Vegan möndlukaka

IMG_2362.jpg

Uppskrift dagsins er af þessari dásamlegu möndluköku. Mamma sendi mér pakka í kringum jólin fullan af allskonar glaðningi frá Íslandi og það fylgdu möndludropar með. Mér fannst því tilvalið að útbúa vegan útgáfu af möndluköku þar sem mér þótti hún svo góð þegar ég var yngri. Eins og flestar af okkar köku uppskriftum er þessi virkilega einföld og inniheldur einungis hráefni sem flestir eiga eða geta auðveldlega nálgast. Það er eitthvað svo dásamleg tilfinning sem fylgir því að baka kökur sem maður vandist því að borða sem barn. Við systur fengum stundum möndluköku hjá ömmu þegar við vorum litlar og okkur þótti hún ótrúlega góð og ekki skemmdi fyrir hvað kremið var fallega bleikt.

IMG_2344.jpg

Ég er nýbúin í prófum og hef því lítið geta bloggað síðan um áramótin, en mér fannst þessi kaka fullkomin sem fyrsta uppskriftin á nýju ári. Það er mikið frost í Piteå þessa dagana og því fylgir dásamlega fallegt veður sem er virkilega frískandi ef maður klæðir sig rétt. Ég kemst í svo rómantískt skap þegar veðrið er svona fallegt og finnst því svo gott að taka mér góðan göngutúr með Sigga og gæða okkur svo á kaffibolla og einhverju góðu bakkelsi þegar við komum heim. Þessi kaka er bókstaflega fullkomin til þess þar sem það tekur enga stund að skella í hana. Svo er upplagt að leyfa henni að kólna á meðan maður fer í göngutúrinn og skella svo saman glassúrnum þegar heim er komið.

IMG_2348.jpg

Ég hef alltaf verið rosalega óörugg þegar ég baka því mér finnst svo óþægilegt þegar hlutir mistakast og ég veit ekki af hverju. Nú eru liðin nokkur ár síðan ég byrjaði að blogga og fór að baka meira en það lifir þó alltaf í mér þetta óöryggi frá því ég var unglingur. Meira að segja þegar ég var að prufa mig áfram með þessa köku sendi ég mömmu og Júlíu endalausar spurningar þó þær hafi ekkert útbúið þessa uppskrift (mamma hefur auðvitað oft bakað hefðbundna möndluköku). Þær reyndu þó sitt besta við að hjálpa mér og þegar ég loksins dreif mig í að prófa þá heppnaðist hún fullkomlega og allar þessar áhyggjur mínar til einskis eins og vanalega.

Vegna þess að ég hef sjálf oft verið óörugg við að baka þykir mér svo mikilvægt að hafa uppskriftir á blogginu sem allir geta bakað, bæði þeir sem hafa mikla reynslu af því að baka og þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref og hræddir við að klúðra einhverju. Við erum komnar með þónokkuð margar uppskriftir af dásamlega góðum kökum sem allir geta auðveldlega gert, súkkulaðiköku, eplaköku, möffins, gulrótarköku og fl. Ég hef boðið upp á margar af þessum kökum við allskyns tilefni og þær slá alltaf í gegn. Ég held að þessi muni því ekki valda ykkur vonbrigðum.

IMG_2363.jpg

Ég vil svo enda á að þakka ykkur fyrir allan stuðninginn á líðandi ári. Það er svo gaman að útbúa uppskriftir fyrir ykkur og við fáum svo mikið af fallegum skilaboðum og myndum frá fólki sem er að elda uppskriftir af blogginu. Við erum ekkert smá spenntar fyrir komandi ári og hlökkum til að deila með ykkur fleiri skemmtilegum vegan uppskriftum. Við viljum líka minna á að okkur þykir ótrúlega gaman að fá hugmyndir af uppskriftum sem þið viljið sjá á blogginu, svo ekki hika við að heyra í okkur ef það er eitthvað.

IMG_2381-2.jpg

Möndlukaka

  • 1 dl sykur

  • 75 g smjörlíki við stofuhita

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1 tsk möndludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 og 1/2 dl vegan mjólk (ég notaði Oatly ikaffe mjólkina)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c.

  2. Þeytið sykurinn og smjörlíkið saman með rafmagnsþeytara þar til það er létt og ljóst.

  3. Sigtið ofan í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið restinni af hráefnunum saman við.

  4. Blandið allt saman þar til það er laust við kjekki. Ekki þeyta of lengi samt.

  5. Smyrjið 20 cm smelluform með smjörlíki (Ég skar út smá smjörpappír og lagði í botninn til öryggis, en það er kannski óþarfi. Ég fjarlægði pappírinn svo þegar kakan var orðin köld). Kakan er passleg í 20 cm hringlaga form og ég mæli ekki með því að nota mikið stærra form því kakan gæti þá orðið mjög þunn. Ég ætla að prufa að gera eina og hálfa uppskrift við tækifæri og sjá hvernig það kemur út í stærra formi og ég bæti því þá hérna inn ef það heppnast vel.

  6. Bakið í 25-30 mínutur. Það fer svolítið eftir ofninum. Minn er t.d ekki með blæstri þannig ég bakaði kökuna á undir og yfir hita. Ég myndi allavega byrja að fylgjast með kökunni eftir 20 mínútur.

  7. Látið kökuna kólna áður en þið setjið glassúrinn á hana.



Glassúr

  • 3 dl flórsykur

  • 3 msk heitt vatn

  • 1 msk Ríbena (það er líka hægt að nota vegan rauðan matarlit. Venjulega er rauður matarlitur úr karmín sem er ekki vegan. Það er þó hægt að finna vegan matarlit en ég veit ekki alveg hvar. Mér finnst Ríbena passa fullkomlega)

  • Möndludropar eftir smekk (1/4 tsk fannst mér nóg)

Aðferð:

  1. Blandið saman vatni, möndludropum og Ríbena

  2. Hellið blöndunni saman við flórsykurinn og hrærið vel saman

  3. Ef glassúrinn er ekki nógu bleikur er hægt að bæta örlitlu ríbena í viðbót

  4. Hellið yfir kökuna og berið fram



Takk innilega fyrir að lesa og vonum að ykkur líki vel

Veganistur

Jólamatur með sænsku ívafi

IMG_2277-2.jpg

Nú hef ég búið í Svíþjóð í nokkur ár og fengið ótrúlega góðan sænskan jólamat. Þess vegna langar mig að deila með ykkur hugmynd af jólamat með sænsku ívafi. Í Svíþjóð er boðið upp á julbord eins og það kallast og er borðið fyllt af allskonar kræsingum. Ég ákvað að útbúa nokkrar uppskriftir sem eru innblásnar af sænsku jólaborði, en það er þó fullt sem vantar hjá mér. Ég hugsaði þessar uppskriftir sem góðar hugmyndir að meðlæti um jólin, eða fyrir þá sem vantar hugmyndir fyrir jólaboðið.

IMG_2244.jpg

Sænskar veganbollur eru eitt af því sem er ómissandi á sænsku vegan jólaborði (ég notaði þær frá Hälsans Kök. Það gæti mörgum þótt það furðulegt og svolítið óhátíðlegt, en þær voru rosalega góðar með öllu meðlætinu. Á borðinu eru svo vanalega “prinskorvar” sem eru litlar pylsur sem steiktar eru á pönnu, og stór jólaskinka. Vegan pylsurnar frá Anamma væru mjög sniðugar sem prinskorv og svo er hægt að gera allskonar í staðinn fyrir jólaskinkuna. Það er bæði hægt að búa til sína eigin úr seitan, kaupa tilbúna úti í búð, eða gera ofnbakað blómkál eða rótarsellerí sem er mjög vinsælt hjá vegan fólki hérna í Svíþjóð.

IMG_2253.jpg

Mér finnst ekkert smá gaman að prufa eitthvað nýtt um jólin. Við sem erum vegan erum í því að búa til nýjar hefðir og vantar oft hugmyndir af einhverju hátíðlegu fyrir jóladag, annan í jólum, gamlárskvöld og öll jólaboðin. Við erum yfirleitt löngu búin að ákveða hvað við ætlum að hafa á aðfangadagskvöld, en þurfum meira að spá í öllum hinum dögunum.

IMG_2255.jpg
IMG_2257-2.jpg

Ég hélt mín fyrstu vegan jól árið 2011 og þá var úrvalið af vegan mat allt annað en þekkist í dag. Þá var það mjög vanalegt að grænkerar borðuðu hnetusteik við öll hátíðleg tilefni. Þegar ég var búin að borða hnetusteikina aðfangadagskvöld, jóladag og annan í jólum var ég oft komin með smá ógeð og fannst því ekkert svakalega spennandi að hafa hana aftur á gamlárs. Í dag erum við svo heppin að hafa endalaust úrval af skemmtilegum vörum og uppskriftum til að prufa eitthvað nýtt.

IMG_2263.jpg

Ég er búin að ákveða að hafa sveppasúpu í forrétt og innbakað Oumph! á aðfangadagskvöld, en uppskriftirnar finniði hér á blogginu. Á jóladag er ég svo að spá í að gera svona sænskt jólaborð en ætla að bæta við heilbakaðri sellerírót með gljáa. Ég er svo að spá í að gera tartaletturnar sem ég birti um daginn á gamlárskvöld. Svo ætlum við að baka lakkrístoppa og mögulega laufabrauð á næstu dögum. Í desert ætla ég að hafa ís einhverja daga, en svo ætla ég að útbúa vegan frysta ostaköku á gamlárs og stefni á að birta uppskrift af henni fyrir áramótin. Við erum þó nú þegar með tvær uppskriftir af gómsætum ostakökum nú þegar á blogginu. Eina svona frysta og aðra úr kasjúhnetum.

IMG_2276.jpg

Vegan jólaborð

Á disknum er ég með:

Kartöflugratín

Rósakál með möndlum og appelsínuberki

Rauðrófu- og eplasalat

Rauðvínssósu

Vegan síld á hrökkbrauði

Vegan kjötbollur frá Hälsans Kök

Grænkál sem ég steikti á pönnu uppúr sinnepi, Oatly rjóma, salti og pipar

Njótið
Veganistur

Vegan síld í sinnepssósu

IMG_2228.jpg

Síld er ekki eitthvað sem að við systur getum sagt að hafi verið hluti af okkar jólum í æsku. Það var þó oft keypt síld á heimilið og hún til yfir jólin en við systkinin borðuðum hana svo sannarlega ekki. Þegar Helga síðan flutti til svíþjóðar og kynntist þeim æðislega vegan jólahefðum sem þar ríkja fór hún að vera forvitin um vegan síld. Við ákváðum því fyrir nokkrum árum að slá til.

