ísnum en skipta út bragðinu, en ég mæli mjög mikið með því að prófa að þessa uppskrift.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin.

-Helga María

Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði

Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að rjómakenndum vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði. Hinn fullkomni eftirréttur að okkar mati og einmitt það sem ég myndi bjóða upp á í matarboðinu yfir sumartímann. Þessi ís sannar að heimagerður ís er alveg jafn rjómakenndur og góður þó hann sé laus við mjólk og egg.

Hráefni:

Ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði:
  • 1 ferna vegan þeytirjómi (ég notaði Oatly sem er 250 ml)
  • ca 400 ml sæt niðursoðin mjólk (það er akkúrat magnið sem uppskriftin hér að neðan gefur)
  • 150 gr vegan rjómaostur
  • 1/2 dl sykur
  • 2 tsk sítrónusafi
  • salt á hnífsoddi
  • smá vanilluduft (má skipta út fyrir vanilludropa)
  • 1 krukka jarðarberja- og rabarbaramarmelaði frá St. Daflour
  • Digestive kex eftir smekk (ég notaði sirka 4-5 stykki)
Sæt niðursoðin mjólk:
  • 2 fernur vegan þeytirjómi (ég notaði Oatly og hef ekki prófað að gera þetta með annarri tegund. Hef prófað með þykkri kókosmjólk og það virkaði líka).
  • 2,5 dl sykur

Aðferð:

Ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði:
  1. Þeytið rjóma og setjið í stóra skál.
  2. Þeytið saman rjómaost, sykur, sítrónusafa og pínulítið salt og bætið út í skálina ásamt sætu niðursoðnu mjólkinni og vanilludufti.
  3. Hrærið varlega saman með sleikju þar til allt er vel blandað saman.
  4. Setjið hluta af ísnum í brauðform, kökuform eða eldfast mót. Brjótið kex ofan á og setjið marmelaði ofan á líka og hrærið létt saman við. Þarf alls ekki að blandast mjög vel við.
  5. Bætið meiri ís yfir og svo aðeins af kexi og marmelaði og koll af kolli þar til þið eruð búin að setja allan ísinn í.
  6. Látið sitja í frystinum í minnst 3 tíma eða þar til ísinn hefur sett sig.
Sæt niðursoðin mjólk:
  1. Setjið þeytirjóma og sykur í pott og látið malla á meðal lágum hita í 30 mínútur á meðan þið hrærið reglulega svo hann brenni ekki við botninn.
  2. Hellið í krukku og setjið í ísskáp helst yfir nótt svo mjólkin nái að þykkna. Hún mun vera frekar þunn þegar hún er heit en þykknar töluvert í ísskápnum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 

Gómsæt vegan pokeskál með marineruðu tófú

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætri vegan pokeskál með sushihrísgrjónum, maríneruðu tófú, fersku mangó, litríku grænmeti og srirachamajónesi. Máltíð sem er tiltölulega auðvelt að útbúa og smakkast eins og á veitingastað. Viltu ganga í augun á vinum og fjölskyldu? Þá er þessi pokeskál fullkomin að elda!

Pokeskál hefur lengi verið einn af mínum uppáhalds réttum að panta mér þegar ég fer út að borða, en eftir að ég prófaði að gera hana sjálf hef ég mun heldur valið að útbúa hana heima. Með því er hægt að útfæra skálina algjörlega eftir eigin höfði og svo er gaman að bjóða uppá hana í matarboðinu, skera niður allskonar grænmeti og leyfa fólki að útbúa sínar eigin.

Bæði sushihrísgrjónin og tófúið gegna lykilhlutverki í pokeskálinni. Ég var lengi hrædd við að útbúa sushihrísgrjón heima því mér fannst það hljóma eins og það væri svaka vesen. Ég get þó sagt að það er alls ekki erfitt. Það má auðvitað gera pokeskál með annarri tegund af hrísgrjónum, en það er að mínu mati ekki eins gott og gefur ekki þessa sushi tilfinningu.

Tófuið er svo próteinið í réttinum og gefur seltu og umame. Ég lét það marínerast í sojasósu, sesamolíu, hrísgrjónaediki, agavesírópi og srirachasósu. Svo bætti ég sesamfræjum við og bakaði tófúið í ofni þar til það varð stökkt að utan.

Pokeskálina toppaði ég svo með tófúinu og allskonar fersku og góðu grænmeti. Þarna er hægt að fara alveg eftir eigin höfði. Ég valdi ferskt mangó, gúrku, lárperu, pikklaðan rauðlauk og kóríander. Að lokum hrærði ég svo saman majónesi og srirachasósu og setti út á ásamt smá limesafa. Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta smakkaðist eins og á veitingastað.

Viltu bjóða upp á gómsæta pokeskál í matarboðinu og vantar hugmynd að góðum eftirrétti? Þá mælum við með þessari geggjuðu sítrónuostaköku!

Eins og ég sagði er hægt að fara alveg eftir eigin höfði og smekk þegar verið er að setja saman pokeskál. Ég geri þær í raun aldrei alveg eins. Hér eru t.d. nokkrar hugmyndir að öðru grænmeti sem er gott í skálina:

Radísur
Edamame baunir
Rifnar gulrætur
Rifið hvítkál eða rauðkál
Nori eða annar þari
Vorlaukur

Það er endalaust hægt að leika sér og prófa sig áfram!

Takk fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin.

Helga María! <3

Gómsæt vegan pokeskál

Gómsæt vegan pokeskál
Fyrir: 4
Höfundur: Helga María
Gómsæt vegan pokeskál með sushihrísgrjónum, maríneruðu tófú, fersku mangó, litríku grænmeti og srirachamajónesi. Máltíð sem er tiltölulega auðvelt að útbúa og smakkast eins og á veitingastað. Viltu ganga í augun á vinum og fjölskyldu? Þá er þessi pokeskál fullkomin að elda!

Hráefni:

sushihrísgrjón
  • 500 gr sushihrísgrjón
  • 800 ml vatn
  • 2 msk hrísgrjónaedik
  • 1 msk sykur
  • 1 tsk salt
Marínerað ofnabakað tófú
  • 1 kubbur tófú (400-500 gr)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 "þumall" engiefer
  • 3 msk sojasósa
  • 3 msk hrísgrjónaedik
  • 2 msk sesamolía
  • 2 tsk agavesíróp
  • 1/2-1 msk sriracha (fer eftir smekk)
  • 1 msk sesamfræ
Pikklaður rauðlaukur:
  • 2 meðalstórir eða 3 litlir rauðlaukar
  • 3 dl vatn
  • 2 dl sykur
  • 1 dl edik
  • 1 tsk salt
  • piparkorn (má sleppa)
Pokeskálar fyrir fjóra:
  • Soðin sushihrísgrjón
  • Ofnbakað tófú
  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði gúrku, pikklaðan rauðlauk, mangó, lárperu, og limesafa)
  • Sesamfræ að toppa með
  • Vegan majónes + srirachasósa blandað saman

Aðferð:

Sushihrísgrjón:
  1. Hreinsið grjónin vel undir köldu vatni.
  2. Setjið þau í skál og hellið köldu vatni yfir og látið standa í 20 mínútur.
  3. Hellið vatninu af, setjið grónin í pott og bætið hreinu vatni saman við.
  4. Setjið lok yfir og látið ná suðu, lækkið þá hitann og látið grjónin malla á lágum hita í 10 mínútur með lok yfir, eða þar til ekkert vatn er í pottinum lengur.
  5. Slökkvið undir, takið pottinn af hellunni og látið standa í 10 minútur með lokið á.
  6. Hrærið saman hrísgrjónaediki, sykri og salti.
  7. Hellið yfir grjónin og blandið með velta grjónunum varlega til og frá með hrísgrjónaskeið eða trésleif. Passið samt að vera ekki harðhent svo þau klessist ekki saman.
Marínerað ofnbakað tófú
  1. Látið vökvann renna af tófúinu, vefjið því inn í viskastykki og leggið pönnu eða eitthvað svolítið þungt yfir og leyfið því að pressast í svolítinn tíma.
  2. Blandið saman blautu hráefnunum í stóra skál.
  3. Rífið niður engifer og hvítlauk í skálina.
  4. Skerið tófúið í bita og setjið í maríneringuna í a.m.k. 1 klukkustund.
  5. Hitið ofninn í 200°c
  6. Hellið tófúinu í eldfast mót og bakið í sirka 20-30 minútur eða þar til það er orðið svolitið stökkt að utan og hefur tekið á sig lit.
Pikklaður rauðlaukur:
  1. Skerið laukinn niður í þunna strimla. Ekki saxa hann. Ég sker hann í tvennt og svo í strimla.
  2. Blandið sykri, vatni og ediki saman í pott og látið hitna þannig að sykurinn leysist upp.
  3. Setjið laukinn í hreina krukku og hellið vökvanum yfir.
  4. Látið standa í klukkustund.
  5. Laukurinn geymist í allt að 2 vikur í ísskáp.
Pokeskálar:
  1. Sjóðið grjónin.
  2. Bakið tófúið.
  3. Útbúið rauðlaukinn ef þið viljið hafa hann.
  4. Skerið niður það grænmeti sem þið viljið hafa.
  5. Blandið saman majónesi og srirachasósu.
  6. Setjið saman skálarnar.
  7. NJÓTIÐ!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin í hana þar-

 
 

Sítrónuostakaka

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega gómsætri og sumarlegri sítrónuostaköku sem slær svo sannarlega í gegn. Kakan hefur virkilega gott sítrónubragð en er á sama tíma mátulega sæt og ekkert smá loftkennd og mjúk. Þessa ostaköku er hinn fullkomni eftirréttur, til dæmis eftir grillmat en hún hentar einnig fullkomlega á veisluborðið eða bara með kaffinu.

Það sem er best við þessa uppskrift er að það þarf ekki að frysta kökuna og best er að útbúa hana í fati eða öðru fallegu móti sem hægt er að bera hana fram í. Það er virkilega einfalt að útbúa kökuna og hana má bera fram samdægurs.

Kakan er svo fallega gul og því er auðvelt að skreyta hana smá til að hún verði mjög falleg á borði og gerir liturinn hana ekkert smá sumarlega. Ég notaði einungis sítrónu sneiðar og smá mynntu til að skreyta mína og kom það mjög fallega út.

Sumarleg sítrónuostakaka

Sumarleg sítrónuostakaka
Höfundur: Veganistur
Sumarleg sítrónuostakaka sem er virkilega gómsæt. Þessi kaka er fullkomin eftirréttur eftir grillmatinn eða bara með kaffinu hvenær sem er. Kökuna er hægt að útbúa sama dag og á að bera hana fram

Hráefni:

Kexbotn
  • 200 gr digestive hafrakex
  • 70 gr bráðið vegan smjör eða smjörlíki
Ostakökufylling
  • 250 ml (1 ferna) oatly þeytirjómi
  • 2 öskjur oatly rjómaostur
  • 1 dl flórsykur
  • börkur af 1 sítrónu
  • safi úr 1/2 sítrónu
Sítrónugljái
  • 1 dl mjólk
  • safi úr 3 sítrónum
  • börkur af 1 sítrónu
  • 1 dl flórsykur
  • 2 msk hveiti

Aðferð:

Kexbotn
  1. Setjið kexið í matvinnsluvél eða blandara og myljið niður
  2. Bræðið smjörið og hellið út í og blandið aðeins saman
  3. Setjið í botnin á fati eða kökuformi og þrýstið niður í botninn
  4. Geymið í kæli á meðan þið útbúið fyllinguna
Ostakökufylling
  1. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til hann verður stífþeyttur
  2. Bætið rjómaostinum, flórsykrinum, sítrónusafanum og sítrónuberkinum út í og þeytið aðeins lengur
  3. Hellið yfir kexbotnin of dreifið jafnt yfir formið
  4. Setjið í kæli á meðan þið útbúið sítrónugljáan
  1. Hristið saman mjólkina og hveitið þannig það verði ekki kekkjótt.
  2. Setjið öll hráefnin saman í pott og hitið að suðu
  3. Sjóðið í nokkrar mínútur eða þar til það þykknar örlítið
  4. Setjið í breiða, grunna skál og leyfið gljáanum að kólna í 30 mínútur áður en þið hellið honum varlega yfir kökuna.
  5. Kælið kökuna í að minnsta kosti 2 klst áður en þið berið hana fram
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Brauðterta með baunasalati

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af klassískri brauðtertu með vegan útgáfu af hangikjöts- og baunasalati í samstarfi við ORA. Þessa brauðtertu má ekki vanta á hvaða veisluborð sem er sem og á hátíðisdögum.

Ég notast við blandað grænmeti frá ORA sem er lykilatriði í baunasalatinu og “bacon bites” til að fá smá reykt bragð í salatið. Þetta salat er virkilega einfalt og má vel bera fram eitt og sér með kexi eða brauði.

Ég elska að bera fram klassíska íslenska rétti sem eru hefðir fyrir í veislum og á hátíðisdögum og eru veisluréttir líkt og brauðtertur iðulega það sem slær mest í gegn. Eins og flestir sem hafa fylgt okkur lengi vita elskum við að deila með ykkur alls konar uppskriftum af veislumat og mæli ég með að þið kíkið einnig á þessa brauðtertuuppskrift sem er virkilega góð.

Brauðterta með baunasalati

Brauðterta með baunasalati
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 15 Min: 15 Min
Vegan útgáfu af klassískri brauðtertu og "hangikjöts" og baunasalati

Hráefni:

  • 1 dós blandað grænmeti frá ORA
  • 1 dl bacon bites frá Oumph
  • 100 gr vegan majónes (+ 2 msk til að smyrja tertuna)
  • 1/2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/2 tsk salt
  • 3 sneiðar brauðtertubrauð
  • Grænmeti eftir smekk til að skreyta

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál majónesinu og sýrða rjómanum
  2. Bætið út í blandaða grænmetinu, beikon bitunum og salti og hrærið saman
  3. Smyrjið helmingnum af salatinu á brauðtertu brauðsneið og setjið aðra ofan á. Smyrjið restinni af salatinu og lokið síðan með þriðju sneiðinni
  4. Smyrjið vegan majónesi ofan á og á allar hliðar tertunnar
  5. Skreytið með fersku grænmeti og kryddjurtum eftir smekk
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við ORA -

Dásamleg vegan aspasstykki

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af vegan aspasstykki með sveppum og osti. Mín nýja uppháldsútgáfa af klassíska heita brauðréttinum. Stökkt og gott baguette brauð fyllt með gómsætri aspasfyllingu. Betra gerist það ekki!

Að mínu mati er heitur brauðréttur alveg jafn mikilvægur á veisluborðið og kökur og tertur. Ég man að ég var eiginlega mest spennt fyrir aspasbrauðréttunum af öllum kræsingunum sem voru í boði í fjölskylduboðunum þegar ég var yngri. Yfirleitt var brauðrétturinn gerður í eldföstu móti eða í rúllubrauði. Í dag ætlum við að gera hann aðeins öðruvísi.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í brauðréttinn. Úrvalið af vegan mat í Hagkaup er einstaklega gott og þar er hægt að fá allt sem þarf í góða veislu eða önnur hátíðarhöld. Við erum virkilega stoltar að fá að vinna með þeim.