IMG_2205.jpg

Við gerðum uppskrift fyrir jólablað fréttablaðsins sem heppnaðist ekkert smá vel. En einhverra hluta vegna gleymdist þessi uppskrift hjá okkur og við komumst aldrei í að setja hana á bloggið. Það er því sannarlega komin tími á að hún fái loksins að koma hérna inn en það verður engin svikin af þessari “síld”.

Síldin er gerð úr eggaldin sem mörgum finnst örugglega skrítin tilhugsun. Okkur þótti það sjálfum fyrst þegar við heyrðum af þessu, en þetta kom okkur ekkert smá mikið á óvart. Eggaldin er fullkomið í þennan rétt þar sem áferðin verðum ótrúlega skemmtileg og það dregur ótrúlega vel í sig allt bragð. Að öðru leiti er uppskriftin hefðbundin og bragðið eitthvað sem að margir kannast örugglega við. En síldin verður einnig svo ótrúlega girnileg í fallegri krukku.

IMG_2227.jpg

Það er mjög sniðugt að gera eina eða tvær uppskriftir af réttinum og eiga í ísskápnum yfir hátíðrnar til að henda á brauð þegar gestir kíkja við eða bara þegar maður verður svangur í öllu jólastússinu. En einnig má gera stóra uppskrift og setja í litlar krukkur og gefa fólkinu í kringum sig, en okkur systur finnst fátt skemmtilegra en jólagjafir sem hægt er að borða. Þær svíkja enganm og fjölskylda eða vinir geta notið saman.

IMG_2238.jpg

Vegan jóla “síld”

  • 1 eggaldin

  • ½ rauðlaukur

  • ½ dl sætt sinnep

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 3 msk matarolía

  • 1 msk rauðvínsedik

  • 1 msk sykur

  • 1 dl oatly-rjómi

  • ½ dl dill

Aðgerð

  1. Setjið vatn í pott ásamt einni matsekið af salti og látið suðuna koma upp. Setið niðurskorið eggaldin út í þegar suðan er komin upp og sjóðið í 5 mínútur.

  2. Hellið vatninu af og leyfið eggaldininu að kólna.

  3. Pískið saman sinnep, sykrur, olíu og edik þar til sykurinn leysist upp. Pískið rjómann og dillið saman við og bætið síðast köldu eggaldininu og niðurskornum rauðlauknum út í.

  4. Leyfið síldinni að standa í ísskáp í um einn sólarhring áður en hennar er notið

Síldin passar fullkomlega á gróft rúgbrauð eða venjulegt ristað brauð og er ómissandi á jólaborðið

-Veganistur

Rósakál með ristuðum möndlum og appelsínuberki

IMG_2168.jpg

Ég uppgvötaði rósakál fyrir nokkrum árum. Mér hefði eiginega aldrei dottið í hug að mér myndi þykja það gott, því ég hafði oft heyrt frá öðrum að það væri hrikalega vont. Því er ég algjörlega ósammála, og í dag borða ég rósakál í hverri viku. Yftirleitt kaupi ég það frosið og borða sem meðlæti með mat, en um jólin kaupi ég það ferskt og útbý það á aðeins hátíðlegri máta.

IMG_2163-2.jpg

Ég hef smakkað margar skemmtilegar og gómsætar uppskriftir sem innihalda rósakál, eins og gratín og fleira gúrmé. Yfir hátíðirnar er ég þó vanalega með kartöflugratín, sósu og fleira sem inniheldur rjóma eða mæjónes, svo ég vil hafa rósakálið aðeins meira ferskt.

IMG_2166.jpg

Þar sem jólamaturinn getur tekið langan tíma er svo gott að gera meðlæti sem þarfnast ekki mikillar fyrirhafnar. Þetta rósakál er einmitt dæmi um svoleiðis meðlæti en smakkast á sama tíma ótrúlega vel og passar fullkomlega yfir hátíðirnar.

IMG_2174-2.jpg

Rósakál með appelsínuberki og möndlum

  • 400 g ferskt rósakál

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1-2 tsk hlynsíróp

  • 1 dl möndlur

  • 2 msk appelsínusafi

  • börkur af einni appelsínu

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið rósakálið í tvennt og takið botninn af ef hann er mjög stór og harður

  2. Saxið niður möndlurnar og þurrristið á pönnu. Takið frá þegar þær eru orðnar ristaðar

  3. Hitið olíu á pönnu og bætið rósakálinu út á

  4. Steikið það í smá stund þar til það er orðið svolítið gyllt á litinn

  5. Bætið út á pönnuna appelsínusafanum og sírópinu og steikið þar til rósakálið er orðið svolítið dökkt

  6. Bætið þá út á möndlunum, berkinum, salti og pipar og steikið örlítið í viðbót.

  7. Berið fram heitt eða kalt

Njótið

Veganistur

Rauðrófu- og eplasalat

IMG_2189-3.jpg

Þetta salat er alveg rosalega einfalt og þarf varla sér færslu. Ég ákvað þó að skella því hérna inn því þetta er mitt uppáhalds meðlæti yfir jólin. Það er svolítið erfitt að segja hversu mikið þarf af hverju, því það fer algjörlega eftir því hversu margir ætla að borða. Ég sker niður epli eins og ég vil og sker svo niður rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið verði af þeim og af eplunum. Svo bæti ég vegan mæjónesi út í eins og mér finnst passlegt. Ég ætla að skrifa hér að neðan hversu mikið ég gerði, en ég gerði einfaldlega það sem mér fannst þurfa svo ég ætti nóg í færsluna, en það myndi þó passa fyrir 3-4 held ég.

Rauðrófu- og eplasalat

  • 1 og ½ afhýtt epli

  • Rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið sé af þeim og af eplunum

  • Nokkrar msk heimagert mæjónes,eða eins og mér fannst passlegt. Uppskrift af mæjónesinu er að finna HÉR

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Skerið niður eplin

  2. Skerið niður rauðbeðurnar

  3. Bætið mæjónesinu saman við ásamt salti og pipar

Njótið

Veganistur

Vegan tartalettur á tvo vegu

IMG_2129-5.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur tveimur uppskriftum af tartalettum. Það var aldrei hefð á okkar heimili að borða tartalettur og ég held ég hafi bara smakkað þær nokkrum sinnum yfir ævina. Hinsvegar hefur mig lengi langað að prufa að gera tartalettur með góðri vegan fyllingu og í gær lét ég loksins verða af því. Ég ákvað að gera tvær útgáfur, en mér fannst nauðsynlegt að gera eina uppskrift sem minnir á hangikjötsfyllinguna sem margir borða. Ég elska aspasbrauðrétti svo mér fannst ég verða að gera svoleiðis útgáfu líka. Báðar heppnuðust alveg ótrúlega vel og komu mér í þvílíkt hátíðarskap.

IMG_2072-2.jpg

Mér finnst alltaf jafn áhugavert hvað mér finnst margt gott, eftir að ég varð vegan, sem er innblásið af mat sem mér þótti aldrei góður áður fyrr. Hangikjöt, grænar baunir og uppstúf var eitthvað sem mér fannst hreinlega vont allt mitt líf, en þegar ég gerði fyllinguna í gær sem er gerð með salty & smoky Oumph! kom það mér á óvart hversu ótrúlega gott mér þótti þetta. Það eru mörg fleiri dæmi um þetta hjá mér og kokteilsósa er eitt sem er mér efst í huga. Ég skildi aldrei af hverju fólki þótti kokteilsósa góð, en í dag þykir mér vegan kokteilsósa alveg geggjuð.

IMG_2088-3.jpg

Reyndar þegar ég hugsa um það hefur mér aldrei þótt matur jafn góður og eftir að ég gerðist vegan. Ég var aldrei spennt fyrir matnum yfir jólin. Mér þóttu marengstertur og aspasbrauðréttir góðir, en allt hitt þótti mér óspennandi eða vont. Í dag eru jólin í algjöru uppáhaldi og ég er alltaf jafn spennt að baka smákökur, lagtertu og lakkrístoppa. Jólamaturinn hefur líka aldrei verið jafn veglegur hjá mér og síðan ég varð vegan. Úrvalið er orðið svo gríðarlegt og grænkerar þurfa ekki lengur að borða hnetusteik í öll mál yfir hátíðirnar eins og fyrir sjö árum þegar ég hélt mín fyrstu vegan jól.

IMG_2104-2.jpg

Reykta og saltaða Oumphið er virkilega gott og mjög jólalegt. Þegar ég gerði tartaletturnar í gær gerði ég bara hálfa uppskrift af hvorri tegund, svo ég ákvað að prufa að gera vegan útgáfu af hangikjötsalati úr afgöngunum. Það kom auðvitað sjúklega vel út, en ég steikti á pönnu afganginn af oumphinu, skar það mjög smátt niður og blandaði við afgangs mæjónes ásamt grænum baunum úr dós og örlitlu hlynsírópi. Þetta fékk svo að standa í ísskápnum í smá stund og ég fékk smá sjokk yfir því hvað þetta minnti mikið á hangikjötsalat (sem mér einmitt þótti aldrei gott þegar ég borðaði kjöt, en finnst alveg geggjað svona vegan).

IMG_2105-3.jpg

Það eru örugglega margir sem hafa aldrei borðað tartalettur og finnst þetta kannski hljóma óspennandi, en ég mæli mikið með að gefa þeim séns. Sjálfar tartaletturnar minna á smjördeig og eru rosalega góðar með fyllingunni. Ég var smá viss um að mér myndi þykja aspas fyllingin miklu betri en hin, en ég get eiginlega ekki valið á milli, mér fannst þær báðar svo ótrúlega góðar.

IMG_2126-4.jpg

Ég ætla ekki að deila uppskrift af meðlætinu í þessari færslu, en uppskriftin af rauðrófusalatinu er þó væntanleg núna eftir helgi. Rósakálið gerði ég einfaldlega með því að steikja það á pönnu upp úr smá olíu og salti og svo í lokinn bætti ég örlitlu hlynsírópi á pönnuna ásamt appelsínuberki og leyfði rósakálinu að brúnast örlítið í því.