Aspasstykki smakkaði ég fyrst þegar ég vann í Bakarameistaranum yfir jólafríið mitt þegar ég var unglingur. Ég hef ekki smakkað svoleiðis síðan en hef séð síðustu ár að það hefur verið vinsælt að útbúa heitan brauðrétt í baguettebrauði. Í fyrra útbjó Júlía ótrúlega girnilegan heitan brauðrétt með vegan beikoni og ostum og birti hérna á blogginu. Ég ákvað því núna að prófa að gera útgáfu af aspasstykki og ég varð virkilega ánægð með útkomuna.

þegar ég sit og skrifa þetta er föstudagurinn langi og því tilvalið að útbúa brauðréttinn fyrir sína nánustu um páskana til að fá smá pásu frá súkkulaðinu. Hér á blogginu finnurðu ótal uppskriftir sem eru fullkomnar fyrir páskahátíðina. Hér koma nokkrar:

Vegan terta með jarðarberjarjóma

Vegan wellington með Oumph og portobellosveppum

Sítrónukaka með birkifræjum og rjómaostakremi

Fyllingin passar í tvö löng baguette, það má líka skera niður brauð, setja í eldfast mót og blanda fyllingunni við og setja rifinn ost eins og í meira hefðbundnum brauðrétti. Ég mæli samt mikið með því að prófa að gera svona aspasstykki.

Vegan aspasstykki

Vegan aspasstykki
Höfundur: Veganistur
Vegan aspasstykki með sveppum og osti. Mín nýja uppháldsútgráfa af klassíska heita brauðréttinum sem við þekkjum öll. Stökkt og gott baguette brauð fyllt með gómsætri aspasfyllingu.

Hráefni:

  • 2 baguettebrauð
  • 25 gr vegan smjör
  • 150 gr sveppir
  • 1 dós vegan rjómaostur (Ég notaði Oatly påmackan)
  • 1 dl vegan matreiðslurjómi (Notaði Oatly iMat)
  • 1 dós niðursoðinn aspas (2-3 msk af vökvanum notaður líka)
  • 1 tsk eplaedik (má sleppa, en mæli með að hafa)
  • 1 sveppateningur
  • 1 Violife epic mature cheddarostur eða annar vegan ostur
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Paprikukrydd og þurrkuð steinselja að toppa brauðið með (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c undir og yfir hita.
  2. Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu upp úr vegan smjöri.
  3. Bætið rjómaosti, rjóma, eplaediki og aspasvökva út í og hrærið.
  4. Myljið sveppatening út í og hrærið og leyfið fyllingunni að byrja að bubbla. Saltið og piprið eftir smekk.
  5. Skerið aspasinn niður og bætið út í. Rífið ostinn og setjið helminginn af honum í fyllinguna. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað í fyllingunni.
  6. Skerið toppinn af baguettebrauðunum og deilið fyllingunni í þau. Toppið með restinni af ostuinum, smá grófu salti, paprikukryddi og þurrkaðri steinselju. Það má sleppa kryddunum, mér fannst þau passa vel við.
  7. Hitið brauðið í 15-20 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið tekið á sig smá lit.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Vegan skonsur með smjöri og sítrusmarmelaði

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af nýbökuðum skonsum (e. scones) bornum fram með smjöri og sítrusumarmelaði. Skonsurnar eru virkilega einfaldar og fljótlegar en það tekur innan við 30 mínútur að útbúa þær og þær innihalda 5 hráefni sem flestir eiga alltaf til heima. Fullkomnar að bera fram sem morgunmat um helgar.

Skonsur eru mjög vinsælar hérna í Svíþjóð og einmitt oft bakaðar um helgar. Íslenska nafnið gæti eflaust ruglað einhvern þar sem við þekkjum skonsur sem þykkar pönnukökur. Þessar skonsur minna þó meira á brauð og er hægt að leika sér endalaust með deigið. Það er bæði hægt að hafa þær saltar eins og ég gerði núna eða bæta smá sykri í deigið og jafnvel súkkulaði. Eins má nota jógurt í staðinn fyrir mjólk. Ég hef smakkað sætar scones og þær voru alls ekki síðri.

Eins og ég sagði tekur enga stund að útbúa skonsur og í rauninni er best að hræra og hnoða deigið alls ekki of mikið. Þegar mjólkinni hefur verið bætt út í er best að hræra henni saman við þurrefnin hratt í mjög stutta stund og færa deigið svo yfir á eldhúsborðið og hnoða það létt saman. Það þarf alls ekki að líta fullkomlega slétt út (sjá myndirnar að ofan).

Deiginu skipti ég í tvennt og flet út tvær kökur sirka 2-3 cm þykkar með höndunum. Ég sker svo hverja köku í fjóra bita með hníf og sting í þær með gaffli.

Úr koma þessar gómsætu skonsur sem eru langbestar bornar fram nýbakaðar og volgar. Fullkomnar á morgunverðarborðið um helgina.

Færsla dagsins er í samstarfi við St. Dalfour, en þegar ég smakkaði sítrónu- og límónumarmelaðið frá þeim var það fyrsta sem mér datt í hug að það væri örugglega fullkomið á nýbakaðar skonsur. Ég dreif mig inn í eldhús og hófst handa við að prófa og viti menn, ég hafði rétt fyrir mér. Marmelaðið er dásamlega gott og þar sem það inniheldur sítrónur og lime hefur það einstaklega ferskt bragð. Ég smurði góðu vegan smjöri undir og toppaði með marmelaðinu og það var algjör draumur.

Takk fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin

-Helga María

Vegan skonsur

Vegan skonsur
Fyrir: 6-8
Höfundur: Veganistur
Einfaldar og fljótlegar skonsur sem tekur innan við 30 mínútur að útbúa. Þær innihalda 5 hráefni sem flestir eiga alltaf til heima. Fullkomnar að bera fram sem morgunmat um helgar.

Hráefni:

  • 5 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk sykur
  • 60 gr kallt smjörlíki
  • 2 dl vegan mjólk að eigin vali (ég notaði sojamjólk)
  • Hitið ofninn í 250°c undir og yfir hita.
  • Hrærið þurrefnunum saman í stórri skál
  • Skerið niður smjörlíkið og bætið útí og blandið saman við með fingrunum svo deigið verði eins og mylsna.
  • Hellið mjólkinni út í og hrærið hratt og stutt saman. Ekki hafa áhyggjur þó deigið sé klístrað.
  • Stráið hveiti á borð og færið deigið yfir á það. Hnoðið létt i stutta stund. Deilið hveitinu í 2 hluta og mótið kúlu úr hverjum hluta.
  • Setjið smjörpappír á ofnskúffu og fletjið deigið út með höndunum í kringlóttar kökur sirka 2-3 cm að þykkt.
  • Skerið 4 hluta úr deiginu. Það þarf ekki að skera alveg í gegn (sjá mynd að ofan) og stingið í kökuna með gaffli. Bakið í miðjum ofninum í 10-15 mínútur eða þar til þær hafa fengið örlítið gylltan lit.
  • Berið fram með því sem ykkur lystir.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur


-Uppskriftin er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

Spæsí buffaló vöfflur með nöggum

Næsta laugardag, 25.mars er alþjóðlegi vöffludagurinn og því deilum við með ykkur í dag gómsætri útfærslu af vöfflum með spæsí buffaló nöggum, “ranch” sósu og fersku grænmeti.

Við erum í samstarfi með Hagkaup og því ákvað ég að fara og þangað og athuga úrvalið af vöfflujárnum. Þar sá ég að þau eru að selja vöfflujárnið sem ég var búin að dreyma um lengi en það er járn frá merkinu Wilfa, en það gerir fullkomnar, stórar vöfflur sem henta einstaklega vel í svona “matar”vöfflur.

Ég gerði hefðbundnu uppskriftina okkar af vöfflum sem klikkar aldrei og úr henni komu um það bil 6 stórar vöfflur. Ég ákvað að gera “ranch” dressingu sem er mild og bragðgóð með alls konar kryddjurtum en hún passar fullkomlega á móti buffaló sósunni sem ég notaði á naggana.

Ég ákvað að kaupa naggana frá merkinu peas of heaven en þeir eru soja lausir sem hentar einstaklega vel þar sem dóttir mín er með soja óþol. Það er hins vegar mjög mikið úrval af góðum vegan nöggum í Hagkaup og þessi uppskrift passar með flestum þeirra.

Uppskriftina af vöfflunum sjálfum má finna hér.

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum
Fyrir: 3 stórar vöfflur
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 16 Hour: 26 Hour
Einstaklega góðar "matar" vöfflur með spæsi buffaló nöggum, "ranch" sósu og grænmeti.

Hráefni:

Spæsí buffaló vöfflur
  • 3 vöfflur
  • 1 pakki Peas of heaven naggar
  • sirka 1 dl Frank RedHot wings buffaló sósa
  • "Ranch" sósa
  • Fersk salat
  • 1 avócadó
  • 1/2 rauðlaukur
  • Ferskur kóríander
  • Lime
Ranch sósa
  • 2 dl vegan majónes
  • 2 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk laukduft
  • 1 msk niðursaxaður graslaukur
  • 1 tsk dill
  • 1 tsk þurrkuð steinselja eða kóríander
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Gerið vöffludeigið tilbúið
  2. Setjið naggana í ofninn við 200°C og bakið í 16 mínútur
  3. Útbúið "ranch" sósuna eftir uppskrift hér að neðan á meðan að naggarnir bakast
  4. Hitið vöfflujárnið vel og bakið síðan vöfflurnar
  5. Þegar naggarnir eru tilbúnir setjið þá í skál, hellið buffalósósunni yfir og veltið þeim vel upp úr henni.
  6. Skerið rauðlaukinn og avócadóið í þunnar sneiðar
  7. Setjið Ranch sósu, salat, rauðlauk, avócadó, nagga, ferskan kórander og lime sósu á hverja vöfflu.
Ranch sósa
  1. Saxið graslaukinn
  2. Hrærið öllu saman í skál og smakkið til salti og pipar
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Uppskriftin er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Gómsæt vegan gúllassúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðri og bragðmikilli vegan gúllassúpu. Súpan er virkilega matarmikil og er bæði fullkomin í kvöldmatinn og frábær afgangur að eiga inni í ísskáp því hún er bara betri daginn eftir ef eitthvað er. Hún er líka tilvalin í veisluna og ég mæli mikið með því að bera hana með góðu brauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði öll hráefni sem þarf í súpuna. Próteinið sem ég valdi að nota í þetta sinn er Oumph! the chunk sem er ókryddað sojakjöt. Mér finnst það virkilega gott í súpur og pottrétti. Ef þið eruð ekki mikið fyrir það er auðvitað hægt að sleppa því og setja jafnvel tófú eða baunir í staðinn. Ég mæli samt mikið með að nota Oumph!.

Grænmetið sem ég setti í súpurnar voru laukur, hvítlaukur, kartöflur og gulrætur. Það má skipta því út fyrir eitthvað annað eins og sætar kartöflur, rófur og papriku. Ég kryddaði súpuna með paprikudufti, kúmen (og athugið, nú á ég ekki við proddkúmen sem við notum mest í matargerð, heldur kúmen sem er t.d. í kúmenbrauði). Þessi krydd eru mjög ólík og gefa því matnum allt annað bragð.

Ég toppaði súpuna svo með sýrðum rjóma frá Oatly og steinselju. Ég get ekki mælt meira með þessari geggjuðu súpu. Þar er algjört kuldakast um þessar mundir og fátt betra á þannig dögum en góð yljandi súpa.

Langar þig í fleiri hugmyndir að góðri súpu? Prufaðu þá þessar:

Geggjuð sætkartöflusúpa með rauðu karrý og hnetusmjöri

Gómsæt linsubaunasúpa

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

Rjómakennd sveppasúpa

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel! <3

-Helga María

Vegan gúllassúpa

Vegan gúllassúpa
Fyrir: 4
Höfundur: Helga María
Dásamlega góð og bragðmikil gúllassúpa. Bæði fullkomin í kvöldmatinn og frábær afgangur að eiga inni í ísskáp því hún er bara betri daginn eftir ef eitthvað er. Hún er líka tilvalin í veisluna og ég mæli mikið með því að bera hana með góðu brauði.

Hráefni:

  • 1 msk olía
  • 1 pakki Oumph! the cunk eða annað sojakjöt. Hægt að nota tófú eða baunir ef þið kjósið það heldur.
  • 2 meðalstórir gulir laukar
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 msk paprikuduft
  • 1 msk kúmenfræ (ath. ekki broddkúmen sem notað er mikið í matargerð heldur kúmenfræ sem sett eru t.d. í kúmenbrauð)
  • 1 msk hveiti
  • 1 dós (ca 400ml) niðursoðnir tómatar
  • 1,7 l vatn
  • 3 grænmetisteningar
  • 2 lárviðarlauf
  • 2 meðalstórar gulrætur
  • 4 meðalstórar kartöflur
  • 1/2 dl söxuð steinselja
  • Salt og pipar eða chiliflakes eftir smekk
  • Sýrður rjómi frá Oatly til að toppa súpuna með ef maður vill
  • Gott brauð að borða með súpunni

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti á meðalháum hita.
  2. Skerið niður lauk og steikið þar till hann mýkist.
  3. Pressið eða rífið hvítlaukinn útí og steikið í sirka mínútu í viðbót.
  4. Bætið Oumphinu út í og steikið þar til það hefur mýkst og fengið á sig örlítinn lit. Ef þið látið það þiðna fyrir myndi ég skera það í aðeins minni bita, en ef þið steikið það beint úr frysti mæli ég með að taka skæri og klippa það niður í minni bita þegar það er búið að steikjast aðeins.
  5. Bætið tómatpúru, paprikudufti og kúmeni út í og steikið í sirka 2 mínútur á meðan þið hrærið.
  6. Bætið hveitinu saman við, hrærið og steikið 1-2 mínútur.
  7. Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt 1 líter af vatninu (við geymum restina aðeins).
  8. Brjótið grænmetisteninga út í og leggið lárviðarlaufin í og leyfið súpunni að malla á frekar lágum hita í 1-2 klukkutíma.
  9. Skerið niður kartöflur og gulrætur og bætið út í súpuna ásamt restinni af vatninu og leyfið henni að sjóða í 30 mínútur eða þar til grænmetið er mjúkt í gegn. Ef ykkur finnst súpan of þykk, bætið 1-2 dl af vatni í viðbót.
  10. Bætið steinseljunni saman við og smakkið til með salti og pipar eða chiliflakes.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Hvít pizza með kartöflum og timían

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hvítri pizzu eða pizza bianco, með sýrðum rjóma, kartöflum, rauðlauk, timían og chiliflögum. Eftir baksturinn er hún svo toppuð með klettasalati, ristuðum möndlum, vegan parmesanosti og sítrónuberki. Þetta er mín allra uppáhalds pizza sem slær í gegn í hvert skipti sem ég býð vinum og fjölskyldu upp á hana. Ef þið hafið ekki prófað hvíta pizzu mæli ég með því að gera það á næsta pizzakvöldi.

Ég útbjó einfalt og gott pizzadeig sem bæði er hægt að gera í hrærivél og með höndunum. Ég nota aðferðina “slap and fold” sem mér finnst mjög þægileg til að fá gott deig. Í myndbandinu hér að neðan sjáið þið hvernig ég nota þá aðferð.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í þessa gómsætu pizzu. Hagkaup standa sig svo vel í að bjóða upp á spennandi vegan vörur og við erum ekkert smá stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Úr deiginu koma tvær pizzur sem ég myndi segja að hver um sig sé nóg fyrir tvær manneskjur. Sem gerir það að verkum að uppskriftin er fyrir fjóra EN ef þið eruð svakalega svöng, sem margir eru þegar verið er að baka pizzu mæli ég með því að gera tvöfalda uppskrift.