IMG_2122.jpg

Tartalettur með aspas og sveppum

  • 1 bolli vegan mæjónes - Mér finnst laaang best og einfaldast að búa til mitt eigið. Hér er uppskrift af því

  • 150 g sveppir

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1 sveppateningur - Ég notaði sveppakraft frá Knorr

  • 180 g aspas úr dós plús 2 msk af safanum af aspasinum

  • Paprikuduft eftir smekk

  • Tartalettur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 180°C

  2. Skerið sveppina niður og steikið á pönnu upp úr smá olíu þar til þeir eru frekar vel steiktir

  3. Bætið út á pönnuna mæjónesi, aspas, safa af aspasinum og sveppakrafti

  4. Skiptið fyllingunni í tartelettuform og toppið með smá paprikudufti

  5. Hitið í ofninum í ca 15 mínútur eða þar til þetta er farið að taka smá gylltan lit.

Tartalettur með Oumph og uppstúf:

Uppstúf:

  • 2 msk smjörlíki

  • 4 msk hveiti

  • 500 ml vegan mjólk

  • 1-2 msk sykur

  • Salt og pipar (hvítur eða svartur)

  1. Hitið smjörið og hveitið í potti og hrærið vel þannig það myndi smjörbollu

  2. Hellið mjólkinni út í hægt þar til úr verður þykk sósa. Ég skrifaði 500 ml að ofan, en það fer svolítið eftir því hvaða mjólk er notuð. Það þarf þó ekki meira en 500 ml en sumir gætu þurft aðeins minna.

  3. Bætið út í sykri, salti og pipar og smakkið til

Tartalettur með Oumphi, uppstúf, kartöflum og baunum:

  • 1 poki salty & smoky Oumph!

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 2-3 meðalstórar soðnar kartöflur - fer svolítið eftir smekk hversu mikið fólk vill af kartöflum, en ég notaði tvær.

  • Grænar baunir í dós eftir smekk

  • Uppstúf eftir smekk - Það mun líklega verða smá afgangur af uppstúf, en ég mæli með því að blanda smá í einu þar til fyllingin hefur þá áferð sem þið kjósið.

Aðferð:

  1. Steikið oumphið upp úr smá olíu á pönnu og skerið svo niður í smærri bita

  2. Afhýðið kartöflurnar og skerið í svipað stóra bita

  3. Blandið saman í skál ásamt grænum baunum og uppstúf. Mér finnst svolítið erfitt að segja nákvæmt magn af t.d baunum eða uppstúf því það er svo misjafn hvað fólk vill, en ég held ég hafi notað sirka 1 dl af baunum og svo hellti ég sósu saman við þar til ég fékk þá áferð sem ég vildi. Þið sjáið á einni af myndunum hérna fyrir ofan hvernig fyllingin mín leit út áður en tartaletturnar fóru í ofninn.

  4. Hitið í ofninum í 15 mínútur eða þar til tartaletturnar hafa fengið á sig gylltan lit.

Takk innilega fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg

Ristaðar jólamöndlur

IMG_2044-3.jpg

Þá er komið að þriðju og síðustu færslunni í þessari litlu jólagjafaseríu minni. Í vikunni hef ég gert tvær konfekt uppskriftir, en ég gerði dásamlegt kókosnammi og súkkulaðitrufflur sem eru með því besta nammi sem ég hef smakkað. Í dag ætla ég ekki að deila konfekti, heldur færi ég ykkur ristaðar jólamöndlur. Þessar möndlur hef ég sjálf gefið nokkrum sinnum í jólagjafir og þær hafa algjörlega slegið í gegn. Það er orðin hefð hjá mér að búa þær til fyrir jólin og ég held það sé ekkert sem lætur heimilið ilma jafn vel og þegar möndlurnar eru í ofninum.

IMG_1994-2.jpg

Ég er með mun fleiri hugmyndir af góðum ætum jólagjöfum, en ákvað að láta þrjár duga í þetta sinn svo ég nái að gera eitthvað annað fyrir jólin. Allar þessar uppskriftir eru ekki bara fullkomnar sem jólagjafir heldur einnig sniðugar til að hafa í skálum yfir jólin og í jólaboðinu. Þær eru líka góðar til að sýna vinum og kunningjum að vegan nammi er alls ekkert síðra en annað sælgæti. Þessar möndlur t.d eru mjög líkar þeim sem maður fær á jólamörkuðum víðsvegar um heim og fólk hefur yfirleitt orðið hissa þegar ég segi því að ég hafi gert þær sjálf.

Ég hef alltaf verið jólabarn, en ég ákvað fyrir nokkrum árum að gera mitt allra besta við að tengja jólin ekki við gríðarlegt stress og pressu til þess að gera allt fullkomið. Ég viðurkenni að í ár hef ég þó upplifað svolítið af þessu. Ég vildi gera íbúðina súper jólalega, gera billjón jólauppskriftir og kaupa sjúklega flottar jólagjafir handa öllum sem ég þekki…

En svo varð ég að minna mig á að þetta er ekki það sem jólin snúast um fyrir mér. Við fljúgum til Noregs núna 17. des svo það hefði varla tekið því að fara að fylla íbúðina okkar af jólaskrauti, og ég reyni að kaupa sem minnst af dóti sem ég hef ekki þörf fyrir. Ég minnti mig líka á að ég blogga því mér finnst það gaman og það eyðileggur bara fyrir mér að setja svona mikla pressu á að ná að gera þúsund uppskriftir fyrir jólin. Þegar ég stoppaði aðeins og andaði náði ég að sjá þetta allt í öðru ljósi sem gerði það að verkum að ég er meira spennt fyrir jólunum en ég hef verið í mörg ár.

IMG_2015.jpg

Hvað jólagjafirnar varðar hef ég oft fengið samviskubit yfir því að geta ekki gefið öllum sem ég vil. Mér hefur liðið eins og ég sé ömurlegasta systir veraldar, því ég hef ekki sent neitt heim til litlu systkinna minna síðustu ár, en mamma hefur verið svo góð að kaupa eitthvað og skrifa nafnið mitt við. Það er svo leiðinlegt að þurfa að skammast sín fyrir að eiga lítinn pening í desember, en ég held að margir námsmenn t.d kannist vel við að eiga lítið eftir af námslánunum þegar fer að líða að jólunum. Auðvitað eru margir aðrir sem eiga lítinn pening fyrir jólagjöfum, en ég er einfaldlega að tala út frá minni reynslu. Ég man að fyrstu jólin sem ég gaf svona jólamöndlur í gjafir fékk ég meiri viðbrögð frá fólkinu í kringum mig en ég hafði fengið áður. Allir urðu himinlifandi og það var enginn sem hugsaði að þetta hlyti að vera því ég ætti ekki pening fyrir einhverju fínna. Möndlur eru sannarlega ekki ódýrar, en allt annað í uppskriftinni er það. Öll kryddin sem ég nota kosta lítið og endast lengi, og svo safnaði ég fallegum krukkum sem ég þvoði vel og fyllti af möndlunum.

IMG_2054.jpg

Mér þætti ótrúlega gaman að heyra hvort þið gefið heimatilbúnar gjafir, og hvort þið hafið fleiri skemmtilegar hugmyndir af ætum jólagjöfum. Eins finnst okkur alltaf jafn gaman þegar þið gerið uppskriftirnar okkar og sendið okkur, eða merkið við okkur á Instagram.

IMG_2027-2.jpg

Ristaðar jólamöndlur

  • 500 g möndlur með hýði

  • 125 g sykur

  • 2 msk aquafaba (vökvinn sem er í dós af kjúklingabaunum - Ég mæli með að nota vökvann af kjúklingabaunum frá Euroshopper sem fást í Bónus, og mér finnst geggjað að nota svo sjálfar baunirnar í þetta dásamlega salat).

  • 1/2 tsk engifer krydd

  • 1/2 tsk allrahanda krydd

  • 1/2 tsk múskat

  • 1 tsk kanill

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hitið bakaraofninn á 135°c.

  2. Skolið möndlurnar með köldu vatni í sigti og látið vatnið renna af þeim áður en þið setjið þær í skál.

  3. Hrærið kjúklingabaunavökvanum saman við möndlurnar ásamt sykrinum og kryddunum.

  4. Smyrjið ofnskúffu með smá olíu, eða leggið á hana bökunarpappír og dreifið vel úr möndlunum yfir.

  5. Bakið möndlurnar í ca 30 mínútur og hrærið í á 10 mín fresti

  6. Leyfið möndlunum að kólna á plötunni eftir að hún er tekin út en hrærið þó reglulega í svo þær festist ekki.

  7. Geymið möndlurnar í loftþettu íláti.

Takk fyrir að lesa og vonum að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg

Vegan súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör

IMG_1960.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri uppskrift sem hentar fullkomlega sem heimatilbúin jólagjöf. Þessar trufflur eru mögulega besta nammi sem ég hef gert. Þær eru svo ótrúlega ljúffengar og bráðna bókstaflega í munninum. Þetta er svona uppskrift sem smakkast eins og hún sé rosalega flókin, en er í raun virkilega einföld og þægileg. Ég fékk mér kúlu með síðdegiskaffinu og mér leið eins og það væru komin jól.

IMG_1876-5.jpg

Í nóvember héldum við Siggi upp á afmælið hans og nokkrir vinir okkar mættu með litlar flöskur af allskonar líkjör sem þau höfðu keypt í Alko, finnsku vínbúðinni, þegar þau fóru í “roadtrip” í Ikea á landamærunum. Þau skildu eitthvað af því eftir, þar á meðal Cointreau appelsínulíkjör. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég smakkaði Cointreau var að hann yrði ég að nota í uppskrift og datt þá í hug að gera trufflur fyrir jólin. Ég var ekki alveg viss hvernig það myndi koma út, en fannst þó trúlegt að líkjörinn myndi passa mjög vel við súkkulaðið, sem hann gerði svo sannarlega. Það er þó hægt að skipta honum út fyrir annan líkjör sem manni þykir góður, eða bara sleppa honum ef maður vill. Ég gerði annan skammt í morgun þar sem ég notaði Amaretto möndlulíkjör og ætla að gera úr honum kúlur í kvöld. Ég smakkaði fyllinguna áður en hún fór í ísskápinn og hún var guðdómlega góð líka. Það er því hægt að leika sér endalaust með svona trufflur.