Mörgum finnst eflaust tilhugsunin um kartöflur á pizzu svolítið skrítin, en um leið og þið prófið munið þið sjá hversu ótrúlega gott það er. Galdurinn er að skera kartöflunar mjööög þunnt. Ég notaði mandólín. Ef þið eigið ekki svoleiðis og eigið erfitt með að skera sneiðarnar virkilega þunnt er ekkert mál að skella þeim á pönnu í stutta stund áður en þær fara á pizzuna. Við viljum nefnilega ekki hafa kartöflurnar hráar.

Athugið að á myndinni hér að ofan hef ég sett ristuðu möndlurnar á hana áður en ég bakaði hana. Það geri ég oft en þær eiga það til að brenna við, svo ég prófaði á seinni pizzunni sem ég bakaði að setja þær eftir á og þar sem möndlurnar eru þegar ristaðar og saltaðar fannst mér það betra svoleiðis.

Timían og kartöflur eru guðdómleg blanda að mínu mati. Þar sem pizzan er hvít er engin pizzasósa en í stað hennar smurði ég botninn með sýrðum rjóma sem ég hafði blandað við hvítlauk og smá salt. Ekkert smá gott!!

Vantar þig hugmynd af geggjuðum eftirrétti að bera fram eftir pizzuna? Hér er uppskrift af æðislega góðri súkkulaðimús með appelsínubragði.

Hvít pizza með kartöflum og timían

Hvít pizza með kartöflum og timían
Höfundur: Helga María
Hvít pizza eða pizza bianco, með sýrðum rjóma, kartöflum, rauðlauk, timían og chiliflögum. Eftir baksturinn er hún svo toppuð með klettasalati, ristuðum möndlum, vegan parmesanosti og sítrónuberki. Mín allra uppáhalds pizza sem slær í gegn í hvert skipti sem ég býð vinum og fjölskyldu upp á hana. Ef þið hafið ekki prófað hvíta pizzu mæli ég með því að gera það á næsta pizzakvöldi.

Hráefni:

Pizzadeig fyrir tvær pizzur
  • 500-550 g hveiti (byrjið á því að setja 500 og bætið við ef deigið er mjög blautt)
  • 6 g þurrger
  • 2 tsk salt
  • 2 tsk sykur
  • 4 msk ólífuolía
  • 350 ml vatn (35-37°c)
Hvít pizza með kartöflum og timían
  • Tvö pizzadeig annaðhvort heimagerð eða keypt
  • 250 ml sýrður rjómi frá Oatly
  • 1 hvítlauksgeiri
  • Salt
  • 200 gr rifinn epic mature cheddarostur frá Violife
  • 1 rauðlaukur
  • Kartöflur eftir smekk. Ég notaði sirka 2 litlar á hverja pizzu
  • Ferskt timían
  • Smá ólífuolía
  • Salt og chiliflögur
  • Eftir bakstur:
  • Klettasalat
  • Ristaðar og saltaðar möndlur
  • Hvítlauksolía
  • prosociano (parmesan) ostur frá Violife
  • Rifinn sítrónubörkur

Aðferð:

Pizzadeig fyrir tvær pizzur
  1. Hrærið saman hveiti, þurrgeri, sykri og salti í skál.
  2. Bætið vatni og ólífuolíu saman við.
  3. Deigið mun vera blautt í fyrstu, en hafið ekki áhyggjur. Ef þið notið hærivél hnoðið þar til deigið sleppist frá skálinni. Ef þið hnoðið með höndunum byrjið á því að setja svolítið af hveiti á borðið og hnoða það með blautum höndum og notið svo aðferðina slap and fold. Það er svolítið erfitt að útskýra aðferðina en í myndbandinu hér að ofan sjáiði hvernig ég geri. Þetta geri ég í svolitla stund eða þar til deigið fer frá því að vera blautt í að verða slétt og fínt.
  4. Látið deigið hefast í sirka einn klukkutíma í skál.
  5. Deila deiginu næst í tvennt og útbúið tvær kúlur með því að draga saman kantanna á deiginu. Þetta sýni ég líka í myndbandinu hér að ofan. Leggið viskastykki yfir kúlurnar og leyfið þeim að hefast í 20-30 mínútur í viðbót. Hitið ofninn, pizzasteininn eða pizzastálið á meðan á hæsta hita sem ofninn býður uppá.
  6. Fletjið deigið ekki út með kökukefli heldur notið hendurnar til að fletja út pizzurnar.
  7. Toppið deigið með því sem þið ætlið að hafa á (uppskrift af því hér að neðan) og bakið þar til pizzan hefur fengið lit og osturinn vel bráðnaður. Ég nota pizzastál sem ég hita á hæsta hita með ofninum í sirka 40 mínútur. Ég hef stálið hátt í ofninum og baka pizzuna beint á stálinu. Ég set 2 ísbita eða lítið eldfast mót með vatni í botninn á ofninum og loka honum svo. Það tekur mig bara 3-4 mínútur að baka pizzuna á stálinu. Þetta sýni ég líka í myndbandinu hér að ofan.
  8. Ef þið eigið ekki pizzastál og pizzaspaða myndi ég setja deigið á smjörpappír áður en þið toppið hana með álegginu og rennið því svo beint á ofnplötu.
Hvít pizza með kartöflum og timían
  1. Hrærið sýrðum rjóma saman við hvítlauksgeira og smá salt og smyrjið á pizzadeigið.
  2. Bætið rifnum osti yfir.
  3. Skerið kartöflurnar virkilega þunnt. Ég nota mandolin svo þær verða mjög þunnar. Ég held að ostaskeri ætti líka að geta virkað. Ef þið eigið ekki mandólín eða eigið erfitt með að skera kartöflurnar mjög þunnt er ekkert mál að steikja skífurnar örlítið fyrir svo að þær verði alls ekki hráar þegar pizzan er tilbúin. Skífurnar verða svo þunnar með mandolini að það er engin þörf á að steikja þær fyrir.
  4. Bætið rauðlauk og timían á pizzuna og toppið að lokum með smá ólífuolíu, salti og chiliflögum.
  5. Rennið pizzunni á pizzaspaða ef þið eigið svoleiðis. Mér finnst það enn erfiðasti parturinn en er að æfa mig. Bakið pizzuna þar til hún er orðin gyllt og osturinn vel bráðnaður. Ég skrifa hér að ofan í uppskriftinni að pizzadeiginu hvernig ég baka mínar pizzur á stálinu.
  6. Takið hana út og toppið með klettasalati, vegan parmesanosti, ristuðum og söltuðum möndlum, hvítlauksolíu, sítrónuberki og salti.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og vona að þér líki uppskriftin!

-Helga María

-Þessi færsla er gerð í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Salt-oumph og baunir

Nú styttist óðfluga í sprengidaginn og því deilum við með ykkur í dag umfærðri uppskrift af hini fullkomnu sprengidagssúpu. Þessi súpa er í mjög miklu uppáhaldi hjá okkur en í hana setjum við að sjálfsögðu kartöflur, gulrætur og rófur.

Okkur finnst líka nauðsynlegt að hafa eitthvað matarmikið í súpunni í staðin fyrir saltkjötið og ákváðum við því að kíkja í frystin í hagkaup. Þar fundum við þetta dásamlega saltaða og smóký oumph sem passaði savo ótrúlega vel út í. Það er mjög bragðmikið og fullkomin staðgengill fyrir saltkjötið. Einn pakki passar fyrir sirka 4 skammta af súpu.

Súpan er svo ótrúlega einföld og mælum við með því að fólk geri stóra uppskrift því hún er jafnvel betri daginn eftir. Við steikjum oumphið sér á pönnu og setjum út í hvern og einn disk svo það haldi bragðinu sem best og soðni ekki í súpunni.

Baunasúpa

Baunasúpa
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 12 HourEldunartími: 2 Hour: 14 Hour
Sprengidagssúpa sem má að okkar mati njóta allan ársins hring líka

Hráefni:

  • 500 gr gular hálfbaunir (sprengidagsbaunir)
  • 2 - 2 1/2 lítri vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • vel af salti
  • 1/2 kg kartöflur
  • 1/2 stór rófa
  • 4 gulrætur
  • 1 pakki salty og smóký oumph

Aðferð:

  1. Skolið baunirnar vel og setjið í bleyti daginn áður eða snemma um morguninn.
  2. Hellið vatninu af baununum og setjið í pott með vatninu og sjóðið í 1 1/2 klukkustund. Hrærið reglulega í súpunni á meðan og fleytið froðunni af eftir þörfum.
  3. Bætið grænmetinu, tening og smá salti saman við og sjóðið í 30 mínútur í viðbót.
  4. Smakkið til og bætið við salti eftir þörfum.
  5. Steikið oumphið og berið fram með.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Kókos og súkkulaðimús með pólókexi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af hinum fullkomna eftirrétti. Ótrúlega loftkennd og mjúk súkkulaðimús með kókoskeim og muldu pólókexi. Við lofum því að það munu allir elska þennan gómsæta eftirrétt.

Við fáum oft spurningar um að deila með ykkur freiri eftirréttum sem eru einfaldir og krefst þess ekki að baka eða neitt slíkt. Því ákváðum við að deila með ykkur þessari snilldar uppskrift því hún er svo fljótleg en á sama tíma fullkomin. Létt og loftkennd og ekki þung í maga sem hentar fullkomlega eftir góða máltíð.

Pólókex er að sjálfsögðu í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum þar sem það er ein af gömlu góðu “óvart” vegan vörunum hér á landi. Ég á yfirleitt til pakka af þessu kexi inn í skáp hjá mér til að grípa í með kaffinu.

Ásamt pólókexinu eru einungis þrjú önnur hráefni sem þar í réttinn, að undanskyldum kókosflögum ef fólk vill nota þær til að skreyta hann. Ég nota sweetened condenced coconut milk sem má nú finna í blárri niðursuðudós í flestum verslunum. Þessi vara er ótrúlega bragðgóð, sæt og með kókoskeim.

Kókos og súkkulaðimús með pólókexbotni

Kókos og súkkulaðimús með pólókexbotni
Fyrir: 4-5
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 Hour: 10 Hour
Gómsæt kókos og súkkulaðimús sem "krispý" kexbotni sem við lofum að allir muni elska

Hráefni:

  • 1/2 pakki pólókex
  • 1 ferna vegan þeytirjómi
  • 125 gr suðusúkkulaði
  • 1 dós sweetened condensed coconut milk
  • kókosflögur til að skreyta (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðið er brætt í örbylgju er mikilvægt að hræra vel í því á 20 sekúndna fresti.
  2. Þeytið rjóman vel og hellið súkkulaðinu síðan út í á meðan þið þeytið á fullum styrk.
  3. Bætið kókosmjólkinni út í og þeytið aðeins lengur.
  4. Myljið niður pólókex í glös eða stórt fat, eftir því í hverju þið kjósið að bera fram músina. Mér finnst best að mylja það gróft og hafa smá bita með en þá má líka hafa það alveg fínt.
  5. Hellið músinni yfir kexið og kælið í að minnsta kosti 2 klst áður en músin er borin fram.
  6. Skreytið með meira kexi og kókosflögum
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Frón -

 
 

Súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og súkkulaðiganache

Dúnmjúk súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og rjómakenndu súkkulaðiganache. Svo undursamlega góð. Ég stráði svolitlu af grófu salti ofan á og bar kökuna fram með þeyttum rjóma. Saltið passar svo vel við súkkulaðið, kirsuberjamarmelaðið gefur kökunni ferskleika sem vegur upp á móti sætunni og rjóminn sömuleiðis. Fullkomið jafnvægi að mínu mati.

Kökubotninn er okkar klassíski súkkulaðibotn sem við systur höfum bakað í yfir tíu ár. Það gæti bókstaflega ekki verið auðveldara að baka hann og hann verður alltaf jafn dúnmjúkur og góður. Ég á afmæli á morgun og ákvað að þessi gómsæta kaka yrði mín afmæliskaka. Fullkomin!

Í staðin fyrir hefðbundið krem toppaði ég kökuna með kirsuberjamarmelaði frá St. Dalfour, en þessi færsla er einmitt gerð í samstarfi við þau. Við Júlía notum marmelaðið þeirra mikið í okkar daglegu lífi, bæði í bakstur, ofan á brauð og annað. Hugmyndin um að para kirsuberjamarmelaðið með súkkulaðiköku fékk ég fyrir þónokkru síðan og ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum.

Ofan á marmelaðið setti ég svo súkkulaðiganache. Ég gerði ganache með því að hita rjóma í potti og hella svo yfir smjörlíki og saxað súkkulaði. Áferðin er fyrst eins og þykk súkkulaðisósa en þegar það hefur fengið að kælast í nokkra tíma verður það að ganache sem bráðnar bókstaflega í munninum.

Sjáið bara þessa fallegu kökusneið. Ég hefði ekki getað valið betri afmælisköku!

Ég mæli mikið með því að þið prófið kirsuberjamarmelaðið frá St. Dalfour. Það er bæði geggjað með súkkulaðiköku og líka með góðu kexi og ostum. Ég get ímyndað mér að það væri fullkomið í þessar smjördeigsbökur!

Takk innilega fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

Súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og súkkulaðiganache

Súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og súkkulaðiganache
Höfundur: Helga María
Dúnmjúk súkkulaðikaka með kirsuberjamarmelaði og rjómakenndu súkkulaðiganache. Svo undursamlega góð.

Hráefni:

  • 3 dl hveiti
  • 2 dl sykur
  • 1/2 dl kakó
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 2 dl vatn (gæti þurft að bæta örlitlu við ef deigið er of þykkt)
  • ca 2/3 dl bragðlaus olía
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 msk eplaedik
  • 1 krukka kirsuberjamarmelaði frá St. Dalfour
  • Súkkulaðiganache (uppskrift af því hér að neðan)
Súkkulaðiganache
  • 1 peli vegan þeytirjómi (ég notaði alpro)
  • 300 gr súkkulaði (Ég notaði 200 gr suðusúkkulaði og 100 gr 85% súkkulaði)
  • 50 smjörlíki við stofuhita

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c.
  2. Blandið saman þurrefnunum í skál.
  3. Bætið blautu hráefnunum út í og hrærið saman.
  4. Klæðið bökunarform í smjörpappír (ég notaði 20 cm form) og hellið deiginu ofan í og bakið kökuna í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út þegar stungið er í hana.
  5. Látið botninn kólna alveg áður en þið haldið áfram.
  6. Setjið botninn á kökudisk og skerið hana til hún er ójöfn að ofan, svo hún sé alveg slétt. Smellið hringnum utan um kökuna aftur og bætið sultunni ofan á. Hellið að lokum ganache yfir og látið kökuna kólna í ísskáp í minnst klukkutíma. Það er svo súkkulaðiganache-ið nái að harðna.
  7. Berið fram með þeyttum rjóma.
Súkkulaðiganache
  1. Saxið súkkulaðið og setjið í skál með smjörlíkinu. Passið að smjörlíkið sé við stofuhita.
  2. Hitið rjómann í potti þar til hann nær suðu. Hellið yfir súkkulaðið og setjið lok eða disk yfir og látið standa í 5 mínútur sirka.
  3. Hrærið svo í þannig að súkkulaðið bráðni vel í rjómanum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Kalt núðlusalat með hnetusmjörssósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætu köldu núðlusalati með einfaldri hnetusmjörssósu. Salatið er samansett af þunnum núðlum, þunnt skornu fersku gærnmeti og bragðmikilli sósu.

Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin hjá þeim. Við völdum “glass” núðlurnar frá santa maria í salatið þar sem þær eru örþunnar og einstaklega góðar í kalda rétti. Síðan fann ég Lima baunir í dós hjá þeim en þær hef ég ekki séð í öðrum búðum. Þær henta fullkomlega í asíska rétti hvort sem um er að ræða kalda eða heita rétti.

Hnetusmjörssósan er það sem gefur réttinum bragð en hún er ótrúlega einföld en mjög bragðmikil. Það er hægt að leika sér með aðeins með innihaldsefnin og gera sósuna sterkari eða mildari eftir því hvað hver og einn kýs. Það má einnig sleppa alveg chillimaukinu ef þið viljið hafa hana alveg milda.

Kalt núðlusalat með hnetusmjörssósu

Kalt núðlusalat með hnetusmjörssósu
Fyrir: 4
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 15 MinEldunartími: 3 Min: 18 Min
Gómsætt kalt núðlusalat með bragðsterkri hnetusmjörssósu og fersku grænmeti.

Hráefni:

Hráefni
  • 1 pakki glass núðlur frá santa maria
  • Sirka 1 bolli af smátt sneiddu rauðkáli
  • 1 stór gulrót
  • 1/2 rauð papríka
  • 1/2 gul papríka
  • 2 litlir vorlaukar
  • 1/2 dós lima baunir (lima baunir eru grænar og þær má finna hjá niðursoðnum baunum í hagkaup)
  • hnetusmjörsósa (uppskrift hér að neðan)
  • 1 dl saxað ferskt kóríander (og aðeins meira til að bera fram með ef fólk vill)
  • 1 dl gróft saxaðar salthnetur
  • Lime til að bera fram með
Hnetusmjörssósa
  • 1 dl fínt hnetusmjör
  • 1 dl vatn
  • safi úr 1 lime
  • 2 msk sojasósa
  • 1 kúfull teskeið sambal oelek frá santa maria
  • 1 msk hlynsíróp
  • 1 msk sesamolía
  • 1 hvítlauksrif
  • sirka 1 cm af fersku engifer

Aðferð:

  1. Byrjið á að útbúa núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, en þá eru þær lagðar í bleyti í soðið vatn í 3 mínútur. Hellið vatninu af og skolið núðlurnar vel upp úr köldu vatni svo þær haldi ekki áfram að eldast.
  2. Skerið allt grænmetið niður í þunnar ræmur. Passið að skera gulræturnar extra þunnt.
  3. Skolið lima baunirnar vel.
  4. Útbúið sósuna, og hrærið öllu saman í stóra skál.
  5. Berið fram með söxuðum jarðhnetum, fersku kóríander og lime sneið.
Hnetusmjörssósa
  1. Byrjið á því að hræra saman hnetusmjörinu og vatninu. Best er að blanda saman 1 dl af hnetusmjöri við 1/2 dl af vatni mjög vel og bæta síðan restinni af vatninu út í og hræra vel saman.
  2. Rífið niður hvítlaukinn og engifer mjög fínt.
  3. Blandið restinni af hráefnunum saman við hnetusmjörið.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Vegan pítur með grísku ívafi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að geggjuðum pítum með grísku ívafi, stútfullar af grænmeti, maríneruðu Oumphi og bragðmikilli tzatzikisósu. Hinn FULLKOMNI kvöldmatur að okkar mati.

Færsla dagsins er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin í uppskriftina þar. Hagkaup stendur sig virkilega vel þegar kemur að úrvali af vegan vörum og það er okkur mikill heiður að fá að vinna með þeim.

Í píturnar notaði ég Oumph sem ég lét þiðna og setti svo í maríneringu. Ég vildi hafa kryddið í gyros stíl þar sem það passar virkilega vel með tzatzikisósunni. Það kom að sjáfsögðu virkilega vel út!

Tzatzikisósa í skál

Tzatzikisósa er jógúrtsósa með rifinni gúrku, hvítlauk, ólífuolíu og annaðhvort rauðvínsediki eða sítrónusafa, salti og pipar. Það er gott að bæta út í hana ferskum jurtum og yfirleitt er notað dill eða minta en ég átti til kóríander svo ég notaði það. Það passaði mjög vel fannst mér.

bakki með oumph gyros, pítubrauði og meðlæti

Ég velti því lengi fyrir mér hvort ég vildi gera pítur, gómsætar vefjur úr liba brauði eða baka heimagert pönnubrauð með Oumphinu og tzatzikisósunni en ákvað á endanum að gera pítur því það er svo fljótlegt og gott. Ég notaði frosna pítubrauðið frá Hatting sem er mitt uppáhalds.

Steikt gyros oumph í skál

Lyktin sem fyllti eldhúsið á meðan ég steikti Oumphið var dásamleg og bragðið af því alls ekki síðra. Ég mæli mjög mikið með því að prófa þessa kryddblöndu!

Ég gerði stóra uppskrift af tzatzikisósu því ég vildi eiga afgang í ísskápnum til að bera fram með matnum mínum næstu daga. Mér finnst sósan passa með nánast öllu, svo fersk og góð.

Við elskum Oumph og notum það mikið í okkar matargerð. Ef ykkur langar að elda aðra góða uppskrift með Oumphi þá mælum við mikið með þessu gómsæta tikka masala!

Takk fyrir að lesa og ég vona að þið njótið! <3

-Helga María

Vegan pítur með grísku ívafi

Vegan pítur með grísku ívafi
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • Olía að steikja upp úr
  • Einn pakki Oumph the original chunk (280 gr)
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk timían
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1/2 tsk chiliduft
  • 1 tsk broddkúmen
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1/2 tsk salt
  • pipar eftir smekk
  • 1/4 tsk sykur
  • 2 hvítlauksgeirar pressaðir eða rifnir
  • Tzatzikisósa (uppskrift hér að neðan)
  • 3-4 pítubrauð
  • Grænmeti í píturnar. Ég notaði kál, tómata og rauðlauk
Tzatzikisósa
  • 1 dolla tyrknesk jógúrt frá Oatly (400 gr)
  • 1 gúrka
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk ferskt dill, minta eða kóríander (oftast er notað dill eða minta en ég notaði kóríander í þetta skipti)
  • Sítrónusafi, salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

Oumph í marineringu
  1. Takið Oumph úr frysti og leyfið að þiðna.
  2. Setjið það í skál og bætið restinni af hráefnunum út í.
  3. Látið marinerast í minnst einn klukkutíma (gott að gera tzatzikisósuna á meðan).
  4. Hitið olíu á pönnu og steikið oumphið í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til það fær á sig lit.
  5. Hitið pítubrauð í ofninum og fyllið með grænmeti, Oumphi og sósu. Njótið!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rocky road súkkulaði með pistasíuhnetum, heslihnetum, apríkósum og trönuberjum. Súkkulaðið er svo toppað með appelsínuberki og grófu salti og er FULLKOMIÐ fyrir hátíðleg tilefni eins og til dæmis jólin. Þetta nammi tekur sem enga stund að útbúa og er meðal annars tilvalið sem jólagjöf fyrir þá sem vilja gefa góðgæti í jólapakkann.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju og í þetta sinn notaði ég pistasísukjarna, trönuber, apríkósur og heslihnetur. Til hamingju selur allskonar hnetur, fræ og þurrkaða ávexti og það skemmtilega við þetta rocky road súkkulaði er að það er hægt að gera það algjörlega eftir sínu höfði. Döðlur, valhnetur, möndlur og ristuð graskersfræ myndu t.d. passa ótrúlega vel.

Ég byrjaði á því að rista hneturnar í nokkrar mínútur því ég vildi hafa þær svolítið stökkar. Það má algjörlega sleppa þessu skrefi, ég hef oft gert þetta án þess að rista hneturnar, en mér finnst mjög gott að gera það.