IMG_1956.jpg

Eins og ég sagði að ofan eru þessar trufflur fullkomnar sem jólagjöf. Það er ekki bara persónulegt og skemmtilegt að gefa heimatilbúnar gjafir, heldur kemur það einnig í veg fyrir að maður kaupi bara eitthvað til að gefa eitthvað, sem oftar en ekki bætir bara við dótið sem fólk kannski notar lítið. Eins eru margir sem eiga ekkert svakalega mikinn pening um jólin og eiga erfitt með að kaupa gjafir handa öllum sem þau vilja gefa. Við Siggi erum bæði í námi og eigum því oft ekki mikinn pening svona í lok annarinnar. Því finnst mér hugmyndin um að búa til gómsætar gjafir frábær.

IMG_1964.jpg

Ég rúllaði nokkrar kúlur upp úr kakó en ákvað líka að hjúpa nokkrar í súkkulaði. Mér fannst bæði alveg virkilega gott, en þessar súkkulaðihúðuðu voru alveg extra góðar að mínu mati. Ég var smá hrædd um að það yrði erfitt að hjúpa kúlurnar, en ég setti þær í frystinn eftir að ég rúllaði þær upp þannig þær fengu aðeins að stífna áður en ég hjúpaði þær og það varð ekkert mál. Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri örugglega líka mjög gott utan um kúlurnar. Eins held ég að 70% súkkulaði passi rosalega vel því fyllingin er svo sæt.

IMG_1981-2.jpg
IMG_1984.jpg

Súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör (ca 15 stk)

  • 1 dl Alpro þeytirjómi -Ekki þeyta hann samt

  • 25 g smjörlíki

  • 200 g suðusúkkulaði

  • 2 msk Cointreau appelsínulíkjör - Eða bara sá líkjör sem ykkur þykir góður. Eins og ég sagði að ofan passar Amaretto líka fullkomlega í trufflurnar en svo setja margir viskí eða annað áfengi. Eins er auðvitað hægt að sleppa öllu svoleiðis og hafa þetta einfaldlega súkkulaðitrufflur. Eins er líka smekksatriði hversu mikill líkjör er settur út í. Mér fannst 2 msk alveg passlegt, en svo er hægt að bæta meiru við ef fólk vill.

  • Kakó til að rúlla upp úr eða súkkulaði ef þið ætlið að hjúpa kúlurnar

Aðferð:

  1. Saxið niður súkkulaði og setjið í skál.

  2. Hitið rjóma og smjörlíki í potti þar til suðan er alveg að koma upp.

  3. Hellið heitu rjómablöndunni yfir og hrærið varlega saman við súkkulaðið með sleikju. Súkkulaðið á að bráðna alveg, en ef það bráðnar ekki er hægt að hella blöndunni aftur í pottinn og setja á heitu helluna, án þess þó að kveikja á henni.

  4. Bætið líkjörnum út í þegar súkkulaðið er bráðið.

  5. Hellið blöndunni í skál og látið hana kólna upp á borði og setjið svo í ísskáp í 4-6 klst eða yfir nótt.

  6. Takið út og mótið kúlur. Ef þið ætlið að rúlla þeim úr kakó gerið það strax en ef þið ætlið að hjúpa þær í súkkulaði mæli ég með að raða þeim á smjörpappír og setja í frystinn í 30 mín og hjúpa þær svo. Ég reif niður appelsínubörk og setti ofan á og mér fannst það koma mjög skemmtilega út.

  7. Geymið í loftþéttu íláti í ísskáp.

Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.

veganisturundirskrift.jpg

Vegan kókoskonfekt

IMG_1921-3.jpg

Áður en ég gerðist vegan var konfekt í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér fannst æðislegt þegar ég fékk heimagert konfekt í jólagjöf, en ég er ein af þeim sem elska heimatilbúnar gjafir. Það er ekkert mál að gera gott vegan konfekt, en það halda margir að eina leiðin til þess sé að gera það úr döðlum og hnetum. Við erum með eina uppskrift af dásamlegum möndlu- og döðlukúlum hér á blogginu, en í dag ætla ég að gera vegan konfekt sem er einfaldlega bara nammi. Ég hef ákveðið að sýna ykkur þrjár uppskriftir næstu daga, sem eru fullkomnar í jólapakkann. Þetta eru allt einfaldar og ótrúlega gómsætar uppskriftir sem slá í gegn, sama hvort fólk er vegan eða ekki. Í dag ætla ég að birta þá fyrstu, og það eru heimagerðir “Bounty” bitar.

Þessir bitar koma þvílíkt á óvart, því þeir minna svo ótrúlega mikið á Bounty súkkulaði. Það tók enga stund að búa þá til og ég naut mín í botn með jólatónlist og kertaljós. Ég er komin í jólafrí og er gríðarlega þakklát að hafa tíma núna fyrir jólin til að gera skemmtilegar uppskriftir. Í fyrra hafði ég engan tíma og missti því svolítið af mínum uppáhalds tíma, sem eru vikurnar fyrir jól, þegar jólastressið er ekki orðið svo mikið og enn er hægt að dunda sér við jólastússið. Núna ætla ég því að njóta þess að gera súper kósý hérna heima og prufa mig áfram með skemmtilegar jólauppskriftir.

IMG_1888.jpg
IMG_1894-2.jpg

Eitt af okkar markmiðum er að sýna öllum að það er ekkert mál að halda jól án þess að borða dýraafurðir. Það er hægt að útbúa vegan útgáfu af nánast öllu og ef ekki, þá er hægt að finna eitthvað annað í staðinn. Við erum með gott úrval af hátíðaruppskriftum hérna á blogginu og ætlum að reyna eins og við getum að koma út nokkrum góðum jólauppskriftum núna á næstu vikum. Eins er æðislegt að sjá hvað fyrirtæki og veitingastaðir eru orðin dugleg að framleiða vegan mat. Það eru ekkert alltof mörg ár síðan við borðuðum hnetusteik í öll mál yfir allar hátíðir og vorum orðnar ansi þreyttar á henni þegar kom að gamlárskvöldi, eins og hnetusteikin er nú góð. Nú er hægt að velja úr ótal skemmtilegum og hátíðlegum uppskriftum og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi um jólin.

IMG_1905.jpg

Vegan kókosbitar (ca 20 stykki)

  • 3,5 dl kókosmjöl

  • 1,5 dl Alpro þeytirjómi - Ekki þeyta hann samt

  • 1/2 dl kókosolía

  • 1/2 tsk vanillusykur

  • 2 msk flórsykur

  • Örlítið salt

  • 200-220 g súkkulaði - Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri fullkomið utan um kúlurnar.

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál kókosmjöli, flórsykri, vanillusykri og salti

  2. Bætið í skálina rjómanum og kókosolíunni og blandið öllu vel saman

  3. Rúllið upp í kúlur eða stykki, raðið á smjörpappír og setjið í frystinn í 30 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði

  5. Veltið kókosbitunum upp úr súkkulaðinu. Leggið bitana á smjörpappír og kælið þar til súkkulaðið er orðið hart.


Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki vel

Veganistur

Ég ætla að breyta lífinu mínu - 5. kafli

IMG_1791-2.jpg

Í dag eru liðnir 8 mánuðir síðan ég ákvað að tileinka árinu 2018 því að breyta lífinu mínu til hins betra. Í dag eru líka liðnir tæplega 3 mánuðir síðan ég byrjaði í tónlistarháskólanum hérna í Piteå og þar af leiðandi tæpir 3 mánuðir síðan lífið mitt breyttist meira en ég hefði nokkurtíman þorað að vona.

Í mars skrifaði ég færslu um það hvernig ég ætlaði að breyta lífinu mínu. Ég ákvað að gefa mér eitt ár í að vinna virkilega mikið í sjálfri mér og sjá svo hvar ég stæði að ári liðnu. Ég ætlaði mér þannig séð ekkert að ganga í gegnum einhverjar gígantískar breytingar, heldur byrja á því að laga daglegar venjur sem mér þótti hafa neikvæð áhrif á mig. Ég hafði í langan tíma eytt dögunum mínum ein heima og oft ekkert farið út úr húsi í nokkra daga nema til að versla í matinn. Venjurnar sem ég vildi breyta voru því flestar á borð við ,,klæða mig í föt daglega, þó ég sé ekkert á leið út úr húsi og geyma kósýfötin þar til á kvöldin” og ,,mæta á kóræfingar þó mig langi alls ekki út” og ,,kynnast fólki og byrja að tala sænsku.” Ég ætlaði mér því að reyna að búa til jákvæðar venjur og einhverskonar rútínu þó ég væri bara ein heima allan daginn. Fljótlega eftir að ég byrjaði í þessari sjálfskoðun áttaði ég mig á því að ég gæti breytt öllum mínum daglegu venjum, en ef ég vildi verða hamingjusöm yrði ég að hætta að vera hrædd við að fara á eftir því sem mig langar. Haustið áður hafði ég skráð mig í fjarnám í mannfræði í háskóla Íslands. Ég skráði mig í námið minni vegna þess hve mikið mig langaði að læra mannfræði og meira því það var kennt í fjarnámi og mig langaði svolítið að komast hjá því að þurfa að svara spurningum um það hvað ég ætlaði gera í framtíðinni. Mér fannst skothelt plan að skrá mig í fjarnám og fá námslán og geta svo bara bloggað og haft það gott. Námið var vissulega áhugavert og ég lærði ýmislegt, en mannfræðin heillaði mig alls ekki og og ég sökk dýpra í einhverskonar einmanaleika og kvíða. Þegar ég hafði byrjað að taka til hjá mér sá ég að ég gæti ekki haldið þessu áfram. Eftir svolitla umhugsun settist ég niður og sótti um í bachelornám í jazzsöng við tónlistarháskólann í Piteå. Stuttu síðar fór ég svo í inntökupróf og komst inn í námið. Fyrir flesta hljómar þetta kannski mjög sjálfsagt, en fyrir ári síðar hefði ég aldrei vogað mér að sækja um í þetta nám, hvað þá mæta í inntökuprófið. Þennan dag þótti mér ég vera hugrakkasta manneskja í heimi. Ég trúði varla að ég hefði mætt í prófið og staðið mig vel. Það sem ég vissi ekki þá var að inntökuprófið var bara byrjunin á því sem myndi gjörbreyta lífi mínu að sumrinu loknu.

mynddd.jpg

Hvernig hefur lífið mitt breyst síðan ég byrjaði í skólanum?

Síðan byrjaði í skólanum hefur lífið tekið u-beygju. Nánast ekkert af því sem ég skrifaði í fyrstu færsluna mína í mars á við lengur. Þessa tæpu 3 mánuði hef ég þroskast meira en ég hef gert síðustu 3 ár. Nánast vikulega geri ég hluti sem ég var dauðhrædd við og það hefur verið verulega gefandi. Ég er í 100% námi í tónlist og syng í djassbandi í skólanum, en utan þess er ég svo hluti af djasstríói með tveimur strákum sem eru á öðru ári í skólanum, Andreas á kontrabassa og Conny á gítar. Tríóið heitir Yrja og við höfum spilað á fínasta hóteli bæjarins og á fleiri stöðum niðrí bæ. Ég hef eignast yndislega vini og tala sænsku allan daginn. Mér líður eins og ég hafi fengið sjálfa mig til baka, er farin að brosa meira og orðin mun afslappaðri í kringum fólk. Vissulega er ég oft stressuð og neikvæð, en það er ekkert í líkindum við það sem var áður, og í nánast hvert skipti sannar það sig að neikvæðnin er bara í höfðinu á mér.

Er ég þá hætt að vinna í sjálfri mér?

Alls ekki. Nú þegar mörg af mínum fyrri vandamálum eiga ekki lengur við, koma upp ný vandamál sem ég þarf að takast á við. Dæmi um þau er t.d. hvernig ég finn endalaust fyrir samviskubiti. Núna þegar ég ræð ekki lengur tíma mínum að öllu leyti sjálf fæ ég oft samviskubiti yfir því að vera ekki nógu dugleg að blogga, hreyfa mig ekki nóg eða vera ekki nógu skipulögð þegar kemur að því að elda næringarríkan og góðan kvöldmat yfir vikuna. Ég er mikið að vinna í því að læra að sætta mig við það að ég get ekki verið 100% í öllu sem ég vil gera, og oft er það erfitt.

Ég þarf líka að leggja mig mikið fram við að leifa svikaraheilkenninu ekki að stjórna mér. Það getur verið rosalega auðvelt að hugsa mikið um hvað strákarnir sem ég spila með séu góðir og reyndir og hausinn á mér reynir oft að segja mér að ég sé veikasti hlekkurinn í bandinu. Það hefur hjálpað mér mikið að tala við aðrar söngkonur í skólanum sem hafa upplifað svipaðar hugsanir, og svo er mikilvægt að minna sig á að svikaraheilkennið segir ekki satt. Það segir manni að efast um sig þegar manni gengur vel og þá er mikilvægt að læra að taka ekki alltof mikið mark á því. Þetta er eitthvað sem ég þarf að minna mig oft á og krefst það mikillar vinnu að breyta þessum hugsunarhætti.

IMG_1782.jpg

Ef ég hef lært eitthvað síðustu mánuði þá er það að ég mun líklega aldrei geta hætt að vinna í sjálfri mér. Ég myndi ekki segja að síðustu ár hafi ég alveg hætt því, en ég hunsaði ákveðin vandamál í von um að komast hjá því að vinna úr þeim. Nú þegar ég sit og skrifa þessi lokaorð er klukkan 8 og ég þarf að leggja af stað í skólann. Þegar ég lít út og dáist að sólarupprásinni átta ég mig á því að síðan ég byrjaði í skólanum hef ég ekki fengið þessa kvíðatilfinningu sem ég fékk oft áður þegar ég þurfti að vakna snemma og mæta eitthvað. Ég hef vissulega verið kvíðin fyrir því að koma fram og fleira en það er allt öðruvísi kvíði. Ég er ekki með hnút í maganum á kvöldin bara því ég þarf að mæta í skólann, heldur vakna ég glöð og fer glöð að sofa nánast á hverjum degi. Ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast betur með. Það er að miklu leyti ykkur lesendum okkar að þakka hvað við höfum þroskast mikið og dafnað síðustu ár. Þið hafið sýnt okkur þvílíkt mikinn stuðning og oft stappað í okkur stálinu, bæði hérna á blogginu og á samfélagsmiðlum.

Helga María

Vikumatseðill 29. október - 3. nóvember

IMG_4026-2.jpg

Mánudagur:
Kalt pastasalat með filé bitum frá Hälsans kök, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk, vorlauk, brokkólí og gulum baunum. Borið fram með hvítlauksbrauði.

Þriðjudagur:
Kartöflu- og púrrulaukssúpa toppuð með brúnum linsubaunum og Oatly sýrðum rjóma. Súpuna ber ég svo fram með hrökkbrauði og hummus. Uppskrift af súpunni er að finna hérna á gamla blogginu mínu.

Miðvikudagur:
Bulgursalat með kjúklingabaunum og ofnbökuðu grænmeti, svo sem papriku, eggaldin, kúrbít og rauðlauk. Borið fram með tahinisósu.

fimmtudagur:
Snarl: Gott brauð með vegan osti, papriku og gúrku. Borið fram með jarðarberjajógúrt.


fösturdagur:
Enchiladas með svörtum baunum og sætum kartöflum. Borið fram með tortilla flögum og Oatly sýrðum rjóma.

Laugardagur
Heimabökuð pizza með vegan pepperóní, sveppum, rauðlauk, ólífum, döðlum og Oatly rjómaosti.


Sunnudagsbakstur:
Eplakaka borin fram með þeyttum kókosrjóma.

veganisturundirskrift.jpg

Bláberjasæla

IMG_1739.jpg

Síðan skólinn byrjaði höfum við verið alveg á kafi og hefur bloggið því aðeins setið á hakanum í haust. Ég (Helga) byrjaði í bachelor námi í jazzsöng hérna í Piteå, sem hefur verið stór draumur síðan ég var barn. Það hefur verið æðislegt og ég get sagt að ég hef ekki verið svona hamingjusöm lengi. Á sama tíma hef ég þurft að læra að skipuleggja tímann minn upp á nýtt. Síðustu ár hef ég haft gríðarlega mikinn tíma og hef því getað ráðið því sjálf hvernig ég eyði deginum. Það hefur því orðið mikil breyting hjá mér síðustu mánuði, og ég er enn að læra að nýta tímann vel svo ég nái að koma öllu fyrir sem ég vil gera. Ég hef þó líka þurft að sætta mig við að ég get ekki endilega gert allt sem mig langar á hverjum degi. Ég viðurkenni að ég hef stundum verið svolítið svekkt yfir því og ég fæ oft samviskubit yfir því að geta ekki verið nógu dugleg í öllu sem ég vil. Í hinum fullkomna heimi myndi ég standa mig gríðarlega vel í skólanum, vera alltaf vel undirbúin þegar ég syng með tríóinu mínu, blogga einu sinni í viku, vera dugleg að pósta á Instagram, snappa, hreyfa mig, nota eins lítið plast og ég get, lesa meira… og listinn heldur áfram. Ég hef sem betur fer áttað mig á því að ég er að setja alltof mikla pressu á sjálfa mig, og er að vinna í því að sleppa tökunum aðeins svo ég nái að njóta þess sem ég er að gera. Það gengur svona misvel hjá mér, en ég finn að þetta er allt á réttri leið.

IMG_1709.jpg

Ég hef komist að því að þegar ég blogga ekki lengi missi ég allt sjálfstraust og mikla hlutina gríðarlega fyrir mér. Allt í einu finnst mér ég ekkert kunna að blogga lengur og fresta því endalaust að taka fram myndavélina og skella í einhverja gómsæta uppskrift. Í hvert skipti sem ég upplifi þetta þarf ekki meira til en að byrja á einni færslu og þá byrjar þetta að rúlla. Í gær ákvað ég að setjast niður og gera vikumatseðil og birta á blogginu. Það eitt og sér var nóg til þess að kveikja í mér. Þegar ég vaknaði í morgun komst ekkert annað að en þessi dásamlega bláberjasæla sem ég hef ætlað mér að birta hérna á blogginu í sirka tvær vikur. Ég rauk fram úr og hófst handa. Ég mundi strax af hverju ég blogga, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og ég gleymi stund og stað á meðan. Allar áhyggjur af prófum, tónleikum og verkefnum hurfu á meðan ég bakaði og myndaði og það er akkurat það sem ég þurfti á að halda eftir annasamar vikur.

Uppskriftin af bláberjasælunni er ótrúlega einföld, eins og flest sem við deilum hérna á blogginu. Hún bragðast dásamlega, fyllir húsið guðdómlegum ilmi og gefur fullkominn haustfíling. Sælan minnir vissulega svolítið á hjónabandssælu, en þar sem ég nota bláber er hún ekki alveg eins. Ég leyfði henni að kólna alveg áður en ég bar hana fram, aðallega svo ég gæti auðveldlega skorið hana fyrir myndatökuna. Þó er líka hægt að bera hana fram volga og þá er æðislegt að hafa þeyttan soja- eða kókosrjóma eða vegan ís með.

IMG_1725.jpg

Bláberjablanda:

(ATH: bollin sem ég notaði er 2,5 dl)

  • 680 gr frosin bláber

  • Safi úr einni sítrónu

  • 1/2 bolli sykur

  • 2 msk hveiti

  • 1 msk maíssterkja

Krömbl:

  • 3 bollar hveiti

  • 3 bollar haframjöl

  • 2 bollar púðursykur. Ég pressaði hann lauslega

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 og 1/2 bolli smjörlíki. Ég bræddi 1 bolla og blandaði saman við deigið og muldi svo niður 1/2 bolla af köldu smjörilíki og hnoðaði saman við með höndunum

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C

  2. Leyfið bláberjunum að þiðna alveg og hellið þeim svo í sigti til að losna við allan auka vökva. Ég kreisti berin einnig örlítið í sigtinu til að taka af smá af safanum, samt bara aðeins.

  3. Blandið berjunum saman við restina af hráefnunum fyrir berjablönduna í blandara, matvinnsluvél eða með töfrasprota. Blandann verður svolítið þunn, en hún mun þykkna í ofninum.

  4. Blandið saman þurrefnunum fyrir krömblið og hellið svo útí bráðna smjörinu og blandið saman með sleif. Brjótið svo út í kalda smjörið og hnoðið saman með höndunum. Ef ykkur finnst deigið mjög þurrt mæli ég með að bæta við örlitlu smjöri.