Ég bræddi súkkulaðið með kókosolíu og hlynsírópi á meðallágum hita og skar hneturnar gróft og klippti apríkósurnar út í og blandaði vel saman.

Ég klæddi lítið form með bökunarpappír og setti blönduna ofan í. Það má nota disk, skál, brauðform, fat eða hvað sem er fyrir súkkulaðið. Ég toppaði með aðeins meira af hnetum, grófu salti og rifnum appelsínuberki og leyfði þessu að kólna.

Þetta sælgæti er alveg guðdómlega gott. Hefðbundið rocky road er gert með því að bræða súkkulaði og blanda því saman við sykurpúða, allskonar nammi og oft kexkökur. Það er bókstaflega sykurbomba og mig langaði að gera eitthvað sem hefði sama “kröns” og á sama tíma eitthvað mjúkt sem kæmi í staðinn fyrir sykurpúðana og apríkósurnar gera það algjörlega. Þær eru svo mjúkar og sætar. Sama má segja um trönuberin. Fullkomið á móti stökku hnetunum. Við erum þó að sjálfsögðu með uppskrift að rocky road súkkulaði hérna á blogginu sem er stútfullt af öllu uppáhalds namminu okkar. Uppskriftin er þó nokkurra ára gömul svo það getur verið að þurfi að skipta einhverjum hráefnum út sem ekki fást lengur.

Súkkulaðið líka extra mjúkt og rjómakennt þar sem ég bræddi það með kókosolíu og hlynsírópi. Það minnir örlítið á trufflur og er alveg dásamlegt.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel!

-Helga María

Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum

Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum
Höfundur: Helga María
Dásamlegt vegan rocky road með allskonar hnetum og þurrkuðum ávöxtum. Fullkomið að gera fyrir jólin eða við önnur hátiðleg tilefni

Hráefni:

  • 200 gr gott suðusúkkulaði eða dökkt súkkulaði
  • 30 gr kókosolía
  • 20 gr hlynsíróp
  • 70 gr pistasíukjarnar frá Til hamingju
  • 70 gr heslihnetur frá Til hamingju
  • 50 gr þurrkuð trönuber frá Til hamingju
  • 50 gr þurrkaðar apríkósur frá Til hamingju
  • Gróft salt að toppa með
  • Rifinn appelsínubörkur að toppa með (má sleppa)

Aðferð:

  1. Klæðið form, disk, fat eða skál með bökunarpappír og leggið til hliðar til að nota fyrir súkkulaðið.
  2. Hitið ofninn í 150°c og ristið pistasíukjarnana og heslihneturnar í sirka 5-10 mínútur eða þar til þær eru orðnar stökkar. Passið að brenna þær ekki. (ég tek frá smávegis af hnetunum þegar ég er búin að rista þær sem fara ekki ofan í blönduna heldur toppa ég með þeim í lokinn)
  3. Bræðið súkkulaðið í potti með kókosolíu og hlynsírópi og meðallágum hita. Standið við pottinn og hrærið og passið að súkkulaðið brenni ekki.
  4. Skerið hneturnar niður gróft og bætið út í pottinn (takið frá nokkrar til að toppa með) ásamt trönuberjunum og apríkósunum. Mér finnst best að klippa niður apríkósurnar beint í pottinn. Hrærið vel saman.
  5. Hellið ofan í formið sem þið klædduð með bökunarpappír og toppið með restinni af hnetunum, grófu salti og rifnum appelsínuberki. Leyfið að kólna í kæli eða frysti alveg áður en þið skerið það niður.
  6. Skerið í bita og njótið með öllum sem ykkur þykir vænt um.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Þeyttur vegan fetaostur með fíkjusultu og ristuðum pekanhnetum

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af hátíðlegum þeyttum vegan fetaosti toppuðum með fíkjusultu (eða marmelaði), ristuðum pekanhnetum og rósmarín. Þetta er hinn FULLKOMNI forréttur yfir hátíðirnar og passar einnig dásamlega í jólaboðið eða áramótapartýið. Það tekur enga stund að útbúa þessa dásemd og enn styttri tíma að úða henni í sig.

Ég geri reglulega þeyttan fetaost og yfirleitt hef ég þeytt hann með sýrðum rjóma og notað sem meðlæti með mat. Í þetta sinn vildi ég gera hann aðeins hátíðlegri og jólalegri. Ég þeytti hann því með rjómaosti og eftir að hafa smakkað gómsætt fíkjumarmelaði um daginn vissi ég að það myndi passa fullkomlega með fetaostinum. Pekanhneturnar ofan á gerði ég með því að rista þær á pönnu upp úr ólífuolíu, hlynsírópi, sjávarsalti og fersku rósmarín. Lyktin sem fyllti eldhúsið á meðan ég ristaði hneturnar var ólýsanleg.

Toppurinn yfir i-ið var svo dill og graslaukssnakkið frá Finn crisp, en færsla dagsins er í samstarfi við Finn crisp á Íslandi. Ég er bókstaflega háð þessu snakki og samsetningin af þeytta fetaostinum og snakkinu er dásamleg. Ég á alltaf til poka af snakkinu uppi í skáp vegna þess að það slær alltaf jafn mikið í gegn þegar ég býð vinum uppá það með góðum ostum og sultu.

Ef þú vissir það ekki nú þegar er síðan okkar full af gómsætum uppskriftum að hátíðaruppskriftum fyrir jólin, hvort sem það er fyrir jólabaksturinn, jólaboðið, aðfangadagskvöld eða gamlárspartíið. Ef það er eitthvað sem þér finnst vanta geturðu sent okkur skilaboð og við sjáum hvort við getum ekki reddað því!

Ýttu hér til að finna geggjaðar jólauppskriftir!

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona innilega að þér líki uppskriftin. Ekki hika við að hafa samband við okkur ef það er eitthvað.

-Helga María

Þeyttur vegan fetaostur með fíkjusultu og pekanhnetum

Þeyttur vegan fetaostur með fíkjusultu og pekanhnetum
Höfundur: Helga María
Þeyttur vegan fetaostur toppaður með fíkjusultu (eða marmelaði), ristuðum pekanhnetum og rósmarín. Þetta er hinn fullkomni forréttur yfir hátíðirnar og passar einnig dásamlega í jólaboðið eða áramótapartýið. Það tekur enga stund að útbúa þessa dásemd og enn styttri tíma að úða henni í sig.

Hráefni:

  • 1 stykki vegan fetaostur (ca 200 gr)
  • 1 dolla vegan rjómaostur (ca 150-250 gr)
  • Smá vegan mjólk ef þarf til að mýkja ostinn
  • 1 dl pekanhnetur
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk hlynsíróp
  • 2 tsk ferskt rósmarín
  • Gróft sjávarsalt
  • fíkjumarmelaði eða fíkjusulta
  • 1/2-1 tsk balsamikedik (má sleppa)
  • 1-2 pokar dill og graslaukssnakk frá Finn Crisp

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja fetaostinn og rjómaostinn í matvinnsluvél og blanda. Hellið örlítilli mjólk út í ef blandan er of þykk.
  2. Færið fetaostablönduna í skál eða fat sem þið berið fram í.
  3. Skerið niður pekanhnetur og rósmarín og ristið á pönnu upp úr ólífuolíu, hlynsírópi og smá salti í nokkrar mínútur. Takið af hellunni þegar sírópið hefur þykknað og hneturnar orðnar svolítið ristaðar. Það á ekki að taka langan tíma.
  4. Toppið fetaostinn með fíkjumarmelaðinu og bætið svo pekanhnetunum yfir. Setjið balsamikedik yfir og svo nokkra dropa af ólífuolíu og sírópi. Ég bætti svo við smá rósmarín og grófu salti til að skreyta.
  5. Berið fram með dill og graslaukssnakkinu frá Finn Crisp.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er í samstarfi við Finn Crisp á Íslandi-