  5. Hellið tveimur þriðju af deiginu í eldfast mjót og pressið því í botninn. Ég lagði bökunarpappír í formið mitt svo það væri auðveldara að ná sneiðunum upp úr. Eldfasta mótið sem ég notaði er 21x31 cm.

  6. Bakið botninn í 10 mínútur og takið svo út.

  7. Hellið bláberjablöndunni yfir og myljið svo restina af krömblinu yfir.

  8. Bakið í 25-30 mínútur

  9. Hægt er að bera þetta fram volgt, en ef þið viljið ná fallegum sneiðum úr þessu mæli ég með því að leyfa sælunni að kólna.

Vonum að þið njótið :)

veganisturundirskrift.jpg

Matseðill 22-27. október

IMG_0587.jpg

Vikumatseðill 22.-27. október

Mánudagur:
Lasagna með hvítlauksbrauði og salati

Þriðjudagur:
Ofnbakað rótargrænmeti, bulgur, spæsí kjúklingabaunir og tahinisósa

Miðvikudagur:
Hrísgrjónanúðlur í tahini-sataysósu með tófú, gulrótum, hvítkáli, blaðlauk og brokkólí.

Fimmtudagur:
Sojajógúrt með múslí og hrökkbrauð með hummus og tómötum. (Ég er á kóræfingu fram á kvöld og nenni því aldrei að elda á fimmtudögum).

Föstudagur:
Falafelvefjur með chili sambal, jógúrtsósu og grænmeti

Laugardagur:
Borgarar frá Hälsans Kök með vegan osti, steiktri ananassneið, salati og heimagerðri hamborgarasósu. Bornir fram með sætkartöflufrönskum.

veganisturundirskrift.jpg

Ofnbakað vegan nachos

IMG_5518-2.jpg

Nýlega komu á markaðinn ótrúlega gómsætir sojabitar frá Hälsans kök sem við höfum notað mikið í allskonar uppskriftir. Við erum því heldur betur spenntar að deila með ykkur uppskriftinni af þessu fáránlega bragðgóða súpernachosi, í samstarfi við Hälsans kök á Íslandi. Bitarnir eru algjör snilld og koma meðal annars í staðinn fyrir kjúkling í ýmsa rétti. Mér finnst þeir fullkomnir í vefjur, samlokur, matarmiklar súpur og ofnbakaða rétti svo eitthvað sé nefnt. Það er svo æðislegt að sjá hvernig úrvalið af vegan mat verður flottara og fjölbreyttara með tímanum og þar af leiðandi hversu auðvelt það er að vera vegan og halda samt áfram að borða réttina sem við erum vön að borða og okkur þykja góðir.

IMG_5399 (1)-2.jpg

Þegar ég var í menntaskóla var í mikilli tísku að fara með vinunum annað hvort á Hressingarskálann eða Kaffi París og deila matarmiklu súpernachosi. Síðan þá hefur okkur þótt gaman að prufa okkur áfram með eigin uppskriftir af svipuðum rétti, og ég get stollt sagt að þessi uppskrift er mun betri en þeir sem ég fékk á veitingastöðunum. Þetta er einn af mínum uppáhalds föstudagsréttum og bitarnir eru fullkomnir í nachosið.

Það er að sjálfsögðu hægt að leika sér endalaust með svona nachos uppskrift og búa til þær sósur sem manni þykja góðar. Þessi uppskrift er samansett af því sem okkur þykir fullkomið saman á svona nachos:

Guacomole
Sýrðum rjóma
Heimagerðri “ostasósu”
Salsasósu
Fersku mangósalasa
Filébitunum frá Hälsans kök krydduðum með taco kryddblöndu
Fersku kóríander.

IMG_5524.jpg

Nachosið lítur vanalega ekki svona vel út hjá okkur, þetta var gert sérstaklega fallegt fyrir myndatökuna. Vanalega setjum við eitt lag af hverju í eldfast mót og pössum að það sé vel af sósu á hverju lagi. Það lítur því yfirleitt frekar subbulega út, en það er partur af stemningunni að okkar mati.

IMG_5573.jpg

Vegan súpernachos:

  • 1 pakki saltaðar tortillaflögur

  • Hälsans Kök bitar í mexíkóskri kryddblöndu

  • 2-3 dl heimagerð ostasósa

  • 1 dós salsasósa

  • 2-3 dl guacamole

  • ferskt mangósalsa

  • vegan sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Setjið í eldfast mót tortilla flögur, bitana, salsasósu og ostasósu í skiptis í þrjú lög.

  2. Hitið í 200°C heitum ofni í 15 til 20 mínútur.

  3. Setjið sýrðan rjóma, mangósalsa og guacamole yfir þegar nachosið er tekið úr ofninum.

  4. Berið fram með restinni af sósunum ef einhverjar verða eftir.




Steiktir Hälsans Kök bitar:

  • 1 pakki hälsans Kök filé bitar

  • 2 msk olía

  • mexíkósk kryddblanda (keypt í bréfi eða heimagerð):

    • 1 msk tómatpúrra

    • 1-2 hvítlauksrif

    • 1 tsk cumin

    • 1 tsk paprika

    • 1 tsk þurrkað oregano

    • 1/2 tsk kóríander

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 cayenne pipar

    • 1 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur

    • 1 msk limesafi

    • 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Steikið bitana upp úr olíu þar til þeir hafa hitnað örlítið

  2. Blandið kryddunum saman í skál og hellið yfir. Leyfið þessu að malla saman í 10-15 mínútur.




Heimagerð ostasósa:

  • 3/4 bolli grasker (eða 1/2 bolli kartöflur og 1/4 bolli gulrætur. við höfum búið til úr hvoru tveggja og það smakkast alltaf jafn vel)

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið graskerið (eða kartöflurnar og gulræturnar) og skerið niður. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Sigtið grænmetið frá vatninu og hellið í blandara ásamt restinni af hráefnunum og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)




Mangósalsa:

  • 1 dl smátt skorið mangó

  • 1 dl smátt skornir tómatar

  • saxað ferskt kóríander eftir smekk

  • örlítið ferskt lime kreist yfir

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í skál og berið fram með nachosinu.




Við vonum að þið njótið!

Veganistur

Logo_HK CMYK board.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hälsans Kök á Íslandi-

Kasjúhnetuostakaka

IMG_5020.jpg

Eftirréttir eru í miklu uppáhaldi hjá mér en þeir eru, að mínu mati, ekki síður mikilvægir en aðalrétturinn þar sem þeir setja eins konar punkt yfir I'ið í góðu matarboði. Ostakökur finnst mér vera hinn fullkomni eftirréttur. Þær er hægt að gera á ótlejandi mismunandi vegu, bæði mjög sætur eða minna sætar, og svo eru þær oft svo ótrúlega fallegar.

Webp.net-gifmaker (3).gif
IMG_4851.jpg

Uppskrift vikunnar er einmitt af ostaköku en þó ekki hinni hefðbundu ostaköku sem að flestir þekkja. Þessi uppskrift inniheldur engan ost og engar mjólkurvörur. Kakan er því 100% vegan og inniheldur einungis holl og góð næringarefni, en meginuppistaða kökunnar eru kasjúhnetur. Kakan er einnig ekkert bökuð heldur einungis fryst og því alveg hrá.  

IMG_4874.jpg
IMG_5101.jpg

Ég gerði þessa köku í fyrsta skipti fyrir nokkrum árum og varð hún strax ein af mínum uppáhalds. Hún er alveg ótrúlega auðveld þar sem maður skellir einfaldlega öllu í blandara og síðan í form. Hún þarfnast þó smá fyrirvara þar sem hún þarf að vera í frysti í að minnsta kosti 8 klukkustundir. Mér finnst því fullkomið að henda í hana kvöldinu áður en bera á hana fram og geyma hana einfaldlega í frystinum þar til rátt áður en á að njóta hennar.

IMG_5226.jpg
IMG_5172.jpg

Þessi uppskrift hefur einnig þann kost að það er hægt að leika sér endalaust með hana. Uppskriftin er í grunninn alltaf sú sama og svo er hægt að bæta við alls kynns berjum, kaffi eða súkkulaði og þá verður þetta alltaf eins og ný og ný kaka. Hins vegar þarf í kökuna góðan blandara sem ræður vel við að gera kasjúhneturnar að silkimjúkri fyllingu. Þær má leggja í bleyti í svolitla stund til að mýkja upp en það þarf þó kraftmikinn og góðan blandara. Við systur eigum báðar blendtec blandara sem við erum virkilega ánægðar með. Hann er ótrúlega kraftmikill og ég hef ekki enn fundið neitt matakynns sem að hann á erfitt með að tæta niður í frumeindir. Blendtec fæst í heimilstækjum og hentar alveg fullkomlega í þessa uppskrift.

IMG_5129.jpg

Vanilla og jarðaberja kasjúostaka:

Döðlubotn:

  • 15 döðlur

  • 4 dl hnetublanda (t.d. hesli, valhnetur og möndlur)

Aðferð:

  1. Setjið döðlurnar og hneturnar í blandara (mjög hentugt að nota twister jar) og blandið vel þar til blandan verður að þéttri kúlu og allar hneturnar eru vel malaðar.

  2. Þjappið blöndunni í botninn á 22/24 cm formi og frystið á meðan þið útbúið fyllinguna.

Fylling:

  • 500 gr kasjúhnetur (lagðar í bleyti í nokkra klukkutíma ef tími gefst)

  • 4 1/2 dl kókosmjólk

  • 1 1/2 dl agave síróp

  • 2 msk sítróna

  • 2 tsk vanilla (+ef hafa á vanilluköku)

  • u.þ.b. 6-8 frosin jarðaber (einungis sett í helming fyllingarinnar)

Aðferð:

  1. Setjið allt nema jarðaberinn saman í blandarakönnuna og blandið á hæsta styrk þar til balndan verður silkimjúk.

  2. Hellið helming blöndunnar yfir döðlubotninn og frystið. Hafið kökuna í frystinum í minnsta kosti 4 klukkustundir áður en jarðaberjafyllingunni er helt yfir svo skilin verði falleg og bein.

  3. Setjið jarðaberinn út í restina af fyllingunni og blandið á hæsta styrk. Geymið fyllinguna í ísskáp þar til tímabært er að hella henni yfir vanillukökuna. Hafið kökuna í frysti í að minnsta kosti 4 klukkustundir í viðbót.

  4. Takið kökuna út úr frysti hálftíma til klukkutíma áður en hún er borin fram.

 

 

Íslenskar pönnukökur

IMG_4569-3.jpg

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Heiðu, fyrstu íslensku jurtamjólkina og jafnframt því fyrstu fersku jurtamjólkina sem seld er á landinu. Mjólkin er úr höfrum og er hituð á lægra hitastigi en önnur jurtamjólk sem gerir hana enn bragðbetri og gæðameiri. Þar sem mjólkin er ferskvara er mikilvægt að geyma hana í kæli. Heiða fæst bæði ósæt og með örlítill sætu, er undursamlega rjómakennd og bragðgóð og við mælum eindregið með því að styrkja íslenska framleiðslu þar sem hún er mun umhverfisvænni fyrir vikið. Heiða fæst í öllum helstu matvörubúðum landsins.

IMG_4597.jpg

Okkur fannst tilvalið að útbúa klassíska íslenska uppskrift úr mjólkinni og það kom ekkert annað til greina en ekta íslenskar pönnukökur. Við höfum það sem hefð að baka eitthvað gott um helgar. Það er svo róandi að taka sér tíma í eldhúsinu á laugardags- eða sunnudagsmorgni, hlusta á skemmtilegt hlaðvarp og baka eitthvað gómsætt sem fyllir íbúðina góðum ilmi. Við vorum lengi smeykar við að baka íslenskar pönnsur og gerðum alltaf þessar þykku amerísku, sem varla er hægt að klúðra. Það var því ekki fyrr en mamma tók sig til og bakaði vegan útgáfu af íslenskum pönnukökum handa Helgu, sem við áttuðum okkur á því að þessar íslensku eru eiginlega ómissandi og auðveldar í bakstri. 

IMG_4602.jpg

Þessi uppskrift er æði og á mamma okkar heiðurinn af henni. Við elskum að rúlla þeim upp með sykri eða fylla þær af þeyttum vegan rjóma og sultu. Að þessu sinni útbjó Júlía súkkulaðisósu sem hún stráði yfir ásamt ferskum jarðarberjum og flórsykri. Þetta kom ekkert smá vel út. Heiða var alveg fullkomin í baksturinn og það er yndislegt að geta loksins keypt íslenska jurtamjólk sem er dásamlega bragðgóð og ekki skemmir fyrir hvað umbúðirnar eru fallegar. 

IMG_4599.jpg

Hráefni:

  • 8 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2,5 dl eplamauk

  • 100 gr brætt smjörlíki

  • 8-10 dl haframjólkin frá Heiðu

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnum saman í skál.

  2. Bætið við mjólkinni, brædda smjörlíkinu, eplamaukinu og vanilludropunum.

  3. Steikið á háum hita upp úr smá smjörlíki.

Berið fram með því sem ykkur lystir. Júlía bræddi súkkulaði og blandaði saman við örlita mjólk og helti yfir pönnsurnar sínar. Það kom mjög vel út. 

-Veganistur

39295002_297353777512105_765831551215730688_n.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Heiðu-

 

 

Hafra- og speltbrauð með fræjum

IMG_1511-7.jpg

Við fengum skilaboð um daginn þar sem við vorum beðnar að gera fleiri uppskriftir af góðu brauði. Við elskum gott brauð og þess vegna er kannski svolítið skrítið að á blogginu finnist bara tvær brauðuppskriftir, en það eru heimagerðar tortillur og svo ernubrauð. Ernubrauðið er alveg ótrúlega gott, en maður þarf að plana svolítið fram í tímann þar sem deigið þarf að hefast yfir nótt, eða í allavega 8 klst. Stundum fæ ég skyndilega löngun í að baka gómsætt brauð, en nenni ekki að bíða í margar klukkustundir, og þá geri ég þetta gómsæta hafra- og speltbrauð sem ég ætla að deila með ykkur í dag. Þessi uppskrift er ekkert smá einföld og góð og tekur enga stund að gera. 

IMG_1355-2.jpg

Ég vann um stund á veitingastað í Gautaborg og bakaði svipað brauð, sem var virkilega vinsælt. Brauðið innihélt nokkurskonar súrmjólk, sem ég hef skipt út fyrir vegan jógúrt, og svo voru allskonar hnetur í því en ég ákvað að hafa fræ í staðinn því kærastinn minn er með ofnæmi fyrir flestum hnetum. Ég get ekki borið brauðið saman við það sem ég bakaði á veitingastaðnum, þar sem það var ekki vegan og ég smakkaði það aldrei, en ég er viss um að þetta er alveg jafn gott. Uppskriftin er alls ekki sú sama, en hitt brauðið var innblástur við gerð þessa brauðs. 

Ef ég fengi að ráða myndi ég útbúa hlaðborð af mat á hverjum morgni. Ég elska að hafa allskonar að velja úr og þetta brauð er einmitt fullkomið fyrir helgarbrönsinn. Nýbakað brauð, allskonar álegg, nýlagað kaffi, góður appelsínusafi, grautur og ávextir... er hægt að biðja um eitthvað betra?? 

IMG_1490-3.jpg
IMG_1504-2.jpg

Í dag er úrvalið af góðu vegan áleggi orðið endalaust. Hægt er að fá allskonar vegan smjör, osta, skinkur, ótrúlega margar tegundir af hummus, smurosta.. og lengi mætti telja. Ég átti svolítið erfitt með að ákveða hvað ég vildi hafa á brauðinu fyrir færsluna og ákvað á endanum að gera tvær útgáfur. Á sneiðina til vinstri setti ég vegan rjómaostinn frá Oatly, avókadó, sultaðan rauðlauk sem ég keypti úti í búð (Ica fyrir ykkur sem eruð í Svíþjóð), sítronusafa, chilli explosion, gróft salt og svartan pipar. Á hægri sneiðina setti ég svo hummus, kirsuberjatómat, frosinn graslauk og gróft salt. Grauturinn sem er í bakgrunni er svo "overnight oats" með túrmerik og fl. Þið megið endilega láta mig vita ef þið viljið fá uppskrift af grautnum, en ég geri hann daglega og fæ bara ekki nóg. 

IMG_1519-7.jpg

Hafra- og speltbrauð með fræjum

  • 3,5 dl gróft spelt

  • 1,5 dl fínt spelt

  • 2 dl grófir hafrar

  • 1 dl graskersfræ

  • 1/2 dl sólblómafræ

  • 1,5 tsk salt

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 msk olía

  • 3 dl hrein vegan jógúrt

  • 2 dl heitt vatn (bætið við hálfum dl ef þetta verður of þykkt. Deigið á samt að vera þykkt, svolítið eins og slímugur hafragrautur hehe)

  • Gróft salt og fræ til að strá yfir brauðið

  1. Stillið ofninn á 180°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hrærið saman við öllu nema vatninu.

  4. Bætið vatninu við og sjáið hvernig deigið er eftir 2 dl. Ef ykkur finnst það of þykkt, bætið við 1/2-1 dl í viðbót.

  5. Smyrjið brauðform og hellið deiginu í

  6. Bakið í 45-60 mínútur. Það fer rosalega eftir ofnum hversu lengi brauðið þarf að baka. Ofninn minn er frekar lélegur og býður ekki upp á blástur og það tekur alveg rúmlega klukkustund að baka brauðið í honum. Hinsvegar tók það mig 45 mínútur í öðrum ofni um daginn. Brauðið á að vera aðeins gyllt að ofan, en brauðið mitt á myndunum er ekki gyllt, því ég var óþolinmóð og tók það aðeins of snemma út í þetta skiptið.

  7. Ég leyfi brauðinu að kólna aðeins áður en ég sker það, en mér finnst samt gott að hafa það volgt. 

Njótið!! 

Helga María <3

Eplakaka að hætti ömmu

IMG_1302.jpg

Þegar ég var yngri þótti mér ekkert betra en kökurnar hennar ömmu. Hún átti alltaf til nokkrar sortir í ísskápnum og nutum við Júlía þess mikið að vera hjá ömmu og afa yfir kaffitímann og borða yfir okkur af brauði og kökum. 

IMG_1230.jpg

Ein af kökunum sem ég borðaði oft hjá ömmu var eplakaka. Hún var í miklu uppáhaldi og mig hefur lengi langað að búa til vegan útgáfu af henni. Nú hef ég loksins látið verða að því og er mjög ánægð með útkomuna. Í kökuna nota ég aquafaba, sem er vökvinn sem fylgir kjúlingabaunum í dós. Vökvinn er próteinríkur og virkar eins og eggjahvítur í margar uppskriftir. Síðan baunavökvinn "uppgvötaðist" hefur verið ótrúlega skemmtilegt að prufa sig áfram með að nota hann í bakstur, og við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir þar sem hann kemur að góðum notum, meðal annars lakkrístoppa og lagtertu. 

IMG_1294.jpg

Ég hef verið að skora á sjálfa mig að baka meira, og það gengur vel. Í langan tíma var ég viss um að ég væri alveg vonlaus bakari og bakaði því ekkert nema súkkulaðikökuna okkar, því hún gæti eiginlega ekki verið einfaldari. Uppá síðkastið hef ég þó komist að því að ég er kannski ekki alveg jafn vonlaus og ég hélt, en ég minni sjálfa mig líka á að það er allt í lagi þó eitthvað misheppnist af og til. Ég er líka farin að prufa mig meira áfram með brauðbakstur og hlakka til að deila einhverjum góðum brauð uppskriftum með ykkur á næstunni. 

IMG_1351.jpg

Eplakaka

  • 3 dl hveiti

  • 2 dl sykur

  • 1 dl aquafaba (vökvinn af kjúklingabaunum í dós)

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk vanilludropar

  • örlitið salt

  • 75 gr smjörlíki (Bæði Krónusmjörlíki og Ljómasmjörlíki eru vegan og henta mjög vel í þessa köku)

  • 1 dl haframjólk

  • 1-2 epli

  • kanilsykur eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c

  2. Þeytið saman sykur og aquafaba í sirka 3 mínútur í hrærivél eða með rafmagnsþeytara, þannig það sé hvítt og svolítið froðukennt.

  3. Blandið saman í aðra skál hveiti, salti og lyftidufti.

  4. Bræðið smjörlíki og hellið því útí hrærivélaskálina, ásamt mjólkinni og þurrefnunum.

  5. Hrærið öllu saman þannig engir kekkir séu, en ekki hræra of mikið samt.

  6. Smyrjið form og leggið smjörpappír í botninn ef ykkur finnst það betra. Ég geri það oft til öryggis (mér hefur þótt best að nota 20 cm form og þessi uppskrift passar akkúrat í þá stærð).

  7. Flysjið eplið og skerið í þunnar sneiðar, raðið þeim á kökuna áður en hún fer í ofninn.

  8. Bakið í 30-40 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast. Minn er ekkert svakalega góður og hann hefur engan blástur, svo hún tekur kannski örlítið lengri tíma hjá mér, en ég bakaði hana í alveg 40 mínútur

  9. Ég beið með að strá kanisykrinum yfir þar til það voru sirka 15 mínútur í að kakan yrði tilbúin. Það fer algjörlega eftir smekk fólks hversu mikinn kanilsykur þarf, en ég var alls ekkert að spara hann.

  10. Berið fram með vegan þeyttum rjóma eða ís t.d

Vona að þið njótið :) 

Helga María 

Svartbauna- & sætkartöfluenchilada

IMG_4085-2.jpg

Mexíkóskur matur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi mér. Það er eitthvað svo skemmtilegt við að dúlla sér í alls konar litlum sósum og salötum sem síðan koma saman í fallegar bragðsamsetningu og litadýrð. Ef ég mætti ráða myndi ég örugglega borða tortillaflögur og guacamole í hvert mál, mögulega með smá ostasósu.

IMG_3940.jpg

Þessi réttur er einn af þeim fyrstu sem ég fullkomnaði alveg frá grunni þegar ég varð vegan. Ég hef boðið upp á hann ótrúlega oft undanfarin ár og hefur hann alltaf slegið í gegn. Baunir voru eitt af því sem ég þurfti að venjast svolítið að borða þegar ég varð vegan og fannst ekki mjög spennandi. En á smá tíma lærði ég að meta þær og finnst ekkert skemmtilegra í dag en að leika mér með alls kynns baunir. Svartar baunir eru í miklu uppáhaldi, og þá sérstaklega í mexíkóska rétti en ekki skemmir hvað þær eru fallegar í réttinum með tómötunum og sætu kartöflunum. Þær eru einnig alveg ótrúelga næringaríkar og tikka í mjög mörg box í einu hvað varðar næringarefni.

IMG_4000.jpg

Rétturinn er toppaður með tveimur virkilega góðum sósum sem eru alveg svart og hvítt en passa alveg fullkomlega saman. Þessar sósur eru heimagerð enchilada sósa og heimagerð ostasósa. Ostasósan er ein af okkar uppáhalds sósum og finnst mér hún miklu betri ofan á mexíkóska rétti en rifin ostur. Einnig er hún alveg ótrúlega holl og stutt full af næringarefnum. Sósuna má líka borða eina og sér með tortilla flögum en ég geri alltaf rúmlega af henni svo ég eigi afgang til að narta í með afgangsflögunum.

IMG_4026-2.jpg
IMG_3934.jpg

Heimagerð ostasósa

  • 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)

  • 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)

Vegan Enchilada sósa:

  • 3 msk olía

  • 2 msk hveiti

  • 5 msk tómatpúrra

  • 2 msk chilliduft

  • 1 tsk broddcúmen

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 3 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hrærið saman í litlum potti á miðlungshita olíu og hveiti.

  2. Bætið tómatpúrru ásamt kryddi útí og blandið vel

  3. Bætið að lokum hálfum desilíter af vatni út í, í einu, þar til öllu vatninu hefur verið hrært saman við. Sósan þarf ekkert að sjóða, aðeins að hitna vel.

IMG_4047.jpg

Sætkartöflu & svartbauna enchilada:

  • 1 sæt kartafla

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur

  • 1 paprika

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 2 msk saxaður ferskur kóríander

  • 2 tsk broddcúmen

  • 2 tsk malaður kóríander

  • 2 tsk paprikuduft

  • 1 tsk chilliduft

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar

  • 1/2 lítil krukka salsasósa

  • 2 msk vegan rjómaostur (oatly passar mjög vel)

  • Helmingur af enchilada sósunni

  • 8 maís tortillur

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita. Setjið kartöflubitana með vatni svo það fljóti yfir í pönnu og látið malla á meðan þið saxið niður papriku, lauk, hvítlauk og kóríander.

  2. Þegar kartöflurnar hafa fengið að sjóða í 15 mínútur hellið þeim í sigti og látið vatnið renna vel af.

  3. Steikið á pönnunni upp úr örlitlu vatni, lauk, hvítlauk og papríku. Þegar grænmetið hefur fengið að mýkjast aðeins bætiði við sætu kartöflunum og svörtu baununum ásamt niðursoðnum tómötum, salsasósunni, rjómaostinum og kryddinu. Látið malla í 10 mínútur áður en þið setjið enchilada sósuna saman við.

  4. Setjið fyllingu í miðja maíspönnukökuna, rúllið upp og komið fyrir í heldföstu móti. Endurtakið þetta með allar 8 pönnukökurnar. Smyrjið enchilada sósunni yfir og hellið síðan heimagerðu ostasósunni þar yfir. Bakið í 190°C heitum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.

Frosin ostakaka með Oreo botni

IMG_1113-3.jpg

Það er fátt sem toppar góða máltíð betur en gómsætur eftirréttur. Þegar ég held matarboð þykir mér eftirrétturinn oft alveg jafn mikilvægur og máltíðin sjálf. Eins og það er þægilegt að kaupa góðan vegan ís, ávexti og súkkulaði, þá er líka stundum skemmtilegt að útbúa eitthvað aðeins meira extra. Það er virkilega auðvelt að gera allskonar vegan eftirrétti og sætindi, og við ætlum að reyna að vera duglegri að birta uppskriftir af svoleiðis hérna á blogginu. 

IMG_1029-3.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af ótrúlega góðri vegan ostaköku. Ég myndi kalla þetta blöndu af ostaköku og ísköku því best er að borða hana nánast beint úr frystinum. Þessi kaka er svo góð að ég hef ekki getað hætt að hugsa um hana síðan ég gerði hana. Oreo botninn passar fullkomlega við fyllinguna sem hefur smá kaffikeim. Ég held það væri gaman að gera úr uppskriftinni litlar ostakökur í bollakökuformi, til að bjóða upp á í matarboðum eða afmælum. 

IMG_0964-2.jpg

Ég get ekki sagt að ég hafi alist upp við að borða ostakökur, en þær eru núna orðnar mikið uppáhald hjá mér. Ég er með aðra mjög góða uppskrift í pokahorninu sem er líka frosin, en á eftir að prufa mig áfram með bakaðar ostakökur. Ég get þó lofað ykkur því að um leið og ég hef masterað svoleiðis köku fáið þið uppskriftina strax. Ég er búin að skora á sjálfa mig að ögra sjálfri mér meira þegar kemur að því að útbúa kökur og deserta. Mér finnst ekkert mál að elda mat og það kemur til mín mjög náttúrulega, en ég er rosalega óöruggur bakari og er yfirleitt með Júlíu í tólinu á meðan ég baka. Ég er þó ákveðin í að hætta að vera hrædd við að baka og sætta mig við það að stundum misheppnast hlutirnir í fyrsta sinn og þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur. 

IMG_1066-2.jpg

Þið megið endilega láta okkur vita hvað er ykkar uppáhalds desert og hvort það er eitthvað sem þið viljið að við reynum að "veganæsa." Við erum með endalausar hugmyndir af kökum og skemmtilegu bakkelsi sem okkur langar að setja á bloggið, en það væri mjög gaman að heyra frá ykkur hvað er í uppáhaldi. 

IMG_1120-2.jpg

Hráefni: 

  • 20 Oreo kexkökur

  • 70 gr bráðið vegan smjör (notið hvaða vegan smjör sem er virkar, t.d Krónu smjörlíki eða Ljóma smjörlíki)

  • 1 þeytirjómi frá Alpro (2 dl)

  • 2 öskjur påmackan rjómaosturinn frá Oatly (300gr)

  • 1,5 dl sykur

  • 1 msk vanillusykur

  • 2-3 msk kalt uppáhellt kaffi (fer alfarið eftir því hversu mikið kaffibragð þið viljið hafa. Ég setti 2 msk og það var mjög milt kaffibragð af minni, sem mér fannst fullkomið).

Aðferð:

  1. Myljið niður Oreo kexið, annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í lokaðan nestispoka og brjóta kexið með kökukefli. Hellið muldu kexinu í skál.

  2. Bræðið smjörið, hellið því ofan í skálina og blandið vel saman við kexið með sleif.

  3. Hellið blöndunni í 20 cm smelluform og þrýstið vel í botninn. Setjið formið í frystinn á meðan þið undirbúið fyllinguna.

  4. þeytið rjómann í stórri skál og leggið til hliðar.

  5. Bætið restinni af hráefnunum í aðra stóra skál og þeytið saman.

  6. Bætið þeytta rjómanum útí skálina og þeytið allt saman í nokkrar sekúndur, eða þar til allt er vel blandað saman.

  7. Hellið blöndunni ofan í smelluformið og setjið í frystinn yfir nótt eða í allavega fjóra klukkutíma.

  8. Toppið kökuna með því sem ykkur lystir. Í þetta sinn bræddi ég súkkulaði og toppaði með því, sem voru smá mistök því það var virkilega erfitt að skera í gegnum súkkulaðið þegar það var orðið frosið. Næst myndi ég bræða súkkulaðið og blanda saman við það nokkrum matskeiðum af þykka hlutanum úr kókosmjólk í dós, því þannig harðnar súkkulaðið aldrei alveg. Eins er ótrúlega gott að toppa kökuna bara með muldu Oreo kexi, súkkulaðikurli eða setja yfir hana fullt af ferskum jarðarberjum þegar hún er tekin út. Í rauninni er kakan fullkomin ein og sér, en útlitsins vegna finnst mér skemmtilegt að toppa hana með einhverju gómsætu.

  9. Berið kökuna fram nánast beint úr frystinum. Gott er að láta hana standa í nokkrar mínútur, en hún er svolítið eins og ísterta og er því best ísköld.

Njótið
Helga María